Categories
Fréttir

Hvað er í pakkanum er alls ekkert leyndarmál

Deila grein

19/03/2015

Hvað er í pakkanum er alls ekkert leyndarmál

Silja-Dogg-mynd01-vefRæða Silju Daggar Gunnarsdóttur, alþingismanns, frá umræðum á Alþingi um Evrópumál, munnlega skýrslu utanríkisráðherra.
„Hæstv. forseti. Ég man eftir því þegar ég var enn í menntaskóla, fyrir rúmum 20 árum, að Jón Baldvin Hannibalsson, þáverandi formaður Alþýðuflokksins, mætti í skólann minn í frímínútum nokkrum vikum fyrir þingkosningar og talaði mjög fallega um Evrópusambandið og þá möguleika sem það byði upp á. Ég skal viðurkenna að það var gaman að hlusta á Jón Baldvin, enda ræðumaður góður og heillandi maður. Evrópusambandið hljómaði þá í mínum eyrum sem spennandi valkostur. En það Evrópusamband sem Jón Baldvin talaði um fyrir rúmum 20 árum er allt annað Evrópusamband en það er í dag.
Með inngöngu muni Ísland tapa sjálfu sér
Innganga Íslands í Evrópusamband nútímans hugnast mér ekki. Hvers vegna hugnast mér það ekki? Jú, það er mín skoðun að með inngöngu í Evrópusambandið muni Ísland tapa sjálfu sér, tapa fullveldinu, missa yfirráð yfir auðlindum sínum að mestu og þar með tapa gríðarlegum tækifærum til framtíðaruppbyggingar og þróunar. Tapa frelsinu, svo ég gerist svolítið dramatísk.
Hvað er í pakkanum er alls ekkert leyndarmál
Á síðasta vorþingi voru kynntar tvær skýrslur um aðildarviðræður Íslands við ESB, annars vegar skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem hæstv. utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson lét vinna fyrir Alþingi og hins vegar skýrsla Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands sem aðrir létu vinna fyrir sig. Báðar skýrslurnar fengu mjög ítarlega umræðu á hinu háa Alþingi. Eftir lestur þeirra sannfærðist ég enn frekar um að Íslandi væri betur borgið utan ESB en innan þess. Menn hafa lengi talað um að þeir vilji fá að kíkja í pakkann og síðan fá að greiða atkvæði um samning. Það liggur fyrir hvað er í pakkanum, það er alls ekkert leyndarmál, en aðildarsinnar hafa byggt sinn málflutning í gegnum árin á því að við gætum mögulega landað „feitum samningi“ við Evrópusambandið. Svo er ekki.
Hugarburður eða óskhyggja að varanlegar undanþágur séu í boði
Í fyrsta lagi gengur ESB út frá því að umsóknarríki sækist eftir aðild. Þau lönd sem óska eftir aðild að sambandinu gangast síðan undir ákveðin grundvallarskilyrði. Í meginatriðum snúast þau um að aðildarríki samþykki sáttmála Evrópusambandsins, markmið þess, stefnu og þær ákvarðanir sem teknar hafa verið þegar þær öðluðust gildi. Innkoma nýs ríkis leiðir ekki til þess að nýtt samband verði til, auk þess sem umsóknarríki ber að samþykkja réttarreglur sambandsins, acquis comunitar á frönsku. Þá er umbreytingarfrestur takmarkaður og felur ekki í sér undanþágu frá grunnsáttmálum og meginreglum sambandsins, hvort sem um er að ræða í landbúnaðar- eða sjávarútvegsmálum. Varanlegar undanþágur eru ekki í boði. Það að halda öðru fram er hreinn hugarburður eða óskhyggja. Við gætum mögulega fengið sérlausnir, en þær hafa takmarkað lagalegt gildi og því er ekki hægt að treysta á þær til lengri tíma. Evrópusambandið fer eitt með óskiptar valdheimildir yfir varðveislu auðlinda í sameiginlegri fiskveiðistefnu sambandsins. Allar breytingar á þeirri stefnu verða einungis ákveðnar á vettvangi þess. Meginreglan er að fiskveiðiskip sambandsins skuli hafa jafnan aðgang að hafsvæðum og auðlindum í því.
Að þessu sögðu spyr ég mig: Í hvað erum við að eyða tíma þings og þjóðar? Liggur málið ekki ljóst fyrir?
Í fyrsta lagi: Ef við ætlum að halda aðildarviðræðum áfram er algert grundvallaratriði að þjóðin vilji ganga inn í Evrópusambandið. Einnig þarf pólitískur vilji að vera til staðar. Svo er ekki.
Í öðru lagi: Það er alveg ljóst að við getum ekki samið við Evrópusambandið um sjávarútvegsmálin. Dæmin sýna að við munum ekki fá varanlegar undanþágur.
Við vitum hvað er í pakkanum.
Umsókn síðustu ríkisstjórnar um aðild að ESB árið 2009 var byggð á sandi. Þjóðin var ekki spurð fyrst hvort hún vildi ganga í Evrópusambandið og annar stjórnarflokkurinn á þeim tíma, Vinstri grænir, lofaði fyrir kosningar að hann mundi aldrei sækja um aðild að Evrópusambandinu. Vitna ég þar um í beina útsendingu í sjónvarpssal RÚV kvöldið fyrir kosningar.
Núverandi stjórnarflokkar hafa staðið við gefin loforð
Núverandi stjórnarflokkar hafa staðið við gefin loforð. Stefna beggja stjórnarflokka var skýr fyrir kosningar, sú að hag Íslands sé best borgið utan ESB og að ekki skuli haldið áfram viðræðum án þjóðaratkvæðagreiðslu. Svoleiðis var það.
Niðurstaða stjórnarsáttmálans er einnig alveg skýr. Þar kemur meðal annars fram að gera átti hlé á viðræðum við ESB og þeim ekki fram haldið án þjóðaratkvæðagreiðslu, jafnframt að úttekt yrði gerð á viðræðum og stöðunni innan ESB og þróun þess. Það var gert.
Við töluðum ekki í kosningabaráttunni um að það ætti að greiða atkvæði um málið á kjörtímabilinu. Á fundum forsætisráðherra með forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og forseta leiðtogaráðsins í júlí 2013 var þessi nýja stefna ríkisstjórnar Íslands útskýrð. Á þeim fundum kom skýrt fram að þessir tveir leiðtogar stofnana ESB mundu fagna skýrri stefnu varðandi aðildarferlið.
Viðræður við ESB hafa nú ekki átt sér stað í fjögur ár
Viðræður við ESB hafa nú ekki átt sér stað í fjögur ár. Aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið sigldu í strand árið 2011 vegna sjávarútvegs- og landbúnaðarmála og í upphafi árs 2013 gerði þáverandi utanríkisráðherra hlé eða hægði á aðildarferlinu. Núverandi ríkisstjórn vill ekki ganga í Evrópusambandið og sterkur þingmeirihluti er þar að baki. Að þessu sögðu hlýtur maður að velta fyrir sér af hverju það komi mönnum á óvart að hæstv. utanríkisráðherra sendi ESB formlegt bréf þar sem hann gerir grein fyrir að ríkisstjórnin hyggist ekki endurvekja aðildarferlið og fer fram á að Ísland sé ekki lengur umsóknarríki. Á sama tíma er áhersla lögð á að styrkja framkvæmd EES-samningsins og nánara samstarf við ESB á grunni hans.
Mjög eðlilegt og heiðarlegt gagnvart vinum okkar í Evrópusambandinu
Íslensk stjórnvöld hafa svarað kalli ESB um skýra stefnu í þessum málum sem er mjög eðlilegt og heiðarlegt gagnvart vinum okkar í Evrópusambandinu. Þess vegna hefði ég haldið að stjórnarandstaðan hefði tekið þessari lendingu fagnandi. En, nei, menn tala hér um svik, brot á þingræði, jafnvel á lýðræðinu, og ég veit ekki hvað. Steininn tók svo úr þegar stjórnarandstaðan sendi ESB bréf þar sem hún sagði að bréf hæstv. utanríkisráðherra væri marklaust og að hann hefði brotið lög. Slík vinnubrögð eru fordæmalaus á hinu háa Alþingi, eftir því sem ég kemst næst.
Menn velta nú fyrir sér þeirri spurningu hvort ríkisstjórnin muni efna til þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu. Svarið er: Nei, ríkisstjórnin hefur engin áform um að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um viðræður við Evrópusambandið þar sem slíkt væri atkvæðagreiðsla um mál sem hún er mótfallin. Kæmi til þess að hefja ætti aðildarferlið að nýju telur núverandi ríkisstjórn mikilvægt að það væri ekki gert án þess að spyrja þjóðina fyrst hvort hún vildi ganga í Evrópusambandið.
Hvers vegna mátti málið ekki liggja óhreyft?
Hvers vegna mátti málið ekki liggja óhreyft? Meðal annars vegna þess að það hefur gildi í utanríkismálum að vera eitt af umsóknarríkjum ESB. Við erum hluti af EFTA og ESA og við erum aðilar að Norðurskautsráði og NATO svo eitthvað sé nefnt. Við höfum gert nokkra fríverslunarsamninga og hyggjumst gera fleiri slíka samninga. Það hentar ekki að vera á sama tíma umsóknarríki að ESB. Hvers vegna ættu ríki að vilja gera samninga við okkur sem rakna sjálfkrafa upp ef við göngum í Evrópusambandið? Auk þess er þetta stefna beggja stjórnarflokka og engin ástæða til að halda lífi í ferli um aðild að sambandi sem engin vissa er fyrir hvernig muni þróast á næstunni. Sjaldan hefur verið meiri óvissa um hvers lags samband ESB verður innan fárra ára. Því ættu Íslendingar að ganga sjálfviljugir inn í þá óvissu?
Er þetta pakkatal bara ekki orðið gott hjá okkur? Ég legg til að við látum hér staðar numið og snúum okkur af öðrum og þarfari málum til að vinna að.“
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.