Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, gagnrýndi í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi óvissu um svonefnt vaxtaviðmið í tengslum við nýjan húsnæðispakka ríkisstjórnarinnar og hvatti ráðherra að skýra næstu skref.
„Engin af þessum hugmyndum sem voru kynntar hefur nein áhrif á núverandi stöðu uppnáms á fasteignalánamarkaði, annað en það sem kynnt hefur verið sem vaxtaviðmið,” sagði Sigurður Ingi og spurði hvaða útfærsla væri fyrirhuguð, hvort um væri að ræða viðmið í samráði við Seðlabankann eða frumvarp frá ríkinu sjálfu. „Ég held að það séu mjög margir að bíða eftir skýrari svörum um þennan þátt,” bætti hann við.
Sigurður Ingi fagnaði jafnframt fjölmörgum atriðum í pakkanum og sagði hann „meira og minna byggðan á húsnæðisstefnu sem var samþykkt hér í júní árið 2024,” sem hann taldi gleðilegt. „Þetta voru margar góðar hugmyndir og ég hvet ríkisstjórnina til að halda áfram á þeirri braut,” sagði hann og nefndi að meðal annars væri fjallað ítarlega um byggingarreglugerð.
Vék hann að því að Viðreisn og Flokkur fólksins hefðu ekki stutt húsnæðisstefnuna á sínum tíma, en lagði áherslu á að „öllu batnandi fólki er best að lifa.”
Sigurður Ingi vísaði til þess að markmiðssetningin næði til ársins 2038 með aðgerðaáætlun til 2028. Hann hafði þó áhyggjur af því að breytingar á reglum um gistingu í gegnum Airbnb gætu bitnað á landsbyggðinni: „Airbnb-breytingin er auðvitað gegn fólki úti á landi að hluta,” sagði hann. Þá varaði hann við að hækkandi leiga gæti „auðvitað dregið úr framboði á leiguhúsnæði og unnið gegn þessum hugmyndum.”
Að sama skapi lýsti hann jákvæðu viðhorfi til aukningar í hlutdeildarlánum, en spurði hvernig slík úrræði dreifðust milli landshluta: „Fer hún líka á önnur svæði en til Reykjavíkur?” spurði hann. Þá óskaði hann eftir skýringum á hvort fyrirhuguð sala eigna hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) gæti rýrt getu stofnunarinnar til að styðja uppbyggingu í tryggðri byggð: „Hefur [salan] áhrif á þá getu sem verið hefur undirstaða þess að það hefur verið byggt mjög mikið úti á landi á síðustu árum?”
„Ríkisstjórn sem þorir,” sagði Sigurður Ingi, en ítrekaði að skýrar svör um vaxtaviðmið væru lykilatriði þar sem þau gætu haft áhrif á lánamarkað heimilanna til skemmri tíma.
