Categories
Greinar

Gott samstarf við ESB

Deila grein

20/04/2015

Gott samstarf við ESB

haraldur_SRGBSú stefna beggja stjórnarflokkana að hag Íslands sé betur borgið utan ESB verið skýr frá upphafi. Í samningaviðræðum stjórnarflokkanna á sínum tíma var sú ákvörðun tekin að halda ekki áfram aðildarviðræðum við ESB nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Ríkisstjórnin hefur lagt ríka áherslu á að ekki verði farið í slíkt ferli án aðkomu þjóðarinnar.

Ríkisstjórnin hefur fylgt þeirri stefnu sem kveðið er á um í stjórnarsáttmálannum. Staðan á málinu er því skýr gagnvart ESB, aðildarríkjum þess og íslensku þjóðinni. Á fundum forsætisráðherra Íslands með forseta framkvæmdastjórnar ESB og forseta leiðtogaráðsins í júlí 2013 var þessi stefna ríkisstjórnarinnar útskýrð. Á þeim fundum kom skýrt fram að þessir tveir leiðtogar stofnana ESB myndu fagna skýrri stefnu Íslands varðandi aðildarferlið.

Breytingar hér á landi og hjá ESB

Staðan hefur einfaldlega breyst mikið frá árinu 2009. Endurreisn efnahagslífsins hér á landi hefur vakið verðskuldaða athygli vítt og breitt um heiminn og við erum ánægð með þann stöðugleika sem hér er að myndast. Það endurspeglast í litlu atvinnuleysi, auknum kaupmætti og ágætum hagvexti. Í júlí 2014 tilkynnti Jean-Claude Juncker, þá nýkjörinn forseti framkvæmdastjórnar ESB, að gera ætti hlé á stækkun sambandsins næstu fimm árin. Talsmaður Juncker staðfesti síðar að Ísland væri á meðal þeirra landa sem Juncker ætti við. Það má því segja að viðræðunum hafi verið sjálfhætt á þeim tíma. Því miður virðast ýmis vandamál herja á aðildarríki ESB um þessar mundir sem endurspeglast svo í þessari ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB árið 2014 um að loka á alla stækkun ESB í nokkur ár.

Mikilvægi góðs samstarfs við ESB

Mikilvægt er að stuðla að áframhaldandi öflugum samskiptum við ESB á grundvelli EES-samningsins og hefur núverandi ríkisstjórn lagt mikla áherslu á slík samskipti milli ESB og Íslands. Á þetta lagði utanríkisráðherra einnig sérstaka áherslu á í bréfi sínu til ESB nýverið. Sérstaklega mikilvægt er að hlúa að EES-samningnum og efla þátttöku Íslands á vettvangi hans. Ríkisstjórnin gaf út Evrópustefnu í mars árið 2014 sem byggist á efldri hagsmunagæslu á vettvangi  EES-samningsins og annarra gildandi samninga Íslands og ESB. Frá þeim tíma hefur verið unnið á grundvelli þeirrar stefnu. EES-samningurinn er mikilvægur fyrir útflutningshagsmuni Íslands, ekki síst sjávarútveg þar sem íslenskar afurðir eru í frjálsu flæði á evrópska efnhagssvæðinu. Huga þarf að virkni samningsins sem slíks og ekki síður að hagsmunum Íslands innan hans.

Það hefur gætt misskilnings í umræðunni og oft á tíðum rætt mjög einsleitt um málið. Framsóknarflokkurinn vill viðhalda góðu samstarfi við ESB og horfa víðar fyrir Ísland í alþjóðasamstarfi t.d. til nýmarkaðssvæða. Við erum hinsvegar staðföst á þeirri skoðun að hagsmunum íslensku þjóðarinnar sé best borgið utan ESB. Ísland er land tækifæranna með ógrynni af auðlindum sem tryggja þarf að þjóðin njóti góðs af til lengri tíma.

 Haraldur Einarsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 16. apríl 2015.