Categories
Fréttir

Jöfnun raforkukostnaðar: „Réttlætismál að allir sitji við sama borð“

Deila grein

08/10/2025

Jöfnun raforkukostnaðar: „Réttlætismál að allir sitji við sama borð“

Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður, lagði áherslu á í störfum þingsins á Alþingi að ljúka jöfnun á dreifikostnaði raforku um land allt. Hann lýsti málinu sem „réttlætismáli“ og sagði eðlilegt að heimili og fyrirtæki, óháð búsetu, stæðu jafnfætis í grunnkostnaði vegna raforku.

„Að mínu mati er hér um réttlætismál að ræða, að allir íbúar landsins sitji við sama borð er kemur að kostnaði heimila eða fyrirtækja vegna raforku,“ sagði Stefán Vagn. „Fyrir okkur á landsbyggðinni, sem höfum verið að berjast fyrir uppbyggingu og öflugu atvinnulífi, er þetta einn af þeim þáttum sem skipta miklu máli.“

Stefán Vagn rifjaði upp að Alþingi hafi árið 2004 samþykkt lög um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku. Markmið laganna væri að mæta hærri kostnaði í dreifbýli með sérstökum jöfnunargjaldi sem rynni í gegnum dreifiveiturnar. Þrátt fyrir það hefði misræmið haldið áfram að vaxa og full jöfnun ekki náðst.

„Kostnaður við dreifingu raforku er mismikill í dreifbýli og þéttbýli og hefur farið vaxandi,“ sagði hann og bætti við að fjármunum úr jöfnunarkerfinu væri skipt í hlutfalli við notkun og kostnað dreifiveitna, en að það nægði ekki til að brúa bilið að fullu.

Hvað kostar að ljúka jöfnun?

Stefán Vagn nefndi og vísaði til að tæplega 420 kr. hækkun á mánaðarreikningi heimila á höfuðborgarsvæðinu nægja til að jafna leikinn.

„Til þess að ná fullri jöfnun þarf að hækka orkureikninga íbúa á höfuðborgarsvæðinu um tæplega 420 kr. á mánuði. Þá standa íbúar alls landsins jafnfætis þegar kemur að kostnaði vegna nýtingar okkar sameiginlegu auðlinda og innviða.“

„Þetta er sanngirnismál sem við hljótum að vera sammála um að leysa.“