Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður, gagnrýndi í störfum þingsins skort á skýrum aðgerðum af hálfu ríkisstjórnarinnar í ljósi versnandi efnahagsumhverfis. Hann vísaði m.a. til nýlegs dóms Hæstaréttar um ólögmæta skilmála banka og sagði óvissu í hagkerfinu hafa aukist vegna hárrar vaxtastigs, þrálátrar verðbólgu og hækkandi kostnaðar á húsnæðismarkaði.
„Það eru blikur á lofti; sterkt gengi krónu, óvissa í ferðaþjónustu, háir vextir, þrálát verðbólga, hátt húsnæðisverð og skortur á trúverðugleika í ríkisfjármálum. Þetta er ekki góð blanda,“ sagði Þórarinn Ingi.
Kallar eftir greinargóðri áætlun
Þórarinn Ingi sagði ríkisrekstur á viðkvæmu stigi og tiltrú á hagstjórn minni en þörf væri á. Hann spurði hvar aðgerðir ríkisstjórnarinnar væru og hvenær þær yrðu birtar. „Alþingi verður að fá skýra mynd af hagræðingarverkefnum ríkisstjórnarinnar án tafar,“ sagði hann og bætti við að aukið aðhald og skilvirkni ríkisins væri „grundvallaratriði efnahagsmála“.
Húsnæðismarkaður undir pressu
Þórarinn Ingi segir að húsnæðismarkaðurinn sýni vel þá stöðu sem uppi sé: byggingarkostnaður hafi hækkað verulega á síðustu tveimur árum, verktakar dragi saman seglin, ný verkefni tefjist og fjármögnun sé of dýr til að arðsemi haldist. „Staðan er ekki sjálfbær,“ sagði hann.
Hvetur til skjótvirkra mótvægisaðgerða
Þórarinn Ingi hvatti ríkisstjórnina til að leggja fram aðgerðir um hagræðingu og skýr áform á húsnæðismarkaði sem fyrst, þannig að unnt verði að ræða þau faglega bæði á Alþingi og með hagsmunaaðilum.
„Ég hvet ríkisstjórnina til að leggja fram aðgerðir um hagræðingu og áform m.a. á húsnæðismarkaði eins fljótt og kostur er,“ sagði hann að lokum.