Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, tók upp umræðu um stöðu atvinnumála í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi. Hún sagði stöðu atvinnumála á Íslandi hafa versnað hratt síðustu vikur og mánuði og kallaði eftir skýrum og samræmdum aðgerðum stjórnvalda til að örva atvinnulífið.
Ingibjörg sagði að sífellt fleiri merki væru uppi um að hagkerfið væri að kólna. Atvinnuleysi væri farið að aukast, flugfélagið Play væri fallið, uppsagnir hefðu orðið hjá Icelandair og mikil óvissa ríkti í ferðaþjónustunni. „Atvinnulífið heldur að sér höndum og fjárfesting dregst saman hjá fyrirtækjum í landinu,“ sagði hún og benti jafnframt á að gengið væri að veikjast á sama tíma og óvissa ríkti í alþjóðaviðskiptum og tollamálum.
Ingbjörg gagnrýndi jafnframt að skattbyrði á bæði almenning og fyrirtæki hefði aukist á tímum þar sem óvissan í efnahagslífinu væri þegar mikil. Sagði hún traust atvinnulífs og heimila á efnahagsstefnu stjórnvalda fara minnkandi. Vakti hún athygli á því að Landsbankinn og Hagstofan spáðu nú mun minni hagvexti á næsta ári en áður hefði verið gert ráð fyrir, um 1,7%.
Í ljósi þessa spurði Ingibjörg atvinnuvegaráðherra hvort hún hefði ekki áhyggjur af stöðunni á vinnumarkaði og í efnahagslífinu almennt og hvort ekki væri tímabært að stjórnvöld settu sér skýrar, samræmdar aðgerðir til að örva atvinnulífið. Að hennar mati væri lykilatriði að Ísland „vaxi út úr“ þeirri stöðu sem nú hafi skapast í stað þess að festast í hægagangi og óvissu.
Atvinnuvegaráðherra svaraði því til að full ástæða væri til að ræða þessi mál ítarlegar á Alþingi. „Það er full ástæða til að fara í samtal hér í þingsal og jafnvel að taka sér meiri tíma en felst í svona fyrirspurn til að ræða almennt um atvinnulífið, verðmætasköpun og stöðu efnahagsmála,“ sagði hún og bætti við að hún væri í þéttu samtali við fulltrúa atvinnugreina og aðra ráðherra sem málið heyrði undir. „Við erum í samtali, það er margt á döfinni, það er mikil bjartsýni víða og ég er algerlega ósammála hv. þingmanni í því að það sé þverrandi traust til aðgerða ríkisstjórnarinnar í samfélaginu. Við ætlum okkur að standa undir því trausti og það er margt í gangi. Það er hið einfalda svar,“ sagði ráðherra meðal annars.
Ingibjörg minnti á að rætt hefði verið um að hér ætti að „blása til nýsköpunarhausts“, um sóknarfæri og uppbyggingu í atvinnulífinu. Að hennar mati hefur það ekki gengið eftir. Ekkert bólar á slíku nýsköpunarhausti né á því að ríkisstjórnin hafi tök á verðbólgu og vöxtum.
„Við sjáum núna að það er 1% frávik í hagspá frá upprunalegum áætlunum í vor og þetta hefur í rauninni áhrif á allt hér í landinu; á tekjur ríkisins, atvinnuþátttöku og allt,“ sagði Ingibjörg.
Að lokum beindi hún nokkrum spurningum til atvinnuvegaráðherra:
- Hvaða aðgerðir hyggjast stjórnvöld ráðast í til að örva atvinnulífið, fjárfestingu og nýsköpun á komandi mánuðum?
- Er ekki tilvalið að ráðast í öfluga markaðssetningu í ferðaþjónustu og einfalda leyfisveitingaferlið í sjó- og landeldi?
- Er það virkilega þannig að ráðherrar telji að staðan sé bara allt í lagi þrátt fyrir 1% lækkun á hagvexti og að atvinnuleysi sé að aukast?
- Eða er stefna ríkisstjórnarinnar einfaldlega sveltistefna sem eigi að neyða þjóðina inn í Evrópusambandið?
- Er það plan ríkisstjórnarinnar?
