Categories
Fréttir

Fjórir forsætisráðherrar frjálslyndra systurflokka hittast á Íslandi

Deila grein

02/11/2015

Fjórir forsætisráðherrar frjálslyndra systurflokka hittast á Íslandi

norden (35 of 35)Á þingi Norðurlandaráðs á Íslandi í vikunni sem leið hittust fjórir forsætisráðherrar frjálslyndra systurflokka. Hefð er fyrir því að forsætisráðherrar Norðurlanda fundi með kollegum sínum í Eystrasaltsríkjunum í tengslum við Norðurlandaráðsþing og í ár vill svo til að helmingur þeirra, Juha Sipilä forsætisráðherra Finnlands, Taavi Roivas forsætisráðherra Eistlands, Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra Danmerkur og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra Íslands koma úr frjálslyndum miðjuflokkum.
Sigmundur Davíð segir að það sé gaman að sjá að frjálslyndisstefnan skuli eiga upp á pallborðið í þessum heimshluta.
„Já, það er gaman að því að frjálslyndisstefnan skuli vera við stjórnvölinn í þetta mörgum löndum á þessu svæði. Það er að sjálfsögðu löng hefð fyrir þessum fundum og eins og Lars nefndi í ræðu sinni við upphaf Norðurlandaráðsþings þá eru fundir forsætisráðherra Norðurlandanna svolítið líkir fjölskylduboði því að þessi ríki eru tengd svo sterkum böndum. En ég finn fyrir því að það er ekki síður góð og jákvæð stemming þegar Eystrasaltsríkin bætast í hópinn því að þar fara ríki sem eiga mjög margt sameiginlegt með norðurlöndunum í ýmsu sem viðkemur gildum og viðhorfum til dæmis gagnvart samfélags- og efnahagsmálum. Mér finnst þau tengsl vera að styrkjast mjög,“ sagði Sigmundur Davíð.
„Það er svo alltaf sérstaklega skemmtilegt að sjá þegar systurflokkar Framsóknarflokksins ná árangri, bæði á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum, en ekki síður vestanhafs í Kanada þar sem frjálslyndir unnu góðan kosningasigur fyrir skömmu. Frjálslynd miðjustefna er stefna skynsemi og rökhyggju og það eykur ætíð tækifæri til uppbyggingar og framsýni í stjórn ríkja þegar slík stefna ræður för.“
Að loknu Norðurlandaráðsþingi tóku forsætisráðherrarnir átta ásamt David Cameron forsætisráðherra Bretlands þátt í ráðstefnunni Northern Future Forum. Hún var haldin í Reykjavík að þessu sinni, en þar koma árlega saman forsætisráðherrar og sérfræðingar frá þessum níu ríkjum til að skiptast á hugmyndum og ræða lausnir fyrir áskoranir framtíðarinnar.
The Northern Future Forum (NFF)