Categories
Greinar

Íslandsbanki ríkisbanki – Mistökin og framtíðin

Deila grein

20/10/2015

Íslandsbanki ríkisbanki – Mistökin og framtíðin

ásmundurNú berast fréttir af því að kröfuhafar Glitnis leggi til að eignarhlutur í Íslandsbanka renni til ríkisins og það verði hluti af stöðugleikaframlagi. Þessar fréttir verða að skoðast í því ljósi að þetta eru tillögur frá kröfuhöfunum sjálfum og eiga stjórnvöld eftir að taka afstöðu til þeirra. En ljóst má vera að þeir leggja þetta til þar sem ekki er mögulegt að uppfylla ströng stöðugleikaskilyrði með öðrum hætti.

Íslandsbanki var upphaflega stofnaður sem einkabanki og rekinn sem slíkur þar til árið 2008 þegar hann var ríkisvæddur með neyðarlögunum. Ríkisstjórn Vinstri Grænna og Samfylkingar ákvað síðan að afhenda kröfuhöfum bankann á síðasta kjörtímabili.

Þessar nýju fréttir vekja óneitanlega upp spurningar um af hverju Íslandsbanki var afhentur kröfuhöfum á síðasta kjörtímabili? Það var greinilega ekki hugsunin að taka fast á þessum málum og verja hagsmuni Íslands. Eða voru menn kannski að hugsa um að láta kröfuhafana eiga bankanna tímabundið? Ef sú var raunin þá hlýtur að þurfa að gera úttekt á því hvað verðmæti bankans jókst frá þeim tíma til dagsins í dag.

Nóg um það en nú þarf að horfa til framtíðar og læra af mistökum sem gerð voru á síðasta kjörtímabili.

Samfélagsbanki í eigu almennings!

Vandi síðustu ríkisstjórnar var að hún stillti sér upp með fjármálakerfinu og kröfuhöfum í stað þess að standa með almenningi. Bankakerfið er til fyrir heimili og fyrirtæki landsins en ekki öfugt. Verði þetta raunin þá er ljóst að ríkið á tvo af þremur stærstu bönkunum og í framhaldinu þá er nauðsynlegt að móta stefnu fyrir bankakerfið með hagsmuni almennings að leiðarljósi. Það verður að fá fleiri að þeirri vinnu heldur en „reynda“ bankamenn.

Það er mikilvægt að annar þessara banka verði að stórum hluta í eigu almennings í landinu. En í stað þess að ríkið eitt eigi bankann þá ættum við að skoða þann möguleika að allir Íslendingar geti beint og milliliðalaust eignast hlut í öðrum þessara banka. Um hann verði í framhaldinu mótuð stefna með að það markmiði að bjóða sem hagkvæmasta þjónustu og tryggja hagsmuni almennings. Í raun ætti að skoða þann möguleika að afhenda almenningi hluta bankans gegn skýrum skilyrðum og á hagstæðum kjörum. Verði þetta skoðað þá þarf hinsvegar að móta mjög skýrar og gegnsæjar reglur sem tryggja að ekki sé um að ræða aðkomu fárra útvaldra og að ekki sé hægt að framselja hlutina í von um skyndigróða. Ef vel tekst til þá gæti stofnun á slíkum samfélagsbanka orðið skynsamleg aðgerð bæði efnahagslega og lýðræðislega.

Ásmundur Einar Daðason

Greinin birtist á blog.pressan.is/asmundurd/ 20. október 2015.