Sigurður Ingi Jóhannsson, alþingismaður og formaður Framsóknar, gagnrýndi í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi aðgerðir stjórnvalda í baráttunni við verðbólgu og vexti og sagði svokallaða „sleggju“ forsætisráðherra í aðdraganda kosninga ekki hafa borið árangur. Sigurður Ingi hvatti Seðlabankann til að endurskoða íþyngjandi skilyrði sem sett hafi verið á fyrstu kaupendur og ungt fólk, og lagði áherslu á að draga kerfisbundið úr vægi verðtryggingar á húsnæðislánum.
Kallar á óverðtryggð, löng föst lán
Sigurður Ingi vísaði til þingsályktunartillögu sem hann mælti fyrir á dögum. Tillagan felur í sér áskorun til ríkisstjórnarinnar og fjármála- og efnahagsráðherra um að skoða greinargerð sem hann lét vinna um innleiðingu óverðtryggðra, langra lána með föstum vöxtum, líkt og tíðkast í nágrannalöndum á borð við Danmörku. Markmiðið væri að „taka gríðarlega stór skref“ til að minnka vægi verðtryggingarinnar og að hún hyrfi að lokum úr íslensku fjármálakerfi og samfélagi.
Áhyggjur af fyrstu kaupendum
Sigurður Ingi tók undir áhyggjur af stöðu ungs fólks á húsnæðismarkaði og benti á að peningastefnan væri hægvirk þegar stór hluti lána væri verðtryggður. Hann sagði að jafnvel seðlabankastjóri hefði lýst yfir áhyggjum af stöðu fyrstu kaupenda og að skilyrðin sem þeim hefðu verið sett gætu þurft endurskoðunar við.
Kallar eftir skýrum svörum
Sigurður Ingi sagði að Framsókn hefði árum saman unnið að því að draga úr vægi verðtryggingar og minnti á að flokkur innan ríkisstjórnar hefði lofað í kosningabaráttu að skoða danska fyrirkomulagið. Sigurður Ingi kvaðst vilja heyra viðbrögð fjármála- og efnahagsráðherra og ríkisstjórnarinnar við framlagðri tillögu, sem fór í gegnum fyrri umræðu á Alþingi á dögum.