Jóhann Friðrik Friðriksson, varaþingmaður, gagnrýndi harðlega á Alþingi áform um að meta varnaraðgerðir almannavarna á Reykjanesi með það fyri augum að þeir aðilar sem nutu þeirra beri hluta kostnaðarins. Hann spurði hvort fjármálaráðherra hygðist „fara í rukkunarleiðangur á Reykjanesi“ á meðan náttúruhamfarir væru enn yfirstandandi.
Í ræðu sinni minnti Jóhann Friðrik á umfang aðgerða á svæðinu undanfarin misseri, byggingu varnargarða, hraunkælingu og varahitaveitur, sem hann sagði hafa reynst „ómetanlegar“ fyrir íbúa Suðurnesja, sem og til verndar Grindavíkurbæ og alþjóðaflugvellinum.
„Í vikunni sem leið bárust fréttir af því að fjármálaráðherra hefði óskað eftir mati á aðgerðum almannavarna á Reykjanesi og þeim verðmætum sem þær björguðu,“ sagði hann og bætti við að samkvæmt tilkynningu teldi ríkissjóður eðlilegt að skoða hvort rétt væri að hagsmunaaðilar á svæðinu bæru hluta kostnaðarins. „Þetta sætir mikilli furðu.“
Jóhann Friðrik ítrekaði að tveir ár væru liðin frá rýmingu Grindavíkur og atburðarásin enn ófyrirsjáanleg. „Það gæti auðvitað byrjað að gjósa seinni partinn eða í kvöld á Reykjanesi,“ sagði hann og varaði við því að hefja kostnaðarúthlutun meðan hættustigið væri enn raunverulegt.
Jóhann Friðrik beindi jafnframt spurningum til ráðherra um umfang fyrirhugaðs mats: „Er það virkilega ætlun að óska eftir upplýsingum frá öllum fyrirtækjum sem nutu góðs af forvarnaaðgerðum almannavarna í neyðarástandi? Hvaða fyrirtæki falla þar undir? Eru það fyrirtæki í Grindavík? Á Keflavíkurflugvelli?“
Jóhann Friðrik velti einnig fyrir sér hvort fordæmi yrðu þá sett gagnvart fyrirtækjum annars staðar á landinu sem notið hefðu snjóflóðavarna eða gert hefðu áætlanir á grundvelli opinberra aðgerða, auk stuðnings sem veittur var í heimsfaraldri. „Mega fyrirtæki í landinu búast við sömu meðferð?“ spurði hann.
