Categories
Sveitarstjórnarfólk

Akureyrarbær

Deila grein

Sveitarstjórnarfólk Framsóknar


FRAMSÓKN Á AKUREYRABÆ

AKUREYRI TIL FRAMTÍÐAR – tryggjum Ingibjörgu Isaksen sæti í bæjarstjórn

* * *

Metaðsókn í sundlaug Akureyrar

Metaðsókn var að Sundlaug Akureyrar á síðasta ári. Straumhvörf urðu þegar rennibrautirnar vinsælu voru teknar í notkun í júlí en frá þeim tíma og til ársloka fjölgaði heimsóknum í laugina um 40.000 gesti miðað við sama tíma árið áður. Heildarfjöldi gesta á árinu var um 389 þúsund, töluvert umfram eldra aðsóknarmet.

Akureyri

Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd hefur aukningin haldið áfram á þessu ári og ef fram heldur sem horfir má gera ráð fyrir því að heimsóknir í laugina verði yfir 400 þúsund nú í ár.

Framkvæmdirnar við sundlaugina eru sannarlega að skila sér, ekki eingöngu í ánægju bæjarbúa og ferðafólks, heldur einnig með auknum tekjum sundlaugarinnar en á síðasta ári voru tekjur laugarinnar 21,5 milljónir umfram áætlun sem er sannarlega ánægjulegur ávinningur.

Heitur pottur og vaðlaug

Í dag voru vaðlaug og heitur pottur tekin í notkun við sundlaugina. Potturinn er með nuddstútum og er góð viðbót við potta laugarinnar. Í vaðlauginni er bæði hægt að busla og leika sér, auk þess sem þaðan er gott að fylgjast með börnunum bæði í rennibrautunum og lendingarlauginni.

Framkvæmdirnar við laugina hafa verið umfangmiklar. Nýtt og mikið notað kalt kar hefur leyst fiskikarið af hólmi. Nýtt yfirborðsefni var sett á barnavaðlaugina og nýjum leiktækjum komið þar fyrir auk þess sem steypt var ný lendingarlaug við rennibrautirnar.  Ráðist var í löngu tímabært viðhald á sundlaugarsvæðinu, skipt var um yfirborðsefni á bökkum laugarinnar auk annarra viðhaldaverkefna.

Gott aðgengi

Mikil áhersla var lögð á bætt aðgengi á sundlaugarsvæðinu. Nýr fjölnotaklefi var tekinn í notkun en þá aðstöðu hefur skort. Sérstaklega var hugað að góðu aðgengi fyrir fatlaða í nýja pottinum og vaðlauginni þannig að mun fleiri geta nú  nýtt sér aðstöðuna og notið þess sem laugin hefur upp á að bjóða.

Senn sér fyrir endann á þessum viðamiklu framkvæmdum við laugina en gert er ráð fyrir að  framkvæmdum við sundlaugalóðina ljúki í júní en þar verður útbúin sólbaðsaðstaða og leiksvæði fyrir börn.

Eins og heimsóknafjöldinn í sundlaugina gefur til kynna er hún afar vinsæl meðal bæjarbúa og hefur að auki heilmikið aðdráttarafl fyrir gesti okkar, jafnt sumar sem vetur. Laugin, pottarnir, rennibrautirnar og svæðið sem heild gegnir mikilvægu hlutverki sem vatnaparadís fyrir alla fjölskylduna og er einn vinsælasti áningarstaður innlendra sem erlendra gesta okkar milli þess sem þeir njóta alls þess sem Akureyri hefur upp á að bjóða í afþreyingu, listum og skemmtun.

Ingibjörg Ólöf Isaksen

Höfundur er framkvæmdastjóri og bæjarfulltrúi og skipar 2. sæti á lista Framsóknarflokksins á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á vikudagur.is 22. maí 2018.

* * *

Heilsueflandi bær

Á líðandi kjörtímabili gerðist Akureyri Heilsueflandi samfélag, við hækkuðum upphæð frístundaávísana úr 10.000 kr. í 30.000 auk þess sem við hækkuðum aldur notenda úr 6-12 ára upp í 6-18 ára.

Margt hefur verið gert á sviði í heilsueflingar hér í bænum, Akureyri á iði er verkefni sem komst á koppinn þegar ég var formaður íþróttaráðs en verkefnið er hugsað fyrir alla íbúa bæjarins til að kynna þá fjölbreyttu flóru sem í boði er til hreyfingar fyrir unga jafnt sem aldna. Bæði hafa íþróttafélög, fyrirtæki og aðrir íbúar bæjarins lagt sitt að mörkum.

Að auki var töluvert unnið við íþróttamannvirki okkar, við kláruðum m.a. íþróttahús Naustaskóla, settum nýja plötu á skautasvellið, skiptum um gervigras í Boganum þar sem gúmmíkurlinu var skipt út auk þess sem nú liggur fyrir að skipta um gervigras á öllum sparkvöllum bæjarins.

Akureyri

Mikil uppbygging er í Hlíðarfjalli, ný lyfta er væntanleg en þar koma Vinir Hlíðarfjalls öflugir að verkefninu ásamt Akureyrarbæ. Þetta og margt annað gott hefur gerst í íþróttamálum í bænum síðastliðin fjögur ár.

Við hjá Framsókn höfum mikinn áhuga á lýðheilsu, fræðslu henni tengdri og forvörnum eins og endurspeglast í stefnuskrá okkar.

Við viljum gera enn betur og hækka frístundaávísanir í 50 þúsund krónur á kjörtímabilinu. Auka þátttöku fólks á öllum aldri í íþrótta- og tómstundastarfi og efla ráðgjöf og heilsueflingu til eldri borgara. Við viljum leggja áherslu á aukna hreyfingu og lýðheilsuhugsun í leik- og grunnskólum og fylgja eftir nýsamþykktri íþróttastefnu bæjarins.

Við viljum auka forvarnir gegn vímuefnum og setja á fót áfangaheimili fyrir ungt fólk sem er að koma úr áfengis- og fíkniefnameðferð. Bæta þarf sálfræði- og aðra sérfræðiþjónustu í skólum og stytta ferli frá ósk um aðstoð til aðgerða. Auk þess teljum við rétt að ráðast í fyrirbyggjandi aðgerðir gegn kvíða og þunglyndi hjá börnum.

Ég vil einnig nefna uppbyggingu hjóla- og göngustíga sem raunhæfan samgönguvalkost.Með því er hvatt til aukinnar hreyfingar og spornað við ofþyngd og öðrum lífstílstengdum sjúkdómum.

Margt hefur verið gert á sviði í heilsueflingar hér í bænum, Akureyri á iði er verkefni sem komst á koppinn þegar ég var formaður

Þetta ásamt öðru leggjum við áherslu á í komandi kosningum en umfram allt leggjum við fram áherslur sem við ætlum að standa við!

Ingibjörg Isaksen

Höfundur skipar 2. sæti á lista Framsóknarflokksins á Akureyri

Greinin birtist fyrst á kaffid.is 18. maí 2018.

* * *

Matvælabærinn Akureyri

Í stefnuskrá okkar framsóknarfólks á Akureyri leggjum við áherslu á fjölbreytt atvinnutækifæri því við viljum að Akureyri verði ákjósanlegur valkostur fyrir alla. Þar er meðal annarst tiltekið að við viljum gera Akureyri að miðstöð þróunar í matvælaiðnaði með sterkri tengingu við frumframleiðslugreinar og efla Háskólann á Akureyri í því skyni með tengingu hans við atvinnulíf á svæðinu. Jafnframt viljum við styðja við frumkvöðlastarfsemi og nýsköpun.

Akureyri

AF HVERJU VILJUM VIÐ ÞETTA?
Á Eyjafjarðarsvæðinu hefur matvælaframleiðsla lengi verið ein af mikilvægustu atvinnugreinunum. Akureyri er stór þéttbýlisstaður í miðju matvælaframleiðsluhéraði með langa hefð fyrir úrvinnslu og annari virðisaukandi starfsemi tengdri landbúnaði og sjávarútvegi. Nefna má að árið 2016 var verðmæti afla sem landað var á Akureyri um 4,2 miljarðar króna. Kúabú við Eyjafjörð framleiða um fimmtung af allri mjólkurframleiðslu á Íslandi og þar að auki kemur mjólk úr Þingeyjarsýslum, Húnavatnssýslum og jafnvel frá Suðurlandi inn til vinnslu hjá MS á Akureyri. Kjötvinnsla hér er meiri en víðast hvar annarsstaðar. Störfin sem um ræðir skipta hundruðum.

Í atvinnustefnu Akureyrarbæjar má lesa eftirfarandi: „_Fyrirtæki á Akureyri verði í fararbroddi í þróun og framleiðslu matvæla á landsvísu. Bærinn verði þekktur sem miðstöð rannsókna og þróunar í íslenskum matvælaiðnaði og skapi þannig fjölda nýrra starfa bæði á sviði hátækni og framleiðslu í greininni_ “ Þessari stefnu viljum við fylgja eftir, efla og útvíkka þennan mikilvæga hluta af atvinnustarfsemi á Akureyri.

HVERNIG GETUM VIÐ GERT ÞETTA?
Í Háskólanum á Akureyri er öflug auðlindadeild sem þar sem boðið er upp á raunvísinda og viðskiptatengt nám í sjávarútvegsfræði, líftækni og náttúru- og auðlindafræði. Einnig rekur Matís starfsstöð í samstarfi við HA þar sem áhersla er á rannsóknir þróun og nýsköpun. Hér er því góður grunnur til staðar sem við þurfum að sameinast um að styðja og efla. Til dæmis með því að skapa aðstæður sem hvetja til samvinnu þessara aðila og atvinnurekanda á svæðinu með áherslu á nýsköpun, þróunarverkefni og rannsóknir á virðisaukandi þróun á matvælum og aukaafurðum sem til falla.

Fjölbreytt atvinnutækifæri eru forsenda öflugs atvinnulífs og þar með þess að bærinn okkar sé eftirsóttur búsetukostur fyrir alla sem þar vilja búa. Akureyri er leiðandi sveitarfélag á landsbyggðinni, aukin tækifæri til menntunar, atvinnu og nýsköpunar hér koma því ekki bara íbúum Akureyrar til góða heldur verða einnig til þess að styðja við og styrkja landsbyggðina í heild sinni. Það á ekki síst við þegar kemur að verðmætasköpun í matvælaiðnaði.

Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttirbúfjárerfðafræðingur, skipar 3. sæti á lista Framsóknarflokksins á Akureyri.

Tryggvi Már IngvarssonMSc í landmælingaverkfræði, skipar 4. sæti á lista Framsóknarflokksins á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á kaffid.is 17. maí 2018.

* * *

Traust staða og lækkun skulda

Ágæti lesandi.

Gjarnan er rætt um stöðu sveitarfélaga í aðdraganda kosninga og því full ástæða til að varpa ljósi á stöðuna hjá okkur hér á Akureyri. Strax í upphafi kjörtímabilsins var stefnan hjá núverandi meirihluta sett á að ná stöðugleika í rekstri, byggja upp traustan grunn til framtíðar, bæta upplýsingagjöf og gera stjórnsýsluna markvissari.

Langtímaskuldir lækkað um ríflega milljarð

Lykillinn af því að búa í haginn fyrir framtíðina er traustur fjárhagur. Við höfum á þessu kjörtímabili séð skuldahlutfall sveitarfélagsins lækka úr 112% í 95% í árslok 2017 og þegar horft er til A-hluta hefur skuldahlutfallið lækkað úr 100% í 82% í lok árs 2017. En skuldahlutfall segir ekki alla söguna því langtímaskuldir hafa lækkað um ríflega 1 milljarð króna hjá A-hluta sveitarfélagsins á síðustu fjórum árum.

Akureyri

Skynsemi í fjárfestingum
Það sem helst skýrir þennan viðsnúning má rekja til skynsemi í fjárfestingum. Þannig höfum við á þessu kjörtímabili fjárfest fyrir ríflega 3,4 milljarða hjá A-hluta, sem er mun minna en kjörtímabilin þar á undan eins og sjá má á mynd hér að neðan.

Betri upplýsingagjöf
Við höfum ennfremur unnið markvisst að því að bæta upplýsingagjöf til bæjarbúa. Nú eru mánaðarlega lagðar fram tölur um rekstur og fjölda stöðugilda, tekin voru upp hálfsárs uppgjör, bókhald sveitarfélagsins var gert aðgengilegt á heimasíðu bæjarins þar sem einnig má finna vandaða greinargerð um fjárhagsáætlun. Óhætt er að segja að vel hafi til tekist og við erum að skila sveitarfélaginu í mun betri stöðu og erum tilbúin að takast á við verkefni framtíðarinnar.

Er tilbúinn til verka

Lesandi góður.
Ég hef sem formaður bæjarráðs leitt vinnu við fjármál sveitarfélagsins á yfirstandandi kjörtímabili og hef lagt mig allan fram um að skila góðum og vönduðum vinnubrögðum. Ég er tilbúinn til áframhaldandi verka. Settu X-við B á kjördag.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson
Oddviti Framsóknarflokksins á Akureyri

Greinin birtist fyrst á kaffid.is 17. maí 2018.

* * *

Hestamennska fyrir alla

Að stunda hestamennsku getur verið allt í senn, íþrótt, atvinna, áhugamál og lífstíll þar sem umgengni við náttúru og dýr er í aðalhlutverki.

Í starfi mínu hef ég fengið einstakt tækifæri til að kynnast starfsemi á vettvangi hestamennsku og hrossaræktar bæði innanlands og á alþjóðavettvangi. Hrossaræktin og hestamennska sem áhugamál og íþrótt eru nátengd og styður þar hvort annað en áskoranir á þessum vettvangi eru margar og samkeppnin um tíma og áhuga fólks er mikil.

Eitt af stóru umræðumálunum á vettvangi hestamennskunnar er nýliðun í greininni, annað stórt mál eru öryggismál hestamanna. Það er mikilvægt fyrir framtíð hestamenskunnar og þar með okkur hestamenn að það sé raunhæfur valkostur fyrir nýtt fólk að koma inn í greinina. Eitt af þeim atriðum sem skipta miklu máli hvað það varðar er að hægt sé að skapa umhverfi þar sem allir upplifa sig örugga og geta notið sín. Þar bera báðir aðilar ábyrgð, annars vegar sveitarfélög að stuðla að uppbyggingu innviða sem gera slíkt mögulegt og hins vegar við hestamenn sjálfir með því að sýna hvort öðru tillitsemi og styðja við bakið á þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref og taka tillit til þeirra sem kjósa að stunda sína hestamennsku á öðrum forsendum en við kannski veljum sjálf. Munum að það besta við hestamennskuna er fjölbreytileikinn og okkar styrkur er að í hestamennsku ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Akureyri

Að stunda hestamennsku innan bæjarmarka á stórum þéttbýlisstað getur verið áskorun fyrir okkur sem höfum alist upp við það að geta þvælst á hesti út um allar koppagrundir án þess að spyrja kóng eða prest, helst með fleiri en einn til reiðar og hund með í för. Við hestamenn þurfum að sýna gott fordæmi og ganga um umhverfi okkar með hliðsjón af því að við erum í návist við þéttbýli og í sambýli við annað útivistarfólk. Við þurfum jafnframt að vera dugleg að fræða þá sem ekki þekkja til okkar íþróttar um okkur og okkar þarfir þannig að sambýlið við aðra geti gengið sem best fyrir sig.

Akureyri hefur alla möguleika á að efla hestamennsku sem hluta af íþróttalífi, afþreyingu og ferðaþjónustu í bænum og að hér verði öflugur miðpunktur hestamennsku og starfsemi í kringum hana. Ég er tilbúin að vinna með  hestamönnum að því verkefni.

Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir.

Höfundur er fagstjóri búfjárræktar hjá Ráðgjafarmiðstöð Landbúnaðarins, hestaeigandi, útivistarmanneskja og skipar 3. sæti lista Framsóknarflokksins á Akureyri.

* * *

Framtíðarsýn í fræðslu- og dagvistarmálum á Akureyri

Framsóknarmenn á Akureyri leggja sérstaka áherslu á fræðslu- og dagvistarmál í sinni stefnu og mikilvægi þess að huga jöfnum höndum að velferð barna og frábæru starfsfólki skólanna. Margt hefur áunnist en það er alltaf hægt að gera betur. Við viljum skoða sérstaklega starfsaðstæður leik- og grunnskólakennara, innleiða snemmbæra íhlutun sem fyrirbyggjandi forvörn við vaxandi kvíða og þunglyndi barna, verða leiðandi í fjölbreyttu skólastarfi og tryggja öllum börnum á Akureyri vistunarpláss. Frambjóðendur funduðu með hópi grunn- og leikskólakennara og vonumst við til þess að það endurspegli stefnu okkar í þessum málaflokki.

Akureyri
Akureyri

Aukum veg og virðingu leik- og grunnskólakennara
Af öðrum starfsmönnum Akureyrarbæjar ólöstuðum þá gegna leik- og grunnskólakennarar mikilvægu hlutverki í að byggja upp Akureyri til framtíðar. Framsóknarmenn vilja vinna að því að gera skólana að eftirsóknarverðum vinnustað fyrir góða og áhugasama kennara, sem því miður leita nú meira en oft áður í önnur störf. Aðgerða er þörf og í samstarfi við menntamálaráðherra okkar, Lilju Alfreðsdóttur, sjáum við vonandi fram á bjartari tíma.

Það þarf að samræma tækjakost allra skóla og íþróttamannvirkja, skoða hvort ekki megi finna samlegðaráhrif milli skóla svo tími kennara nýtist betur en um leið styrkja þá skóla sem vilja auka vald sitt og sjálfstæði. Það þarf að tryggja viðeigandi ráðgjöf til handa kennurum eftir þörfum þeirra og minnka álag á þeim með því að ráða sálfræðinga, fleiri sérkennara og annað fagmenntað fólk inn í skólana. Leggjum niður viðbótarskráningu á vinnustund og stefnum að sveigjanlegum og fjölskylduvænum vinnutíma.

Við leggjum einnig áherslu á að bæta starfsaðstæður barna og starfsmanna í leikskólum og fækka börnum inn á deildum. Auka þarf stuðningskennslu og stytta greiningarferli hjá börnum í leikskólum og á yngsta stigi grunnskóla.

Að lokum viljum við skoða kosti þess að taka upp í tilraunaskyni svipað fyrirkomulag og notast er við í leikskólanum Hólmasól við góðan orðstír. Þar býðst stafsmönnum að vinna styttri vinnudag þar sem faglegt starf fer að mestu fram milli 10:00 og 14:00.

Snemmbær íhlutun
Rannsóknir sína að kvíði og þunglyndi barna hefur aukist og neysla er vaxandi vandamál. Ráðherra Framsóknarmanna, Ásmundur Einar Daðason, hefur talað fyrir því að aðgerða sé þörf og horfir sérstaklega til snemmbærar íhlutunar, það þarf að bregðast fyrr við en áður og ná til yngri barna.

Áreitið í nútímasamfélagi er gífurlegt og sú veröld sem börnin okkar búa við í tækniheiminum er oft á tíðum óhugnanleg og markaðsáreitið varasamt börnum. Það þarf að fræða börnin um kosti og galla þessarar tækni, um muninn á net- og raunsjálfi, kenna þeim að þekkja duldar auglýsingar, þjálfa þau í félagslegum samskiptum og vinna með styrkleika þeirra. Til þess þurfum við að ráða sérmenntað fagfólk inn í skólanna sem sinnir þessari fræðslu í samstarfi við kennara.

Það þarf að bæta sálfræði- og aðra sérfræðiþjónustu í skólum, vinna að forvörnum í víðu samhengi og stytta ferli frá ósk um aðstoð til aðgerða. Setjum börnin okkar í forgang.

Spennandi tímar framundan
4. iðnbyltingin býður upp á heilmörg tækifæri fyrir börnin okkar, tækifæri sem við gerum okkur ekki í hugarlund í dag. Við þurfum að búa okkur undir að mörg þeirra starfa sem við vinnum í dag verða ekki til í náinni framtíð. Við verðum að haga menntun barnanna okkar eftir því. Skapandi störfum og störfum tengd tækni og nýsköpun mun fjölga og þess vegna er mikilvægt að sinna þeim þáttum vel í skólastarfinu og auka samvinnu enn frekar við framhaldsskóla og atvinnulíf með sérstakri áherslu á verk- og tækninám. Það er á okkar stefnuskrá að Akureyrarbær verði leiðandi í innleiðingu á tækni í skólastarfi og bjóði upp á fjölbreytt og spennandi nám þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.

Umbætur í dagvistarmálum
Til að auðvelda foreldrum þátttöku í atvinnulífinu þarf að tryggja úrræði eftir að fæðingaorlofi lýkur og leikskólaganga hefst. Við viljum leikskóla frá 12 mánaða aldri í samræmi við fyrirhugaða lengingu fæðingarorlofs og jafna kostnað við dagsvistun barna á leikskólaaldri til að mismuna ekki foreldrum eftir því hvenær á árinu barnið er fætt. Það þarf að móta framtíðarsýn fyrir uppbyggingu leikskólamannvirkja í tengslum við ungbarnadeildir og fækkun barna inni á deildum. Þetta teljum við raunhæfan kost þegar nýr leikskóli við Glerárskóla er risinn. Einnig viljum við halda þeim möguleika opnum að halda áfram starfsemi í Pálmholti í einhverri mynd eftir að nýr leikskóli opnar árið 2020. Í vetur kom upp erfið, en jafnframt ánægjuleg, staða þegar 40 börn fluttu óvænt í bæinn og verkefni sem þurfi að leysa. Nú eru öll börn fædd í jan., feb., og mars á síðasta ári komin með pláss á leikskóla í haust sem ber að fagna.

XB Akureyri til framtíðar

Sunna Hlín Jóhannesdóttir framhaldsskólakennari 5. sæti og Jóhannes Gunnar Bjarnason grunnskólakennari 6. sæti.

Greinin birtist fyrst á kaffid.is 5. maí 2018.

* * *

Mannauðurinn hjá Akureyrarbæ

Í stefnuskrá okkar Framsóknarfólks, sem kynnt verður formlega á næstu dögum, leggum við m.a. áherslu á mannauðsmál. Akureyrarbær er stór vinnuveitandi og því er mikilvægt að þau framboð sem bjóða fram til kosninga hér í bæ hafi mótaða stefnu í málum er snúa að starfsaðstæðum og vinnufyrirkomulagi ríflega 1.500 starfsmanna Akureyrarbæjar.

Í undirbúningi við gerð stefnuskrár okkar höfum við átt samræður við starfsfólk bæjarins og ljóst er að víða er staðan orðin erfið. Kröfur samfélagsins til starfsmanna og þjónustu af þeirra hálfu eru sífellt að aukast og mikið álag hefur orsakað aukin veikindi og ekki síst langtímaveikindi og við því þarf að bregðast

Akureyri

Margt hefur áunnist í starfsmannamálum bæjarins á liðnum árum og á síðasta ári var m.a. samþykkt metnaðarfull mannauðsstefna fyrir Akureyrarbæ.  Við Framsóknarfólk teljum mikilvægt að stefnunni  verði fylgt eftir.  Leggja þarf áherslu á gott starfsumhverfi, heilsueflingu, starfsanda, aðbúnað og öryggi starfsfólks.  Við teljum mikilvægt að skoða sérstaklega vinnufyrirkomulag og starfsaðstæður m.a. í velferðarþjónustu og hjá Öldrunarheimilum Akureyrarbæjar.  Álag í leik- og grunnskólum er orðið þannig að flótti starfsfólks er staðreynd og við því þarf að bregðast.  Bæta þarf aðstöðu barna og starfsmanna í leikskólum og við teljum rétt að skoða möguleika á breyttri útfærslu á skráningu í vinnustund hjá grunnskólakennurum.

Ljóst er að gott samfélag byggist upp á góðri þjónustu af hendi sveitarfélagsins.  Sú þjónusta verður ekki veitt nema með hæfu og góðu starfsfólki sem starfar við ákjósanlegar starfsaðstæður og aðbúnað.  Við höfum gert margt gott en það er hægt að gera betur.  Það ætlum við Framsóknarfólk að gera.

Akureyri til framtíðar.  X-B

Ingibjörg Ólöf Isaksenbæjarfulltrúi og Guðmundur Baldvin Guðmundssonbæjarfulltrúi.

* * *

Horft um öxl

Nú þegar rúmlega sex vikur eru til bæjarstjórnakosninga er fróðlegt að horfa um öxl og rýna í það sem gert hefur verið hér á Akureyri á yfirstandandi kjörtímabili.

Meirihluti Framsóknar, L-lista og Samfylkingar ákvað strax í upphafi að leggja upp með samstarfssamning um þau mál sem mikilvægt þótti að vinna á yfirstandandi kjörtímabili. Óhætt er að segja að afar vel hafi tekist til við að framfylgja samstarfssamningnum og flest þau málefni sem lagt var upp með hafa ýmist verið framkvæmd eða komin í vinnslu.

Akureyri

Við bæjarfulltrúar Framsóknar og nefndarfólk okkar höfum staðið í ströngu á kjörtímabilinu og höfum leitt vinnu við mörg mikilvæg mál.

Þannig hefur umbreytingum á fjármálum og stjórnsýslu verið stýrt af formanni bæjarráðs, Guðmundi Baldvin. Ráðist var í stjórnsýslubreytingar, bókhald bæjarins var opnað, skýrslugjöf til bæjarfulltrúa var stóraukin og stöðugleiki í rekstri hefur aukist svo fátt eitt sé nefnt af því sem lagt var upp með í upphafi kjörtímabilsins.

Í skipulagsmálum hefur mikið mætt á formanni skipulagsráðs Tryggva Má. Nú nýverið samþykkti bæjarstjórnin samhljóða aðalskipulag 2018-2030 og í máli allra bæjarfulltrúa kom fram , mikil ánægja með störf skipulagsráðs og verkstjórn formannsins en mikil samvinna einkenndi alla hans vinnu.

Á vettvangi Umhverfis- og mannvirkjasviðs hefur verið ráðist í viðamiklar framkvæmdir og hefur Ingibjörg Ólöf, formaður umhverfis- og mannvirkjasviðs, staðið í brúnni og fylgt þeim eftir. Umhverfismálin hafa einnig verið á hennar könnu en Akureyrarbær stendur framarlega í umhverfismálum þannig að eftir er tekið.

Já, sá meirihluti sem stofnaður var í upphafi kjörtímabilsins var skipaður sex bæjarfulltrúum sem höfðu það að markmiði að gera góðan bæ betri. Það er skoðun okkar að vel hafi tekist til og við tvö sem eftir stöndum af þeim bæjarfulltrúum sem mynduðu meirihlutann erum sannanleg tilbúin að taka áfram slaginn með öflugum frambjóðendum Framsóknar og halda á þeirri vegferð að gera góða bæ enn betri.

Guðmundur Baldvin Guðmundssonbæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs og Ingibjörg Ólöf Isaksenframkvæmdastjóri og bæjarfulltrúi.

Greinin birtist á vikudagur.is 13. apríl 2018.

Framboðslisti Framsóknar á Akureyri

Framboðslisti Framsóknarflokksins á Akureyri fyrir bæjarstjórnarkosningarnar 26. maí næstkomandi var samþykktur einróma á fulltrúaráðsfundi félagsins laugardaginn 3. mars.

Fulltrúaráðið stillti upp listanum þar sem Guðmundur Baldvin Guðmundsson, bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs, skipar efsta sæti, Ingibjörg Isaksen, bæjarfulltrúi og framkvæmdastjóri er í öðru sæti, Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir búfjárerfðafræðingur í því þriðja, Tryggvi Már Ingvarsson landmælingaverkfræðingur skipar fjórða sæti listans, Sunna Hlín Jóhannesdóttir framhaldsskólakennari er í fimmta sæti og Jóhannes Gunnar Bjarnason, íþróttafræðingur og fyrrverandi bæjarfulltrúi, skipar sjötta sæti listans. Á myndinn eru frá vinstri: Sunna Hlín Jóhannesdóttir, Jóhannes Gunnar Bjarnason, Ingibjörg Isaksen, Guðmundur Baldvin Guðmundsson, Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir og Tryggvi Már Ingvarsson.

Akureyri

Við uppstillingu listans var meðal annars áhersla lögð á fjölbreytta menntun og reynslu frambjóðenda, ungt og hæfileikaríkt fólk í bland við reynslumikla frambjóðendur og jafnt hlutfall kynjanna. „Ég fer bjartsýnn inn í kosningabaráttuna og vongóður um góða niðurstöðu enda framboðslistinn einhuga og vel skipaður hópur,“ segir Guðmundur Baldvin Guðmundsson, oddviti listans.

„Ég hlakka til að vinna með þessum öfluga hópi frambjóðenda Framsóknarflokksins sem gengur samstíga inn í komandi kosningabaráttu,“ segir Ingibjörg Isaksen bæjarfulltrúi.
Á framboðslista Framsóknarflokksins fyrir bæjarstjórnakosningarnar eru 22 frambjóðendur, 11 konur og 11 karlar.

Framsóknarmenn fengu tvo bæjarfulltrúa í sveitarstjórnarkosningunum 2014, Guðmund Baldvin Guðmundsson og Ingibjörgu Isaksen.

Framboðslisti Framsóknarflokksins á Akureyri:

 1. Guðmundur Baldvin Guðmundsson, bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs
 2. Ingibjörg Isaksen, bæjarfulltrúi og framkvæmdastjóri
 3. Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir búfjárerfðafræðingur
 4. Tryggvi Már Ingvarsson landmælingaverkfræðingur
 5. Sunna Hlín Jóhannesdóttir framhaldsskólakennari
 6. Jóhannes Gunnar Bjarnason, íþróttafræðingur og fyrrverandi bæjarfulltrúi
 7. Halldóra Kristín Hauksdóttir, lögmaður
 8. Sverre Andreas Jakobsson, fyrirtækjaráðgjafi og handboltaþjálfari
 9. Óskar Ingi Sigurðsson, rafmagnsiðnfræðingur og kennari
 10. Anna Rakel Pétursdóttir, nemi og knattspyrnukona
 11. Grétar Ásgeirsson, flokksstjóri og vélamaður
 12. Katrín Ásgrímsdóttir, garðyrkjufræðingur
 13. Gunnar Þórólfsson, verkamaður
 14. Ólöf Rún Pétursdóttir, nemi
 15. Siguróli M. Sigurðsson, sagnfræðingur
 16. Ragnhildur Hjaltadóttir, umboðsmaður
 17. Árni Gísli Magnússon, sölumaður
 18. Petrea Ósk Sigurðardóttir, leikskólakennari
 19. Guðrún Rúnardóttir, bókari
 20. Ólafur Ásgeirsson, fyrrverandi aðstoðaryfirlögregluþjónn
 21. María Ingadóttir, launafulltrúi
 22. Páll H. Jónsson, eldri borgari