Categories
Fréttir

Á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna

Deila grein

04/11/2015

Á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna

Villlum„Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða nýafstaðna heimsókn sendinefndar alþingismanna til fastanefndar Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum en venja er að alls sæki hv. fjórir alþingismenn allsherjarþingið árlega tilnefndir af sínum þingflokki.
Ég er þakklátur fyrir að hafa átt þess kost ásamt þremur öðrum hv. þingmönnum að sækja Sameinuðu þjóðirnar heim og taka þátt í 70. allsherjarþinginu sem sett var í lok september, en þá eins og flestum er kunnugt komu leiðtogar aðildarríkjanna saman og samþykktu 17 ný þróunarmarkmið, heimsmarkmiðin. Við í sendinefnd þingsins sóttum m.a. fundi aðalstofnana þingsins, allsherjarþingsins og öryggisráðsins, og fengum kynningu á starfsemi efnahags- og félagsmálaráði ráðsins auk þess að kynna okkur starfsemi fjölmargra undirstofnana. Markverðast fannst mér þó að kynnast þeim krafti og atorku sem einkennir framgöngu okkar fólks á vettvangi. Við erum ekki með fjölmennustu sveitina en vinnusemi, ákveðni og dugnaður okkar fólks er augljós og virðing fyrir framlagi Íslands og starfi erlendis sem hérlendis fór ekkert á milli mála og kom vel fram á fundum okkar og í samræðum við fulltrúa hinna ýmsu nefnda og undirstofnana. Þar sem við beitum okkur höfum við náð eftirtektarverðum árangri, til að mynda á sviði kynjajafnréttis, í málefnum hafsins, á sviði landgræðslu, orku og loftslagsmála, fæðuöryggis og ekki síst barnahjálpar á vegum UNICEF á Íslandi. Þá hefur hæstv. ríkisstjórn boðað aukið átak með Flóttamannahjálp SÞ og öðrum stofnunum sem takast á við þær flóknu aðstæður sem uppi eru.
Mér finnst mikilvægt að koma því á framfæri hér sem fulltrúi okkar í þessari sendiför þetta árið hversu mikilvægt það er að viðhalda og efla enn frekar tengsl þingsins við starf okkar Íslendinga á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.“
Willum Þór Þórsson  — í störfum þingsins, 3. nóvember 2015.