Categories
Fréttir

Eldhúsdagsumræður: Líneik Anna Sævarsdóttir

Deila grein

25/06/2020

Eldhúsdagsumræður: Líneik Anna Sævarsdóttir

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, sagði í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í vikunni að sannarlega hafi reynt á samvinnu og útsjónarsemi þjóðarinnar á liðnum mánuðum. Enginn hegði getað spáð því að nú væru Íslendingar þrautþjálfaðir í tilteknum almannavarnarhlutverkum.

Þekking og tækni hafi skipti sköpum eins og okkur Íslendingum hefur tekist síðustu mánuði. Áfram mun „reyna á almannavarnir og úrvinnslu afleiðinga kófsins, vetrarveðra og jarðhræringa, og við það þurfum við samvinnu og útsjónarsemi sem og til að viðhalda störfum, skapa ný störf og tryggja velferð allra landsmanna“.

Líneik Anna sagði tímamót í samgönguframkvæmdum vera fram undan eftir nær áratuga hægagang. Í nýrri samgönguáætlun þar sem verður enn meira fjármagn úr að spila undir forystu Framsóknarflokksins. Unnið sé að m.a. vinnu við rannsóknir, skipulag, hönnun, umhverfismat og samningagerð. „Unnið er að útfærslu á fjölbreyttari leiðum við fjármögnun verkefna og heildarendurskoðun á framtíðarfjármögnun vegakerfisins í ljósi yfirstandandi orkuskipta. Skoska leiðin í fluginu kemur til framkvæmda á árinu, verkefni byggð á samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins eru komin í gang og jarðgangaáætlun verður til með greiningu jarðgangakosta og forgangsröðun til lengri tíma“. Ísland er dreifbýlt land og því seint uppiskroppa með samgönguverkefni.

„Skipulag og gerð samgöngumannvirkja ræður miklu um þróun samfélags og byggða. Framkvæmdirnar sem slíkar skapa þúsundir starfa hjá fjölbreyttum hópi fólks víða um land. Fjárfesting og framfarir í samgöngum eru í senn mótvægi gegn samdrætti af völdum kófsins og undirstaða nýrra tækifæra,“ sagði Líneik Anna.

Ræddi Líneik Anna því næst mótvægisaðgerðir vegna kófsins. „Hlutastarfaleiðin hitti í mark en óvissan var mikil þegar þingið samþykkti hana. Rúmlega 37.000 einstaklingar nýttu fyrstu útfærsluna og voru þeir í ráðningarsambandi við tæplega 6.500 launagreiðendur. Samspil hlutastarfaleiðarinnar og launa í sóttkví styrkti allar sóttvarnaaðgerðir og gerði mörgum mögulegt að hlýða Víði. Auk aðgerða sem snúa að atvinnulífinu hefur verið ráðist í fjölbreyttar félagslegar aðgerðir,“ sagði Líneik Anna.

Sagði Líneik Anna stjórnvöld verða „að leggja áherslu á hvata til þeirra sem búa yfir frumkvöðlakrafti og sjálfsbjargarviðleitni til að fjölga störfum“. Stjórnvöld hafi sett í gang úrræði til að viðhalda atvinnu, en „í framhaldinu þarf að styðja enn betur við hugkvæmni atvinnurekenda, smárra sem stórra, til að skapa ný störf. Nýsköpun, yfirfærsla á þekkingu og bætt nýting auðlinda og hráefna eykur verðmæti. Það þarf fjölbreyttan stuðning þar sem ekki er eingöngu horft á nýnæmi verkefna, heldur einnig litið til fjölgunar starfa í hefðbundnum atvinnugreinum og verðmætaaukningar í samfélaginu“.

Lykilákvörðun við að auka aðsókn að starfs- og tækninámi sé tillaga mennta- og menningarmálaráðherra, Lilju Alfreðsdóttur, um að tryggja fjármagn vegna aukinnar aðsóknar í framhalds- og háskóla í haust. Lykilatriði til að skapa ný ný störf.

„Fjórða iðnbyltingin, rafræn stjórnsýsla, fjarvinna og fjarnám, gefa okkur frábær verkfæri. Við verðum að tryggja að búseta á Íslandi verði valkostur fyrir fólk sem vill eiga kost á störfum hvar sem er í heiminum. Við þurfum líka oftar að spyrja okkur hvernig hægt sé að nýta fjarvinnu til þess að styrkja starfsemi innan lands,“ sagði Líneik Anna.

„Ég hef lagt áherslu á bætta lagaumgjörð um ráðstöfun og nýtingu auðlinda á landi, ásamt aðgerðum til að styrkja grundvöll til eftirfylgni slíkra reglna. Tilgangurinn er að tryggja eignarhald þjóðarinnar á auðlindum og skapa fleiri möguleika til heilsársbúsetu í dreifbýli, sjálfbærrar landnýtingar, nýsköpunar og matvælaframleiðslu. Það er því sérstaklega ánægjulegt að nú eru til afgreiðslu mál sem styrkja þessa umgjörð, m.a. með gerð landeignaskrár, auknu gagnsæi við eigendaskipti jarða og aukinni minnihlutavernd í veiðifélögum,“ sagði Líneik Anna.

Sagði Líneik Anna að „vinna undir forystu félags- og barnamálaráðherra, Ásmundar Einars Daðasonar, um umbætur í málefnum barna mun skila sér með afgerandi hætti á haustþingi. Þá verða frumvörp sem eru afurðir úr þverpólitískri vinnu og víðtæku samráði lögð fram. Áherslan verður á samþættingu allrar þjónustu við börn og fjölskyldur og snemmtækan stuðning, ásamt forvörnum sem er ætlað að auka seiglu einstaklinga í lífsins ólgusjó. Breytingar á fæðingarorlofinu eru þegar hafnar“.

„Við Framsóknarfólk erum frjálslynt félagshyggjufólk sem vill vinna að stöðugum umbótum og leysa viðfangsefnin á grunni samvinnu og jafnaðar. Vinna okkar á Alþingi á að sameina krafta og hvetja til framþróunar á öllum sviðum, árangurinn mælist í ávinningi samfélagsins,“ sagði Líneik Anna að lokum.

<iframe scrolling=’no‘ frameborder=’0‘ type=’text/html‘ style=’border:0;overflow:hiddenwidth:70%;height:350px‘ src=’//vod.althingi.is/player/?type=vod&width=512&height=288&icons=yes&file=20200623T192423&start=2874&duration=482&autoplay=false‘ allowTransparency allowfullscreen seamless allow=’autoplayfullscreen’></iframe>

***

Ræða Líneikar Önnu Sævarsdóttur í heild sinni:

Virðulegi forseti. Ágætu landsmenn. Við þinglok að loknum sumarsólstöðum ársins 2020 ígrundum við hér verk liðinna mánaða og hugum að næstu viðfangsefnum. Undanfarið hefur sannarlega reynt á samvinnu og útsjónarsemi í fjölbreyttum verkefnum og störfum um allt land. Ég fullyrði að fyrir ári síðan hefði ekkert okkar spáð því að nú værum við orðin þrautþjálfuð í tilteknu almannavarnarhlutverkum.

Við lifum áhugaverða, krefjandi og lærdómsríka tíma en aldrei í sögunni hafa verið til staðar önnur eins tækifæri og núna til að takast á við ógnir náttúrunnar með þekkingu og tækni. Það hefur sýnt sig að það skiptir sköpum að nota þekkinguna vel, eins og okkur Íslendingum hefur tekist síðustu mánuði. Við vitum að áfram mun reyna á almannavarnir og úrvinnslu afleiðinga kófsins, vetrarveðra og jarðhræringa, og við það þurfum við samvinnu og útsjónarsemi sem og til að viðhalda störfum, skapa ný störf og tryggja velferð allra landsmanna.

Umfangsmestu verkefnin í mínum ranni síðustu mánuði tengjast samgöngum. Þessi misserin eru tímamót í samgönguframkvæmdum sem eru aftur komnar á skrið eftir nær áratugar hægagang. Samgönguáætlun var síðast afgreidd fyrir rúmu ári en nú erum við að afgreiða uppfærða áætlun þar sem úr enn meira fjármagni er að spila og verkefni eru nánar útfærð.

Það er mikil gerjun í verkefnum tengdum samgöngum undir forystu Framsóknarflokksins og margir boltar á lofti, m.a. vinna við rannsóknir, skipulag, hönnun, umhverfismat og samningagerð. Unnið er að útfærslu á fjölbreyttari leiðum við fjármögnun verkefna og heildarendurskoðun á framtíðarfjármögnun vegakerfisins í ljósi yfirstandandi orkuskipta. Skoska leiðin í fluginu kemur til framkvæmda á árinu, verkefni byggð á samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins eru komin í gang og jarðgangaáætlun verður til með greiningu jarðgangakosta og forgangsröðun til lengri tíma.

Við verðum seint uppiskroppa með samgönguverkefni í jafn dreifbýlu landi og Ísland er. Hugsið ykkur, á næstu 15 árum er ætlunin að fækka einbreiðum brúm á þjóðvegi 1 um meira en 30.

Skipulag og gerð samgöngumannvirkja ræður miklu um þróun samfélags og byggða. Framkvæmdirnar sem slíkar skapa þúsundir starfa hjá fjölbreyttum hópi fólks víða um land. Fjárfesting og framfarir í samgöngum eru í senn mótvægi gegn samdrætti af völdum kófsins og undirstaða nýrra tækifæra.

Vinna við útfærslu fjölbreyttra mótvægisaðgerða kófsins hefur verið umfangsmikið verkefni sem fjöldi fólks hefur lagt sig fram um að leysa.

Hlutastarfaleiðin hitti í mark en óvissan var mikil þegar þingið samþykkti hana. Rúmlega 37.000 einstaklingar nýttu fyrstu útfærsluna og voru þeir í ráðningarsambandi við tæplega 6.500 launagreiðendur. Samspil hlutastarfaleiðarinnar og launa í sóttkví styrkti allar sóttvarnaaðgerðir og gerði mörgum mögulegt að hlýða Víði. Auk aðgerða sem snúa að atvinnulífinu hefur verið ráðist í fjölbreyttar félagslegar aðgerðir.

Á næstunni þurfa stjórnvöld að leggja áherslu á hvata til þeirra sem búa yfir frumkvöðlakrafti og sjálfsbjargarviðleitni til að fjölga störfum. Stjórnvöld hafa þegar sett í gang úrræði til að viðhalda atvinnu og í framhaldinu þarf að styðja enn betur við hugkvæmni atvinnurekenda, smárra sem stórra, til að skapa ný störf. Nýsköpun, yfirfærsla á þekkingu og bætt nýting auðlinda og hráefna eykur verðmæti. Það þarf fjölbreyttan stuðning þar sem ekki er eingöngu horft á nýnæmi verkefna, heldur einnig litið til fjölgunar starfa í hefðbundnum atvinnugreinum og verðmætaaukingar í samfélaginu.

Aukin aðsókn að starfs- og tækninámi skapar einmitt tækifæri í samspili við ný störf. Í þessu samhengi er tillaga mennta- og menningarmálaráðherra, Lilju Alfreðsdóttur, og ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að tryggja fjármagn til að mæta aukinni aðsókn í framhalds- og háskóla í haust lykilákvörðun.

Mikilvægt er að taka meðvitaða ákvörðun um að viðhalda og auka þessa færni enn frekar. En það er ekki nóg. Það þarf líka að tryggja að reglur vinnumarkaðarins og opinberra kerfa styðji við sveigjanleikann. Fjórða iðnbyltingin, rafræn stjórnsýsla, fjarvinna og fjarnám, gefa okkur frábær verkfæri. Við verðum að tryggja að búseta á Íslandi verði valkostur fyrir fólk sem vill eiga kost á störfum hvar sem er í heiminum. Við þurfum líka oftar að spyrja okkur hvernig hægt sé að nýta fjarvinnu til þess að styrkja starfsemi innan lands.

Ég hef lagt áherslu á bætta lagaumgjörð um ráðstöfun og nýtingu auðlinda á landi, ásamt aðgerðum til að styrkja grundvöll til eftirfylgni slíkra reglna. Tilgangurinn er að tryggja eignarhald þjóðarinnar á auðlindum og skapa fleiri möguleika til heilsársbúsetu í dreifbýli, sjálfbærrar landnýtingar, nýsköpunar og matvælaframleiðslu. Það er því sérstaklega ánægjulegt að nú eru til afgreiðslu mál sem styrkja þessa umgjörð, m.a. með gerð landeignaskrár, auknu gagnsæi við eigendaskipti jarða og aukinni minnihlutavernd í veiðifélögum.

Miklir almannahagsmunir felast í ráðstöfun og meðferð lands og sömu reglur geta ekki gilt um kaup og sölu á landi og önnur fasteignakaup. Það þarf frekari umbætur og eitt af því er bætt skipulag landnotkunar í dreifbýli. Þar legg ég áherslu á að gæta besta ræktarlandsins til að nýta í matvæla- og fóðurframleiðslu. Einnig er hægt að skapa verðmæti með verndun lands, endurheimt vistkerfa og kolefnisbindingu. Við þurfum ekki að velja á milli kolefnisbindingar með skógrækt, endurheimtar votlendis eða landgræðslu. Við eigum að sinna þessu öllu en vanda val á landi fyrir mismunandi verkefni.

Vinna undir forystu félags- og barnamálaráðherra, Ásmundar Einars Daðasonar, um umbætur í málefnum barna mun skila sér með afgerandi hætti á haustþingi. Þá verða frumvörp sem eru afurðir úr þverpólitískri vinnu og víðtæku samráði lögð fram. Áherslan verður á samþættingu allrar þjónustu við börn og fjölskyldur og snemmtækan stuðning, ásamt forvörnum sem er ætlað að auka seiglu einstaklinga í lífsins ólgusjó. Breytingar á fæðingarorlofinu eru þegar hafnar.

Virðulegi forseti og ágætu landsmenn. Við getum ekki leyft okkur að hafa eitt mál á dagskrá, viðfangsefnin eiga að vera margþætt, þar sem bæði er horft fram á veginn og brugðist við áskorunum samtímans. Ef við vöndum okkur þarf sjaldnar að horfa í baksýnisspegilinn. Við Framsóknarfólk erum frjálslynt félagshyggjufólk sem vill vinna að stöðugum umbótum og leysa viðfangsefnin á grunni samvinnu og jafnaðar. Vinna okkar á Alþingi á að sameina krafta og hvetja til framþróunar á öllum sviðum, árangurinn mælist í ávinningi samfélagsins.

Áfram veginn og góðar stundir.