Categories
Sveitarstjórnarfólk

Borgarbyggð

Deila grein

Sveitarstjórnarfólk Framsóknar

This image has an empty alt attribute; its file name is Group-270.png

FRAMSÓKN Í BORGARBYGGÐ

Íþróttir eru forvarnir

Það þarf ekki að fara mörgum orðum yfir mikilvægi þess að hafa virkt íþrótta og tómstundastarf í sveitafélaginu. Það hefur ekki aðeins forvarnalegt gildi fyrir börnin okkar heldur litar það líka menningu og lífstíl allra íbúa sveitafélagsins. Við viljum leiða börnin okkar áfram af reglu- og heilsusömu líferni til að styrkja þau og móta til framtíðar. Brottfall unglinga úr íþróttum er mikið áhyggjuefni, sérstaklega á meðal stúlkna. Það er okkur í Framsókn mikið kappsmál að breyta þessari þróun og styðja við uppbyggingu á nýju fjölnota íþróttahúsi til að bæta aðbúnað við íþrótta og tómstundarstarf í Borgarbyggð.

Höldum unga fólkinu í Borgarbyggð

Á mínum yngri árum fékk ég tækifæri til að stunda mína íþrótt í Borgarbyggð enda mikill áhugi og umgjörð í kringum körfuboltann á þeim tíma en því miður var þó minni áhugi á meðal kvenkyns iðkenda. Þegar kom að því að fara í framhaldsskóla valdi ég skóla á höfuðborgarsvæðinu þar sem ég þurfti að flytja mig úr bæjarfélaginu til að halda áfram að sinna mínum áhugamálum. Það var ánægjulegt að fá tækifæri til að spila aftur með uppeldisfélagi mínu í Borgarnesi þegar liðið komst uppí úrvaldseild kvenna haustið 2016. Það eitt að spila með félaginu aftur eftir langa bið var frábær tilfinning.

Borgarbyggð

En það sem vakti þó enn meiri áhuga og ástríðu var sú umfjöllun og umgjörð utanum liðið sem vakti áhuga hjá yngri iðkendum sem líta upp til leikmanna liðsins sem fyrirmyndir. Af því sögðu sé ég hversu mikilvægt það er að hafa öfluga innviði til að styðja við íþrótta- og tómstundastörf sem laða að sér góðar fyrirmyndir og vekur upp eldmóð og áhuga barna og unglinga. Það er auðvelt að heltast úr lestinni eða þurfa að flytja úr sveitafélaginu til að halda áfram að stunda sína íþrótt ef stuðningurinn er ekki til staðar. Það verða ekki allir atvinnumenn en skemmtun og forvarnargildi er það sem skiptir höfuð máli, allir eiga að geta stundað sitt áhugamál og haft ánægju af.

Uppbygging á íþróttamannvirkjum

Okkar trú er að öflug menntun, menning, tómstundir og íþróttir sé lykill að farsælu samfélagi. Til þess vill Framsókn að komið sé upp íþróttaakademíu á mennta- og háskólastigi sem mun laða að öflugt íþróttafólk, bæði úr sveitarfélaginu okkar og nágrannasveitarfélögum. Slík uppbygging mun skila öflugu íþrótta- og menningastarfi sem er hvatning til barna og unglinga og mun móta skemmtilega félagsmenningu sem sameinar sveitarfélagið í blíðu og stríðu. Því vill Framsókn standa fyrir byggingu á nýju fjölnota íþróttahúsi, íþróttaakademíu og betra aðgengi allra íbúa sveitafélagsins með bættum samgöngum og styrkjum til íþrótta iðkunar með það markmið að auka forvarnir og minnka brottfall og brottflutnings ungs fólks úr sveitafélaginu.

Sigrún Sjöfn Ámundadóttir

Höfundur skipar 4 sæti á lista Framsóknarflokksins í Borgarbyggð.

* * *

Framsækni í skólamálum

Það er ekki sjálfgefið að vera valinn til þess að vera fulltrúi flokks til sveitastjórnarkosninga, ég þurfti að hugsa mig lengi um áður en ég ákvað að láta slag standa. Þegar málefnavinna flokksins hófst og boltinn fór að rúlla áttaði ég mig á því hversu skemmtilegt og gefandi þetta getur verið. Það að fá að taka þátt í að móta framtíðarsýn og hugmyndir sem ætlunin er að vinna eftir er mikill ábyrgðarhluti en við vonumst til þess að þær hugmyndir sem við höfum falli jafn vel í kramið hjá íbúum sveitarfélagsins og þær gera hjá okkur.

Við framsóknarfólk ætlum að sækja fram í skólamálum bæði á leikskóla og grunnskólastigi.

Nú er búið að samþykkja að byggja nýjan og glæsilegan leikskóla á Kleppjárnsreykjum auk þess að gera löngu tímabærar endurbætur og stækkun við grunnskólann í Borgarnesi þessu ber að fagna og munum við sjá til þess að framkvæmdirnar fari af stað.

Borgarbyggð

Við ætlum ekki að staldra of lengi við heldur gera framsæknar áætlanir um aukningu á leikskólaplássi í Borgarnesi samhliða áætlunum um stórsókn í íbúðaframboði án þess þó að skerða það góða þjónustustig sem við höfum í leikskólum sveitarfélagsins, en það er ekki sjálfgefið í dag að geta boðið upp á leikskólapláss frá 12 mánaða aldri.

Við ætlum að tryggja nýliðun kennara með bættum kjörum og góðu starfsumhverfi, einnig viljum við stórefla sérfræðiþjónustu til þess að koma til móts við ólíkan hóp nemenda með fjölbreyttar þarfir. Framsókn vill stuðla að menntun leiðbeinenda í leik og grunnskólum og koma til móts við þá með því að laun verði ekki dregin af starfsmönnum í námslotum.

Í nútímasamfélagi er nauðsynlegt að vera framsýnn og tryggja verður að skólarnir séu þannig tækjum og tæknibúnaði búnir að þeir geti skilað af sér virkum þáttakendum inn í nútímasamfélag.

Við viljum nota kjörtímabilið í að vinna framtíðarstefnu í grunnskólamálum í samráði við íbúa sveitarfélagsins með það að markmiði að uppfylla ofangreind atriði.

Getum við ekki öll verið sammála um það að þjónustustig í skólamálum bæði á leik og grunnskólastigi er fyrir flesta grunnforsenda þegar valið er framtíðarheimili.

Davíð Sigurðsson.

Höfundur skipar annað sæti Framsóknarflokksins í Borgarbyggð.

* * *

Heima

Á meðan skólagöngu minni í Danmörku stóð var ég sífellt spurður af heimamönnum þarlendis afhverju ég ætlaði að flytja heim. „Líkar þér ekki Danmörk?“ var ég spurður. Eina svarið sem ég gat gefið var að mig langaði bara… heim. Heim þangað sem ég ólst upp og sæki í að vera hverja einustu stund. Heim í Borgarbyggð. Af skólabekknum hef ég fylgst með ungu fólki, mörgum af mínum bestu vinum, flytja heim og koma sér fyrir með sínar fjölskyldur. Mig langaði bara heim líka!

Fyrir fólk sem vill koma sér fyrir í okkar fallegu byggð er mikilvægt að sveitarstjórn sýni vilja til þess að fá það heim með því að styðja við bakið á því með einhverju móti. Framsóknarfólk í Borgarbyggð vill beita sér fyrir því að sá stuðningur komi í formi lækkaðra gatnagerðagjalda. Það er okkar von að slíkur fjárhagslegur hvati komi til með að styrkja íbúa með beinum hætti og skapi betri möguleika fyrir fólk sem vill flytja á nýtt heimili. Gatnagerðagjöldin munu ekki einungis skila sér til íbúa í íbúðarhugleiðingum, heldur einnig stórauka möguleika nýrra fyrirtækja til að koma sér upp atvinnustarfsemi í okkar héraði og ekki síður gamalgróinna fyrirtækja að stækka við sig.

Borgarbyggð

Varðandi skipulagsmál í Borgarbyggð vildi ég óska þess að ég gæti hér komið fram með töfralausn. Leysa ráðgátuna með einu bragði og öðlast með því hylli kjósenda! En það er því miður ekki svo, hér vantar ekki eina lausn. Heldur eru það margir litlir hlutir sem þarf að sinna með elju og þolinmæði. Í Borgarbyggð þarf að fara í stórátak til að styrkja skipulagssviðið með skilvirkni að leiðarljósi. Fara þarf vel yfir alla þá verkferla sem eiga sér stað allt frá því að umsókn berst til stjórnsýslunnar til afgreiðslu. Mynda þarf góða yfirsýn yfir öll þau litlu vandamál í ferlinu sem eiga sér stað.  En það er ekki nóg að benda bara á vandamálin, heldur þarf að vinna að og skila úrlausn á þeim vandamálum!  Framsóknarfólk í Borgarbyggð vill aðskilja skipulagsnefnd frá Umhverfis- og landbúnaðarnefnd. Með því teljum við að nefndirnar báðar geti skilað af sér skilvirkara starfi og skilað til okkar, íbúum Borgarbyggðar, betra starfi!

Með fjárhagslegum ívilnunum sem og bættu skipulagi er vonin sú að það verði auðveldara fyrir íbúa sem og fyrirtæki að koma sér fyrir í Borgarbyggð. Koma heim.

Að lokum vildi ég óska þess að framsóknarfólk í Borgarbyggð gæti tryggt þér lesandi góður betra veðri! En ef við hefðum nokkuð um það að segja værum  við löngu búin að því!

Orri Jónsson

Höfundur skipar 5. sæti Framsóknarflokksins í Borgarbyggð.

Greinin birtist á skessuhorn.is 9. maí 2018.

* * *

Ábyrg, róttæk og framsækin stefnumótun til framtíðar

Sogkraftur þéttbýliskjarna og höfuðborga er þekktur um allan heim. Okkar verkefni á landsbyggðinni miða að því að sporna við fólksflótta til höfuðborgarinnar með því að tryggja rekstrarumhverfi hefðbundinna greina til framtíðar og auk þess að skapa aðstæður sem miða að því að auka aðdráttarafl landsbyggðarinnar sem góðum valkost fyrir einstaklinga og fyrirtæki að setjast að. Aukin fjöldi fjölskyldufólks metur Borgarbyggð sem góðan búsetukost, stundar vinnu á höfuðborgarsvæðinu og keyrir daglega á milli. Borgarbyggð er orðinn hluti af atvinnusvæði höfuðborgarinnar og nauðsynlegt að við nýtum tækifærin sem því fylgja.

Borgarbyggð

 Í ársreikningum síðust ár kemur fram að framlög frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga er hundruðum milljóna meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir sem er merki um aukin hagvöxt og góðan bata í efnahagsmálum. Skuldir ríkisjóðs hafa lækkað og efnahagsleg skilyrði hafa verið hagfelld.  Á landsvísu sjáum við að undirstöðu atvinnugreinum er að fjölga með meiri fjölbreytileika í atvinnulífinu. Tækifærin í matvælaframleiðslu hér á landi til framtíðar eru mikil með okkar sérstöðu.  Og það má gera þær væntingar til ferðaþjónustunnar að hún tryggi búsetu á ársgrunni og eigi þátt í að fjölga íbúum. Vöxtur í ferðaþjónustu hefur verið mikill síðustu ár og talið er að um 50% af hagvaxtaraukningu sé hægt að rekja til ferðaþjónustunnar og ávinningurinn er ýmiskonar en því tengjast líka áskoranir.  Forsendur fyrir því að við getum nýtt okkur þessi tækifæri eru gott samstarfs ríkis og sveitarfélaga. Það er okkur í hag að sú ríkisstjórn sem nú situr hefur skilning, þekkingu og áhuga á atvinnugreinum landsbyggðarinnar. Það er samstarfsverkefni þessara aðila að gera gangskör í tryggja lífæðar atvinnulífsins það eru samgöngur og fjarskipti. Forgangsverk í byggðastefnu samtímans verður að vera skilvirkari uppbygging 3ja fasa rafmagns og viðhald og vöxtur vegsamgangna á landsbyggðinni. Það er undirstöðu atriði til að styðja við vöxt og viðgang atvinnu og búsetu.

Verkefni okkar sem sveitarfélags er að festast ekki í fortíðinni og hræðast breytingar og áskoranir sem fylgja framtíðinni. Við þurfum metnaðarfulla skólastefnu frá leikskóla upp í framhaldsskóla sem tekur mið af þeirri þróun sem á sér stað með áherslum á að virkja hugvit og sköpun og efla tækni- og raungreinar. Við þurfum að meta hvað hefur tekist vel og hvar má gera betur.  Verum ábyrg með skýra sín og óhrædd við það að vera róttæk.

Með framsækinni stefnumótun getum við sem sveitarfélag verið í fremstu röð.

Guðveig Anna Eyglóardóttir

Höfundur er oddviti Framsóknarflokksins í sveitarstjórn Borgarbyggðar.

Fjölnota íþróttahús til heilsueflingar fyrir alla aldurshópa

Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á að aðstaða fyrir alla aldurhópa til heilsueflingar og félagsstarfs sé eins góð og kostur er. Því teljum við tímabært að hafist verði handa við það að hanna og skipuleggja stækkun og endurbætur á íþróttahúsinu okkar í Borgarnesi.

Á næstu áratugum mun öldruðum fjölga umfram aðra aldurshópa. Við þessu verðum við að vera undirbúin. Aldraðir verða að hafa kost á því að hátta lífi sínu eftir heilsu og getu á þeim stað sem þeir kjósa. Fólk þarf að geta búið sem lengst á sínum heimilum með öflugum stuðningi heimaþjónustu og heimahjúkrunar, í samvinnu ríkis og sveitarfélaga. Stór hluti fólks á sjötugs- og áttræðisaldir er við góða heilsu og virkir lykilþátttakendur í samfélaginu. Það hefur blasað við lengi að staða öldrunar- og hjúkrunarheimila í landinu er ekki ásættanleg. Viðvarandi og vaxandi skortur er um land allt á rýmum. Eitt af brýnustu verkefnum okkar sveitarstjórnarfulltrúa er að tryggja í samstarfi við ríkið framtíðar uppbyggingu og rekstrargrundvöll hjúkrunarheimila í landinu. Framsóknarflokkurinn hefur þegar lýst yfir áhyggjum af sérstækum húsnæðisskorti á landsbyggðinni og vonir bundnar við áform félags- og jafnréttismálaráðherra um áætlanir til að bregðast við því með uppbyggingu á hagkvæmum íbúðum og hjúkrunarrýmum fyrir aldraða á þeim svæðum þar sem þörfin er brýn.

Borgarbyggð

Nauðsynlegt er að áherslan varðandi málefni aldraðra snúi ekki aðeins að því að veita fullnægjandi heilbrigðisþjónustu, þessum hópi verður að standa til boða viðeigandi félags-, tómstunda- og íþróttatengd þjónusta sem bætir lífgæði.  Í janúar s.l. tók til starfa stýrihópur á vegum sveitarfélagsins sem hafði það að markmiði að endurskoða stefnumótun í þjónustu við þennan hóp. Fulltrúar frá eldriborgararáði og báðum félögum eldriborgara í Borgarbyggð hafa starfað í þessum hóp. Niðurstaða þessarar vinnu er mikilvægt gagn fyrir  okkur sem störfum í sveitarstjórn að vinna með og hafa að leiðarljósi.

Góð aðstaða til heilsueflingar félags- og tómstunda fyrir alla aldurshópa mun skila sér margfalt til baka til samfélagsins.

Guðveig Anna Eyglóardóttir

Höfundur er oddviti Framsóknarflokks í sveitarstjórn Borgarbyggðar.

Greinin birtist á skessuhorn.is 28. mars 2018.

Framboðslisti Framsóknar í Borgarbyggð

Framboðslisti Framsóknarflokksins í Borgarbyggð var samþykktur á félagsfundi fyrir helgi. Guðveig Anna Eyglóardóttir hótelstjóri skipar efsta sætið. Guðveig Anna leiddi einnig lista flokksins í kosningunum fyrir fjórum árum. Davíð Sigurðsson, framkvæmdastjóri og bóndi, er í öðru sæti listans og Finnbogi Leifsson, bóndi og sveitarstjórnarmaður, það þriðja. Framsóknarflokkurinn er með þrjá fulltrúa í sveitarstjórn í Borgarbyggð.

Á myndinni eru frá vinstri: Davíð Sigurðsson, Guðveig Anna Eyglóardóttir, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir og Finnbogi Leifsson.

Borgarbyggð

Framboðslisti Framsóknarflokksins í Borgarbyggð:

 1. Guðveig Eyglóardóttir, sveitarstjórnarfulltrúi og hótelstjóri
 2. Davíð Sigurðsson, framkvæmdastjóri og bóndi
 3. Finnbogi Leifsson, sveitarstjórnarfulltrúi og bóndi
 4. Sigrún Sjöfn Ámundadóttir, héraðslögreglumaður og körfuboltakona
 5. Orri Jónsson, tæknifræðingur
 6. Sigrún Ólafsdóttir, bóndi og tamningamaður
 7. Einar Guðmann Örnólfsson, bóndi
 8. Kristín Erla Guðmundsdóttir, húsmóðir og húsvörður
 9. Sigrún Ásta Brynjarsdóttir, nemi
 10. Hjalti Rósinkrans Benediktsson, umsjónarmaður kennslukerfa
 11. Pavle Estrajher, náttúrufræðingur
 12. Sigurbjörg Kristmundsdóttir, viðskiptafræðingur
 13. Jóhanna María Sigmundsdóttir, fyrrv. alþingismaður
 14. Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, nemi
 15. Þorbjörg Þórðardóttir, eldri borgari
 16. Höskuldur Kolbeinsson, húsasmiður og bóndi
 17. Sveinn Hallgrímsson, eldri borgari
 18. Jón G. Guðbjörnsson, bóndi