Miðstjórnarfundur Framsóknar haldinn 18. október 2025 gagnrýnir stefnulausa og þróttlitla efnahagsstjórn ríkisstjórnarinnar sem bitnar á heimilum landsins. Verðbólgan eykst og vaxtalækkunarferlið hefur brotlent. Þrátt fyrir að húsnæðisvandinn sé einn helsti drifkraftur verðbólgu og hárra vaxta, skilar ríkisstjórnin auðu í þeim málaflokki.
Framsókn er flokkur fjölskyldunnar og brýnir stjórnvöld til þess hlúa betur að fólkinu í landinu. Stjórnvöld verða að standa með sveitarfélögunum sem veita almenningi mikilvægustu nærþjónustuna. Miðstjórn Framsóknar leggur ríka áherslu á að gripið verði til aðgerða til þess að efla íslenskukennslu, sérstaklega fyrir börn af erlendum uppruna. Það er grundvallaratriði svo öll börn á Íslandi standi jafnfætis í námi og njóti jafnra tækifæra. Miðstjórn mótmælir því harðlega áformum ríkisstjórnarinnar um að skera niður fjárveitingar til íslenskukennslu fyrir innflytjendur.
Fjárfesting í menntun og velferð barna er ein besta fjárfesting sem hvert samfélag getur ráðist í. Réttlátt samfélag hugar ekki síður að lýðheilsumálum og þjónustu við eldra fólk og tryggir þeim verst stöddu mannsæmandi lífskjör.
Ljóst er að ríkisstjórnin hyggst auka miðstýringu og takmarka vald nærsamfélaga til að taka ákvarðanir um eigin mál. Framsókn mótmælir þessari stefnu harðlega. Ákvörðunarvald hvers sveitarfélags yfir sínum málum er hornsteinn stjórnskipunar Íslands. Framsókn mun berjast fyrir því að þessi grundvallarréttindi verði virt og að samvinna ríkis og sveitarfélaga verði efld á jafnræðisgrundvelli.
Miðstjórn Framsóknar gagnrýnir harðlega að ríkisstjórnarflokkarnir skuli ótrauðir stefna inn í Evrópusambandið þrátt fyrir afgerandi yfirlýsingar fyrir kosningar um að aðild væri ekki á dagskrá. Það eru svik við kjósendur. Miðstjórn Framsóknar hafnar alfarið þeirri vegferð og fordæmir þá forgangsröðun sem setur aðild að Evrópusambandinu ofar brýnum aðgerðum til stuðnings heimila og fjölskyldna í landinu.
Ríkisstjórnin hefur einnig svikið skýr loforð til kjósenda um að hækka ekki skatta á almenning og atvinnulíf. Nú þegar hafa verið lagðar til umtalsverðar skattahækkanir á bæði einstaklinga og fyrirtæki en samt er áætlaður halli á ríkisrekstri umtalsverður.
Ríkisstjórnin hóf kjörtímabilið á því að vega að tveimur af grunnatvinnuvegum þjóðarinnar, sjávarútvegi og ferðaþjónustu, og stefnir að því að veikja íslenskan landbúnað. Frumvarp atvinnuvegaráðherra um breytingar á búvörulögum grefur undan byggðum landsins, matvælaframleiðslu og lífsviðurværi bænda.
Miðstjórn Framsóknar vill auka sjálfbæra orkuframleiðslu, tryggja orkuöryggi og jöfn tækifæri til verðmætasköpunar um allt land. Þá leggur miðstjórn áherslu á náttúruvernd og að eignarhald auðlinda séu í íslenskum höndum.
Framsókn er flokkur sem vinnur að hagsmunum allra íbúa, hvort sem þeir búa á höfuðborgarsvæðinu eða landsbyggðunum. Framsókn berst fyrir hag Íslands, bæði innanlands og utan og hafnar öfgum hvort sem er til vinstri eða hægri.
Framsókn er leiðandi afl í sveitarfélögum landsins og mun mæta af krafti inn í komandi sveitarstjórnarkosningar. Sterk Framsókn skiptir sköpum fyrir framtíð landsins.
Samþykkt á haustfundi miðstjórnar haldinn í Reykjavík laugardaginn 18. október 2025.