Categories
Fréttir

„Digurbarkalegar lýsingar munu ekki eldast vel“

Deila grein

04/12/2025

„Digurbarkalegar lýsingar munu ekki eldast vel“

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, gagnrýndi harðlega í óundirbúinni fyrirspurn á Alþingi að ný samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar sé kynnt með stórkallalegum yfirlýsingum um að „ræsa vélarnar“ og „rjúfa kyrrstöðu“ í jarðgangagerð, á sama tíma og verið sé að tefja nauðsynlegar framkvæmdir og hunsa bæði faglegt mat og vilja heimamanna fyrir austan.

Ingibjörg segir í raun aðeins verið að „kasta ryki í augu almennings og farið með ansi digurbarkalegar lýsingar sem munu því miður sumar hverjar ekki eldast vel.“ Hún bendir á að um 600 milljónir króna hafi þegar verið varið í undirbúning Fjarðarheiðarganga, en nú sé þeirri vinnu hent út fyrir borð og verkefnið sett til hliðar. „Það er verið að hunsa vilja kjörinna fulltrúa sem hafa sammælst milli sveitarfélaga fyrir austan um þessa framkvæmd. Það er verið að hunsa vilja íbúa og samþykkt svæðisskipulag,“ sagði Ingibjörg og bendir jafnframt á að skýrslur frá Háskólanum á Akureyri og KPMG, unnar af fagfólki, séu lagðar til hliðar án þess að innihald þeirra verði virt.

Að hennar mati hefur ekki verið metið á faglegan hátt hvað sé hagkvæmast og mikilvægt fyrir fjórðunginn. Þrátt fyrir það sé málið ekki einu sinni sett í samráðsgátt stjórnvalda. „Þetta er einfaldlega pólitísk ákvörðun,“ segir Ingibjörg, og varar við því að í raun sé verið að fresta borun gangna um allt að þrjú ár, jafnvel lengur, þvert á það sem látið sé í veðri vaka í kynningum ráðherra.

Ingibjörg bendir á að hægt væri að hefja borun strax ef vilji væri fyrir hendi. „Það eru ein göng sem eru tilbúin og búin að fá þinglega meðferð. Þetta snýst um vilja,“ segir hún og nefnir þar Fjarðarheiðargöng. Þá gerir hún einnig að umtalsefni að áfram verði dregið að halda af krafti áfram með Fljótagöng sem hún segir vera gríðarlega mikilvæga framkvæmd fyrir svæðið og öryggi íbúa.

„Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort landsmenn megi þá í rauninni núna reikna með því að á fjögurra ára fresti komi ný ríkisstjórn og hún stöðvi allan undirbúning framkvæmda og breyti algerlega forgangsröðuninni. Eru hugsanlega einhver áform uppi hjá ríkisstjórninni um að breyta ferli samgönguáætlunar? Er þetta eitthvert verkfæri sem sveitarfélög og íbúar í landinu geta treyst áfram eða á að gera breytingar á þessu? Þetta setur eflaust strik í reikninginn varðandi traust á framhaldinu á framkvæmdum hér í landinu.“