Categories
Fréttir

Háir vextir vinna gegn nýsköpun

Deila grein

07/10/2025

Háir vextir vinna gegn nýsköpun

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður, varaði við því í störfum þingsins að háir vextir væru farnir að vinna gegn markmiðum um eðlilegan hagvöxt, nýsköpun og framþróun. Þórarinn Ingi sagði að flest bendi til þess að Seðlabankinn lækki ekki vexti þegar peningastefnunefnd bankans tekur næstu ákvörðun á morgun, miðvikudag 8. október.

„Fyrirtæki bíða með að þróa nýjar lausnir og fresta tækjakaupum. Frumkvöðlar taka litla sem enga áhættu,“ sagði Þórarinn Ingi og bætti við að lítil og meðalstór fyrirtæki greiði nú „allt að 11% vexti“ af fimm ára lánum. Að hans mati leiti fyrirtæki í vaxandi mæli í verðtryggð lán „rétt eins og almenningur“, sem hann sagði merki um þunga vaxtabyrði.

Landbúnaður og sjávarútvegur undir álagi

Þórarinn Ingi nefndi sérstaklega landbúnað, matvælaframleiðslu og sjávarútveg sem greinar sem þegar glími við hærri aðfanga- og launakostnað, auk óvissu um eftirspurn og afkomu. „Þegar vextir haldast svo háir til lengri tíma hverfa fjárfestingar eins og dögg fyrir sólu.“

Til að undirstrika áhrifin vísaði þingmaðurinn í dæmi: Óverðtryggt 15 milljóna króna lán til fimm ára geti í dag borið tæplega 1,3-1,5 milljónir króna í árlega vexti. „Hver getur tekið slíka áhættu?“

Kallar eftir þverpólitískri sátt

Í lok ræðunnar hvatti Þórarinn Ingi til þess að nýsköpun hægði ekki á „út árið 2026“ og lagði til að komandi fjárlagaumræða snerist um þverpólitíska sátt um hallalaus fjárlög fyrir árið 2026. „Það er kominn tími til,“ sagði hann að lokum.