Categories
Fréttir

Eldri borgarar fái greitt fyrir íslenskustuðning án skerðingar bóta

Deila grein

15/10/2025

Eldri borgarar fái greitt fyrir íslenskustuðning án skerðingar bóta

Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, kynnti þingsályktunartillögu, í störfum þingsins, þess efnis að eldri borgurum verði gert kleift að taka þátt í og fá greitt fyrir íslenskustuðning í leik- og grunnskólum sem og á vinnustöðum, án þess að greiðslur hafi áhrif á bætur eða réttindi í almannatryggingakerfinu.

Tillagan felur fjármála- og efnahagsráðherra að móta útfærslu á verkefninu. Lagt er upp með að eldri borgarar séu ekki ráðnir sem staðgenglar í kennslu heldur styðji fólk sérstaklega við að æfa íslensku í daglegum aðstæðum.

„Þetta snýst um að hjálpa fólki að æfa sig í íslensku. Ef fólk talar ekki sama tungumálið er aukin hætta á árekstrum,“ sagði Halla Hrund. Hún vísaði til reynslu nágrannalanda og sagði nauðsynlegt að bregðast við strax til að efla sameiginlegt mál og samfélag.

Halla Hrund lagði áherslu á að eldri borgarar gætu gegnt lykilhlutverki í verkefninu: „Eldri borgarar eru vitringar samfélagsins. Þar er viskan og þekkingin á menningu og sögu okkar,“ sagði hún og taldi að þátttaka þeirra gæti eflt tengsl milli kynslóða og auðveldað nýjum Íslendingum að fóta sig í samfélaginu.

Halla Hrund sagði hlutfall íbúa af erlendum uppruna hafi hækkað úr 7,5% árið 2012 í um 20% í dag, og að í sumum byggðarlögum gæti hlutfallið verið nær eða yfir helmingshlutfalli. „Þörfin er gríðarleg,“ og hvatti hún þingheim til að styðja tillöguna.

„Ég vona að þingheimur styðji þessa tillögu og óska eftir stuðningi við hana,“ sagði Halla Hrund að lokum.