„Hæstv. forseti. Í morgun átti ég kost á því að vera viðstödd undirskrift þjóðarsáttmála um læsi. Undirskriftin átti sér stað á Akranesi en þar komu saman fulltrúar frá Akranesi, Hvalfjarðarsveit, Skorradalshreppi og fulltrúi frá Heimili og skóla, auk menntamálaráðherra. Á samkomuna kom jafnframt fjöldi grunnskólakennara frá Akranesi og nærsveitum og auk þess nokkrir nemendur grunnskólanna.
Eins og hefur komið fram í þinginu og í sérstakri umræðu í síðustu viku er markmiðið með þjóðarsáttmálanum meðal annars það að að minnsta kosti 90% nemenda á Íslandi geti lesið sér til gagns árið 2018. Í dag sýna tölurnar okkur að 30% drengja og 12% stúlkna geta ekki lesið sér til gagns við lok grunnskóla.
Ég vil samt leyfa mér að benda á eitt þótt ég hafi verulegar áhyggjur af þessum tölum og þær þurfi að taka alvarlega að í aðalnámskrá grunnskóla kemur skýrt fram að nemendur eiga að fá kennslu í samræmi við getu og þarfir hvers og eins. Í skólum landsins er unnið með margvíslegar kennsluaðferðir sem hafa það að markmiði að koma til móts við þessar mismunandi þarfir og getu nemenda. Síðan koma kannanir sem mæla margar hverjar með mismunandi hætti afmarkaða þætti og nemendur fá aðeins nokkrar klukkustundir til að klára og dagsform þeirra getur haft mikil áhrif á niðurstöður. Það sem ég ætlaði að segja hér í ræðu minni og kom skýrt fram á þessari stund í morgun að markmiðið með átakinu er frábært og mjög virðingarvert. Það er hins vegar mjög mikilvægt að hver skóli fái að halda sínu sjálfstæði í vali á kennsluaðferðum og vinna að því hvað hæfir nemendum þeirra best og hefur reynst vel.“
Elsa Lára Arnardóttir – í störfum þingsins 22. september 2015.
Categories
Undirskrift þjóðarsáttmála um læsi
29/09/2015
Undirskrift þjóðarsáttmála um læsi