Categories
Sveitarstjórnarfólk

Sveitarfélagið Hornafjörður

Deila grein

Sveitarstjórnarfólk Framsóknar

This image has an empty alt attribute; its file name is Group-270.png

FRAMSÓKNARMENN OG STUÐNINGSMENN ÞEIRRA Í SVEITARFÉLAGINU HORNAFIRÐI

Góð heilsa gulli betri

Íþróttir eru mikilvægar fyrir samfélagið okkar, þær bæta ekki einungis lýðheilsu íbúanna sem þær stunda heldur eru þær einnig mikilvæg forvörn fyrir börnin okkar og unglinga. Því er nauðsynlegt að gera íþróttum og tómstundum hátt undir höfði og tryggja að flestum standi til boða íþrótta- og tómstundarstarf. En rekstur faglegrar íþróttastarfsemi er almennt kostnaðarsamur fyrir íþróttafélögin sjálf og deildir þeirra og þ.a.l. iðkendur og forráðamenn þeirra. Bæði er kostnaður við starfið sjálft mikill og einnig eru mannvirki og búnaður, sem þarf til að stunda hinar ýmsu íþróttir, kostnaðarsamur. Þar þarf sveitarfélagið að hjálpa til eins og frekast er unnt. Tómstundarstyrkur sveitarfélagsins hefur komið til móts við kostnað barna í íþróttum og forráðamanna þeirra sem er af hinu góða. En tómstundarstyrkurinn þarf síðan að fylgja eðlilegri verðlagsþróun tengdri íþróttastarfseminni. Einnig er nauðsynlegt að koma til móts við aukinn kostnað foreldra í dreifbýli vegna aksturs í íþrótta- og tómstundarstarf. Það er í sambandi við mannvirkin sem sveitarfélagið þarf e.t.v. að grípa ennþá sterkar inn í. Þó eru ekki öll börn og unglingar sem finna sig í íþróttum og það er nauðsynlegt að hlúa einnig að þeim. Í því sambandi er rekstur félagsmiðstöðvarinnar nauðsynlegur nú sem áður. Félagsmiðstöðin fékk á dögunum nýtt og endurbætt húsnæði sem er vel. Það góða innra starf sem þar er unnið þarf sveitarfélagið e.t.v. að styrkja enn betur með lengri og auknum opnunartíma.

Hornafjörður

Staðan

Íþróttastarfið er í ágætum blóma hér í Hornafirði og er framboð ólíkra íþróttagreina ótrúlega fjölbreytt að mínu mati miðað við fjölda íbúa. Körfuknattleikurinn er í miklum uppgangi þessi misserin og blakið er jafnframt vaxandi. Þá er fimleikastarfið öflugt og knattspyrnan er alltaf vinsæl meðal iðkenda. En alltaf má gera betur og það þarf að vanda til verka nú sem áður. Undirrituðum hefur alltaf þótt heillandi að hafa bæði húsnæði Grunnskólans, mest notuðu íþróttamannvirkin og miðsvæði til útivistar og afþreyingar á sama svæðinu. Svæði þar sem börn þurfa ekki að fara yfir umferðargötu til að komast á milli skólabygginga og allra helstu íþróttamannvirkjanna. Síðan er Vöruhúsið, miðja skapandi greina, ásamt félagsmiðstöðinni ekki langt undan. Það eru mikil forréttindi að geta haft þetta svona og taka þarf mið af því til framtíðar.

Nýtt íþróttamannvirki

Oft hefur verið rætt um að næsti áfangi í tengslum við uppbyggingu íþróttamannvirkja ætti að vera millibygging milli sundlaugar og Heppuskóla. En upp á síðkastið hafa ýmsar fleiri framkvæmdir verið nefndar sem menn telja þarft að ráðast í. Meðal þeirra er t.d. nýtt íþróttahús, framtíðarhúsnæði fyrir líkamsræktarstöð, stærra húsnæði fyrir fimleika, vallarhús fyrir knattspyrnu- og frjálsíþróttavöllinn og nýja áhorfendastúku fyrir knattspyrnuvöllinn. Er jafnvel hægt að leysa flestar þessar framkvæmdir með einni nýrri byggingu? Þá losnar líka um gamla íþróttahúsið sem gæti nýst fyrir t.d. líkamsrækt, bardagaíþróttir, danskennslu, klifur auk annars. Með byggingu á nýju íþróttahúsi gætum við skapað iðkendum í þessum íþróttagreinum, ásamt greinum sem áður hafa verið nefndar, miklu betri aðstæður til æfinga og leikja. Listi Framsóknar og stuðningsmanna þeirra vilja setja uppbyggingu íþróttamannvirkja á dagskrá. Við getum samt ekki ráðist í þær framkvæmdir og forgangsraðað hugsanlegum áföngum nema að undangengnu víðtæku samráði við íþróttahreyfinguna og skólasamfélagið. Við viljum byrja á samtali við þau áður en ákvarðanir verða teknar, en ekki ráðast blint í einhverjar framkvæmdir sem e.t.v. leysa vandann bara tímabundið. Það þarf að hugsa lengra en til fjögurra ára í þessum efnum, áætlanir þurfa að taka mið af þörf og notkun næstu 20-30 ára.

Björgvin Óskar Sigurjónsson, 4. sæti á lista Framsóknar og stuðningsmanna þeirra á Hornafirði.

Greinin birtist fyrst á eystrahorn.is 9. maí 2018.

* * *

Byggjum upp

Jökulsárlón er lykilstaður fyrir ferðaþjónustu í okkar sveitarfélagi og eitt helsta aðdráttarafl þess. Það er nú komið undir mörk Vatnajökulsþjóðgarðs sem þýðir ekki að við eigum að skila auðu um skipulagsmálin þar. Þvert á móti gerir stjórnfyrirkomulag garðsins okkur kleift að forsvarsmenn sveitarfélagsins taki frumkvæðið. Ferlið verður hins vegar að vera opið sem fer víðsfjarri hjá þeim sem nú koma að þessum málum. Fyrsta sem hafa ber í huga við gerð skipulagsins er hvert markmið þess á að vera.

Við viljum að uppbygging við lónið miði að því að nokkur lítil og meðalstór fyrirtæki sem hafa sterk tengsl við nærsamfélagið fái að koma þar upp aðstöðu, hvort sem um er að ræða afþreyingarfyrirtæki eða veitingafólk. Sanngjörn leiga þarf að sjálfsögðu að koma fyrir aðstöðuna en það má hins vegar ekki gerast að vegna ásóknar fjársterkra aðila að vaxtarsprotum í ferðaþjónustu á svæðinu verði ýtt úr vegi.

Hornafjörður

Skipulagsmál á Höfn

Fyrir liggur þörf í uppbyggingu íbúða í bæði dreifbýli og þéttbýli. Fjölbreytt framboð á lóðum innan Hafnar er mikilvægt sem aldrei fyrr og að hugað vel að uppbyggingu grænna svæða. Við gerð skipulags er framtíðarsýn mikilvæg og fólk verður að hafa hugmynd um hvernig samfélagið á að þróast en dansa ekki eftir geðþótta ákvörðunum á hverjum tíma. Á Höfn þarf að halda áfram uppbyggingu strandstígs og grænna svæða.

Skipulagsmál til sveita

Það er ánægjulegt að núverandi meirihluta hefur tekist á fjórum árum, að ljúka því sem var nánast komið í höfn fyrir fimm árum – að klára skipulög í kringum félagsheimilin í sveitunum. Félagsheimilunum okkar þarf að sýna meiri sóma með bættu viðhaldi og snyrtilegri aðkomu. Nú hljóta menn að laga planið við Mánagarð í vor! Í dreifbýlinu er mikilvægt að íbúar og gestir upplifi ekki þrengsli. Sú sérstaða sem Ísland hefur, víðerni og andrými, verður að viðhalda.

Skipulagsmál og lýðræði

Íbúalýðræði hefur ekkert verið að flækjast fyrir okkur síðustu árin. Það er því mikilvægt að kjósendur vegi og meti hvort þeir vilji að vinnubrögð breytist við stjórn sveitarfélagsins. Leiðarljós okkar Framsóknarmanna í þeim efnum er betra upplýsingaflæði, meira samráð og gott viðmót í samskiptum sveitarfélags og íbúa þess.

Verkefnin eru mörg og sum brýn og krefjandi en ekkert þeirra óleysanlegt. Við Framsóknarmenn og stuðningsmenn þeirra bjóðum ykkur starfskrafta okkar næstu fjögur árin til þess að gera samfélag okkar allra enn sterkara.

Ásgrímur Ingólfsson, 2. sæti á lista Framsóknar og stuðningsmanna þeirra á Hornafirði.

Greinin birtist í Eystrahorni.

* * *

Sterkara samfélag

Þann 26. maí er boltinn hjá okkur íbúum Sveitarfélagsins Hornafjarðar að hafa áhrif á stjórn sveitarfélagsins í sveitarstjórnarkosningum.

Framsóknarmenn og stuðnings­menn þeirra völdu sinn framboðslista á fjölmennum aðalfundi þann 26. febrúar sl. og hafa síðan unnið að undirbúningi kosninganna. Undirrituð er stolt af því að leiða lista öflugra einstaklinga sem vilja vinna af krafti samfélaginu til heilla næstu fjögur árin. Framsóknarmenn og stuðningsmenn þeirra vilja vera valkostur fyrir íbúa sem vilja enn sterkara samfélag. Þess vegna höfum við rætt við fjölmarga íbúa, bæði á opnum fundum og á öðrum vettvangi. Við munum kynna stefnumál okkar á næstu vikum en þetta er meðal annars það sem við viljum gera.

Öflug stjórnsýsla

Auglýsa eftir bæjarstjóra. Við leggjum áherslu á að bæjarstjórinn ásamt öðru forystufólki sveitarfélagsins láti að sér kveða í samfélaginu og tali máli þess þannig að eftir sé tekið á landsvísu.

Hornafjörður

Kröftugt atvinnulíf
Tökumst á við nýjar áskoranir sem hafa komið upp á yfirborðið með auknum straumi ferðamanna. Fjölmargar fjölskyldur og einstaklingar eiga mjög mikið undir ferðaþjónustunni komið. Gott samstarf sveitarfélags og ferðaþjónustufyrirtækja er öllum mikilvægt, ekki síst þeim fjölmörgu einyrkjum og fyrirtækjum sem þjónusta þessa atvinnugrein. Við viljum standa vörð um þessi staðbundnu fyrirtæki og þjónustuaðila. Auk þess þarf að byggja áfram upp innviði fyrir sjávarútveginn og leggja alla áherslu á að rannsaka Grynnslin og sjá hvað raunhæft er að gera til að bæta innsiglinguna. Sveitarfélagið stendur frammi fyrir mikilli áskorun um hvernig hægt sé að styrkja landbúnað í sessi og þarf að taka virkan þátt í því að leita leiða til að treysta afkomu bænda.

Félags- og heilbrigðismál í fyrirrúmi
Sveitarfélagið Hornafjörður er góður staður til að búa á en við getum gert betur. Við vitum að aðgengi að heilbrigðisþjónustu, ekki síst á sviði geðheilbrigði, þarf að bæta og við ætlum að tryggja að svo verði. Tryggja þarf uppbyggingu nýs hjúkrunarheimilis sem allra fyrst svo bæta megi aðbúnað og vinnuaðstöðu íbúa og starfsfólks. Við viljum efla heimaþjónustu til eldri Hornfirðinga og annarra þeirra sem á þurfa að halda.

Skólarnir hjarta samfélagsins
Eftir mikla fjárfestingu í húsnæði í grunn- og leikskóla er mikilvægt að hlúa nú að starfinu innan veggja skólanna. Ekki að því sé ábótavant heldur þarf sveitarfélagið að halda áfram áherslu á aðbúnað starfsfólks og nemenda, auka aðgengi að stuðningsþjónustu og fleiri atriðum sem gerir skólana okkar að enn betri vettvangi fyrir börn okkar og unglinga.
X-B fyrir sterkara samfélag.

Ásgerður Kristín Gylfadóttir1. sæti Framsóknarmanna og stuðningsmanna þeirra í Sveitarfélaginu Hornafirði

Greinin birtist á eystrahorni.is 26. apríl 2018.

* * *

Framboðslisti Framsóknarmanna og stuðningsmanna þeirra í Sveitarfélaginu Hornafirði

Framboðslisti Framsóknarmanna og stuðningsmanna þeirra í Sveitarfélaginu Hornafirði fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 26. maí n.k. var einróma samþykktur á aðalfundi Framsóknarfélags Austur-Skaftafellinga þann 26. febrúar 2018. Listann leiðir Ásgerður K. Gylfadóttir, hjúkrunarstjóri, Ásgrímur Ingólfsson, skipstjóri, skipar annað sætið og Erla Þórhallsdóttir, leiðsögumaður, skipar það þriðja. Listann skipa 7 konur og 7 karlar.

Hornafjörður

Framboðslisti Framsóknarmanna og stuðningsmanna þeirra í Sveitarfélaginu Hornafirði:

 1. Ásgerður K. Gylfadóttir, hjúkrunarstjóri
 2. Ásgrímur Ingólfsson, skipstjóri
 3. Erla Þórhallsdóttir, leiðsögumaður
 4. Björgvin Óskar Sigurjónsson, verkfræðingur
 5. Kristján S. Guðnason, matreiðslumaður
 6. Íris Heiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri
 7. Finnur Smári Torfason, forritari
 8. Nejra Mesetovic, verkefnastjóri
 9. Steinþór Jóhannsson, framkvæmdastóri
 10. Arna Ósk Harðardóttir, skrifstofumaður
 11. Hjalti Þór Vignisson, framkvæmdastjóri
 12. Erla Rún Guðmundsdóttir, bóndi
 13. Kolbrún Reynisdóttir, þroskaþjálfi
 14. Reynir Arnarson, framkvæmdastjóri

Ljóst er með þennan öfluga hóp af frambærilegu fólki ganga Framsóknarmenn og stuðningsmenn þeirra fullir eldmóðs til kosninga.