Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, og Hermann Ottósson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi, hafa undirritað samning um þau verkefni sem Rauði krossinn mun annast vegna móttöku flóttafólks á þessu ári.
Samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar Íslands verður tekið á móti þremur hópum flóttafólks á þessu ári. Hafnarfjarðarbær tók að sér móttöku sex manna fjölskyldu frá Afganistan sem þegar er komin til landsins. Einnig verður tekið á móti hópi hinsegin flóttafólks frá fjórum löndum og sýrlenskum flóttamönnum sem koma hingað frá Tyrklandi. Reykjavíkurborg mun annast móttöku þessarra hópa. Í hópunum þremur eru samtals 24 einstaklingar; þrettán fullorðnir og ellefu börn.
Þegar tekið er á móti hópum flóttafólks gerir velferðarráðuneytið annars vegar samning við sveitarfélagið þar sem fólkið mun setjast að um ýmsa aðstoð og stuðning því til handa og hins vegar við Rauða krossinn á Íslandi sem einnig kemur að því að veita fólkinu liðsinni. Stærsta verkefni Rauða krossins er að skipuleggja störf þeirra fjölmörgu sjálfboðaliða sem koma að málum, þ. á m. eru stuðningsfjölskyldur sem hafa reynst flóttafólki sem kemur hingað til lands afar mikilvægar.
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.