Categories
Fréttir

Vantar skýrari leiðir þegar bið raungerist

Deila grein

21/10/2025

Vantar skýrari leiðir þegar bið raungerist

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, beindi fyrirspurn til mennta- og barnamálaráðherra um stöðu meðferðarúrræða fyrir börn og ungmenni. Tilefnið er tvö nýleg mál þar sem ungmenni leituðu meðferðar erlendis vegna skorts á viðunandi þjónustu hérlendis.

Ingibjörg sagði að foreldrar hefðu lýst því sem „þungbæru“ að senda börn sín úr landi til að fá lífsnauðsynlega þjónustu. Hún tók undir mikilvægi þess að öll úrræði, heima og erlendis, byggðust á gagnreyndum aðferðum og viðurkenndum stöðlum, en lagði áherslu á að bið eftir innlendum úrræðum mætti ekki verða til þess að börn sættu þjónustuleysi.

„Þegar úrræði eru ekki til staðar innan lands eða þegar börn þurfa að bíða mánuðum saman eftir plássi eða þjónustu, lífsnauðsynlegri þjónustu, þá er mikilvægt að hægt sé að leita einhverra leiða,“ sagði hún og bætti við að ekki væri boðlegt að fjölskyldur stæðu frammi fyrir vali á milli biðar heima eða sjálfsaflaðra lausna erlendis „með tilheyrandi kostnaði og óvissu“.

Ingibjörg minnti á að ráðherra hefði áður vísað til þess að tiltekin erlendu úrræði uppfylltu ekki staðla sem gerðir eru kröfur um fyrir börn og ungmenni, hvorki hér né á Norðurlöndum, sem hún taldi rétt sjónarmið í sjálfu sér. „En það breytir ekki þeirri staðreynd,“ sagði hún, „að þegar innlend úrræði eru ekki til staðar þarf að tryggja samfellda og örugga þjónustu með öðrum hætti þar til þau eru tilbúin.“

Kallar eftir formlegu mati og mögulegri tímabundinni lausn

Ingibjörg lagði þrjár spurningar fyrir ráðherra:

  • Hefur verið metið með formlegum hætti hvort þetta umrædda úrræði uppfylli þá staðla sem við gerum kröfur um?
  • Eru önnur úrræði erlendis sem uppfylla slíka staðla?
  • Ef hægt er að tryggja meðferð erlendis á stofnunum sem uppfylla slíka staðla mun ráðherra þá endurskoða afstöðu sína til þess að veita tímabundinn stuðning við meðferðarúrræði erlendis þegar það er eina raunhæfa leiðin til að tryggja barninu samfellda og örugga þjónustu þar til innlend úrræði eru tilbúin?