Categories
Fréttir

„Áhyggjur venjulegs fólks“

Deila grein

06/10/2025

„Áhyggjur venjulegs fólks“

Sigurður Ingi Jóhannsson, alþingismaður og formaður Framsóknar, spurði forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi um mótvægisaðgerðir stjórnvalda í kjölfar uppsagna og samdráttar. Sigurður Ingi benti á mikilvægi þess að næstu skref stjórnvalda væru skýr í kjölfar vaxandi atvinnuleysis, uppsagna á Bakka við Húsavík og áhrifum falls Play á ferðaþjónustu.

Sigurður Ingi lýsti yfir áhyggjum af þróun efnahagsmála þrátt fyrir sterka stöðu ríkisfjármála í nýlegum fjárlagatölum.

„Við þekkjum að það er öflugt atvinnulíf á Íslandi sem býr til mikið af störfum og við höfum blessunarlega búið við það mjög lengi. Á síðustu vikum hafa hins vegar hrannast upp ákveðin óveðursský eða í það minnsta áskoranir.“ Sigurður Ingi vísaði til mats Hagstofunnar um samdrátt á öðrum ársfjórðungi, falls Play og uppsagna „nær allra“ starfsmanna á Bakka við Húsavík.

Atvinnuleysi er að hækka, húsnæðismarkaðurinn er að kólna og þrálát verðbólga ásamt háum vöxtum er að bíta á heimilum og fyrirtækjum. Óskaði Sigurður Ingi eftir skýrum mótvægisaðgerðum stjórnvalda, bæði gagnvart svæðisbundnum áföllum, s.s. á Norðausturlandi, og með beinum stuðningi við ferðaþjónustu yfir vetrarmánuðina. „Kemur til greina að fara í markaðsstarf til að tryggja að það verði ekki svona mikið fall á þessum erfiða tíma?“ spurði hann og bætti við að um væri að ræða áhyggjur „venjulegs fólks“.

Sigurður Ingi beindi jafnframt sjónum að Seðlabankanum og kvað brýnt að stjórnvöld settu fram sínar væntingar og viðbrögð í aðdraganda vaxtaákvörðunar bankans á miðvikudaginn. „Hvers ætlar ríkisstjórnin að grípa til?“ spurði hann forsætisráðherra.