Categories
Fréttir

150 störf í hættu á Húsavík

Deila grein

13/05/2025

150 störf í hættu á Húsavík

Möguleg rekstrarstöðvun hjá kísilverksmiðjunni PCC BakkaSilicon á Húsavík um mitt sumar vekur djúpar áhyggjur og óvissu um framtíð um 150 starfa og um 50 milljarða fjárfestingu. Jónína Brynjólfsdóttir, varaþingmaður, ræddi málið á Alþingi og hvatti ríkisstjórnina til tafarlausra aðgerða.

„Ef við setjum þetta í samhengi við stærð samfélagsins í Norðurþingi jafngildir þetta því að um 600 manns misstu vinnuna á Akureyri eða 4.200 í Reykjavík,“ sagði þingkonan. „Slík áhrif yrðu samfélaginu þungbær.“

Alþjóðleg samkeppni og undirboð ógna rekstrinum

Rekstraróvissan hjá PCC má rekja til erfiðra aðstæðna á alþjóðamörkuðum. Einkum hefur tollastríð og samkeppnishalli vegna undirboðs á kísilmálmi – aðallega frá Kína – haft áhrif á stöðu fyrirtækisins. Kína framleiðir nú um 80% af allri heimsframleiðslu á kísilmálmi og selur hann á verðum sem margir telja ósanngjörn.

„Verksmiðjan á Húsavík framleiðir hágæðavöru með lágu kolefnisspori, en það virðist ekki metið til verðs á markaði,“ sagði Jónína. Hún tók fram að PCC hafi átt gott samstarf við bæði sveitarfélagið og stéttarfélög og sé lykilþáttur í atvinnulífi á svæðinu.

Kallar eftir stuðningi við ábyrgari iðna

Jónína sagði nauðsynlegt að Ísland endurmeti forsendur fyrir rekstrarhæfi slíkra grænna iðnfyrirtækja og leggi þeim lið, m.a. með því að krefjast upprunavottorða í hráefnakaupum og hvetja íslensk álver til að versla innanlands.

„Það er ekki forsvaranlegt að íslensk álver kaupi kísilmálm frá kolakyntum verksmiðjum þar sem mannréttindi eru jafnvel fótum troðin, þegar við höfum hér umhverfisvæna og ábyrga framleiðslu,“ sagði hún.

Jónína greindi einnig frá því að PCC hefði nýlega kært undirboð frá Kína til fjármála- og efnahagsráðuneytisins og krafist viðskiptaverndar – með fordæmi frá bæði Evrópusambandinu og Bandaríkjunum. Þá benti hún á að sambærilegar verksmiðjur í Noregi njóti sérstakra hvata og afslátta á raforku til að styðja við rekstur þeirra.

„Ábyrgðin er okkar allra“

Að lokum skoraði Jónína á ríkisstjórnina að bregðast tafarlaust við stöðu PCC og sýna málinu sömu alvöru og ef fjöldi starfa í höfuðborginni væri í húfi. „Það þarf að grípa til aðgerða núna – með sömu alvöru og ef um væri að ræða 4.200 störf í Reykjavík. Ábyrgðin er okkar allra.“