Fjallað er um stöðu karla og kvenna á öllum helstu sviðum samfélagsins í skýrslu félags- og húsnæðismálaráðherra sem lögum samkvæmt er lögð fram ár hvert í upphafi jafnréttisþings. Þar er einnig fjallað um stöðu verkefna samkvæmt framkvæmdaáætlun stjórnvalda í jafnréttismálum til ársins 2014.
Skýrslan spannar að venju vítt svið en þess má geta að í tilefni af 100 ára afmælisári kosningaréttar íslenskra kvenna er í inngangi hennar fjallað sérstaklega um völd og áhrif karla og kvenna í samfélaginu, á vinnumarkaði, í stjórnmálum og efnahagslífi.
Fjallað er um kynbundið ofbeldi, um heilbrigðismál, um stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði, um kynbundið náms- og starfsval og þróun launajafnréttis og háskólaumhverfið. Sérstakur kafli er um kyn og völd, þar sem fjallað er um hlut kynjanna í opinberri stjórnsýslu, þar með talið innan dómstóla og lagaumhverfis. Einnig er þar fjallað um konur í stjórnum fyrirtækja og konur og karla á vettvangi stjórnmálanna.
Sérstaklega er fjallað um fjölmiðla í skýrslu ráðherra og það er jafnframt eitt af aðalviðfangsefnunum jafnréttisþings að þessu sinni. Varpað er ljósi á hvernig kynin birtast í fjölmiðlum og hve mikilvægt er að breyta þeirri birtingarmynd.
Istanbúlsamningurinn um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi
Í skýrslunni er fjallað um alþjóðlegar skuldbindingar Íslands á sviði jafnréttismála og sagt frá fjölmörgum verkefnum sem unnið er að í samvinnu við aðrar þjóðir, bæði á sviði norræns samstarfs en einnig í alþjóðlegu samstarfi á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Fjallað er ítarlega um svokallaðan Istanbúlsamning, sem er samningur Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gagnvart konum og heimilisofbeldi. Ísland var meðal fyrstu þjóða til að undirrita Istanbúlsamninginn. Undanfarin misseri hefur farið fram mikil vinna við undirbúning að innleiðingu hans hér á landi og er sú vinna vel á veg komin.