Categories
Fréttir

Kallar eftir skýrum hagræðingaráformum og aga í ríkisrekstri

Deila grein

23/10/2025

Kallar eftir skýrum hagræðingaráformum og aga í ríkisrekstri

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður, hvatti í störfum þingsins ríkisstjórnina til að leggja fram boðuð áform um hagræðingu „eins fljótt og kostur er“ og sagði þau vera lykilforsendu þess að ná viðunandi árangri í ríkisfjármálum á komandi árum.

Þórarinn Ingi benti á að alþjóðleg óvissa hefði áhrif á stöðu ferðaþjónustunnar og að háir vextir gætu „smám saman gera út af við skuldsett fyrirtæki“ auk þess sem þeir kæfðu nýsköpun. „Það má ekkert út af bregða,“ sagði hann og lagði áherslu á að markmið í fjárlögum yrðu að fylgjast eftir í framkvæmd.

Þórarinn Ingi sagði framkvæmd fjárlaga lengi verið „veikur hlekkur“ í opinberri fjármálastjórn. Frávik milli áætlana og rauntalna hafi árum og áratugum saman verið umtalsverð, sem grafi undan trúverðugleika fjárlaga og dragi úr trausti á efnahagsstjórninni. Hann viðurkenndi að áföll eins og jarðhræringar á Reykjanesskaga og Covid-tímabilið hefðu haft sitt að segja, en „hinn almenni ríkisrekstur er ekki nægilega agaður.“

Þórarinn Ingi vill að stjórnvöld rýni sérstaklega hvernig megi bæta framkvæmd fjárlaga, draga úr frávikum og efla eftirlit með útgjöldum. Slíkt sé forsenda þess að hagræðing skili raunverulegum árangri. „Ábyrg hagstjórn felst ekki aðeins í að hagræða heldur að fylgja áætlun og halda aga í ríkisrekstri,“ sagði hann.

Þórarinn Ingi undirstrikaði jafnframt stefnu Framsóknar um jafnvægi „milli hagvaxtar og velferðar, milli aga og sveigjanleika“ og kallaði eftir efnahagsstjórn sem byggði á „ábyrgð, festu og framtíðarsýn þar sem fjárlög og framkvæmd eru framkvæmd af aga og trúverðugleika,“ sagði hann að lokum.