Categories
Fréttir

48,4% af heildarútgjöldum ríkissjóðs til velferðarmála – 306,8 milljarðar

Deila grein

04/12/2015

48,4% af heildarútgjöldum ríkissjóðs til velferðarmála – 306,8 milljarðar

Elsa-Lara-mynd01-vefur„Hæstv. forseti. Undanfarna daga hefur mikil umræða átt sér stað um framlög ríkisstjórnar til heilbrigðis- og velferðarmála. Umræðan hefur verið hávær á þann veg að ríkisstjórnin sé ekki að forgangsraða til þessara mála.
Þessi umræða er áhugaverð í ljósi þess að samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2016 fara 48,4% af heildarútgjöldum ríkissjóðs til þessara málaflokka eða sem samsvarar 306,8 milljörðum. Þar fara 25,2% til heilbrigðismála, sem er stærsti útgjaldaliður fjárlaga, og nemur framlagið 159,9 milljörðum. Næst á eftir stærsta útgjaldaliðnum koma almannatryggingar og önnur velferðarmál. Þar eru útgjöld 23,2% af heildarútgjöldum ríkissjóðs og nemur sá málaflokkur 146,9 milljörðum.
Þegar við skoðum hvað ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hefur gert í heilbrigðismálum á þessu kjörtímabili er meðal annars hægt að nefna að stórauknu fé hefur verið bætt til Landspítalans, 840 milljónum hefur verið bætt við til að minnka biðlista, tækjakaupaáætlun upp á rúma 5 milljarða er á áætlun, sett hefur verið nýtt fjármagn til að hefja útboð á nýbyggingum á Landspítala, eða um 1,8 milljarðar í byggingar, fjármagn hefur verið stóraukið til S-merktra lyfja og verið er að auka fjármagn til tannlækningasamnings sem gerður var á síðasta kjörtímabili.
Í fjárlögum fyrir árið 2016 er áhersla lögð á uppbyggingu heilsugæslunnar til að létta álaginu á Landspítala. Það tel ég afar skynsamlega ákvörðun til að tryggja betur að heilsugæslan verði fyrsti viðkomustaður sjúklinga. Auðvitað er alltaf hægt að gera betur en þau góðu verk sem ríkisstjórnin hefur sýnt í uppbyggingu heilbrigðiskerfisins er hvatning til að halda áfram á sömu braut til að byggja upp þá auðlind sem heilbrigðiskerfið okkar er og á að vera.
Auk þessa nema útgjöld til almannatrygginga 99 milljörðum í ár sem er aukning um 10,3 milljarða milli ára. Þessar upplýsingar má finna í fjárlögum fyrir árið 2016 og í þeirri kynningu sem hæstv. fjármálaráðherra setti fram.
Uppsöfnuð hækkun til málaflokksins nemur tæpum 17% frá árinu 2014. Þessar tölur eru hvatning til að halda áfram á sömu braut og hækka áfram kjör eldri borgara og öryrkja til framtíðar.“
Elsa Lára Arnardóttir — störf þingsins 2. desember 2015.