Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins að íslenskum læknum sé orðið „mun erfiðara eða nánast ómögulegt“ að komast í sérnám í Svíþjóð vegna breytinga á sænskum reglum. Sagði hún að Svíar geri nú kröfu um að kandídatsári sé lokið í Svíþjóð, en hingað til hafi íslenska kandídatsárið gilt.
Halla Hrund segir þetta hafa alvarleg áhrif á íslenska heilbrigðisþjónustu: „Um helmingur íslenskra lækna sækir nám í Svíþjóð og hlutfallið er enn hærra í skurðlækningum,“ sagði hún og lagði áherslu á að verja þurfi þann farveg sem hefur tryggt að læknar komi heim með menntun frá „einhverjum bestu háskólasjúkrahúsum í heimi“.
Halla Hrund sagði bæði heilbrigðisráðuneytið og utanríkisráðuneytið hafa unnið að málinu „án þess að nokkuð hafi gerst“. Hún minnti jafnframt á að ráðherra háskólamála, utanríkisráðherra og forsætisráðherra hefðu nýverið farið til Svíþjóðar, auk þess sem forseti hafi farið í sérstaka ferð um heilbrigðismál með heilbrigðisráðherra. „Samt tekst ekki að leysa úr því einfalda máli að leyfa íslenskum læknum að halda áfram að fara í sérnám til Svíþjóðar,“ sagði hún og spurði: „Um hvað eru eiginlega allir þessir fundir?“
Halla Hrund hvatti að lokum ríkisstjórnina „til dáða“ og tók fram að samvinna frá minni hluta myndi ekki skorta. Hún spurði jafnframt hvernig stjórnvöld hygðust vernda hagsmuni Íslands á öðrum stórum sviðum ef ekki tækist „að leysa úr slíkum einföldum praktískum málum,“ sagði Halla Hrund að lokum.
