Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálráðherra, segir að aukið jafnvægi verði að vera milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins í húsnæðismálum og að dæmi séu „um að skortur á íbúðarhúsnæði hafi staðið atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni fyrir þrifum. Þetta kemur fram í grein hans í Morgunblaðinu á dögunum.
„Á haustmánuðum setti ég af stað tilraunaverkefni um húsnæðismál á landsbyggðinni með Íbúðalánasjóði, Byggðastofnun og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Var það gert í því skyni að leita leiða til þess að bregðast við langvarandi stöðnun á húsnæðismarkaði víða um land.“
„Uppbygging íbúðarhúsnæðis víða um land hefur ekki fylgt auknum íbúafjölda, frekar en á höfuðborgarsvæðinu og eru dæmi um að skortur á íbúðarhúsnæði hafi staðið atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni fyrir þrifum.“
„Það er mikilvægt að atvinnutækifæri séu nýtt allt í kringum landið en dæmi eru um að skortur á íbúðarhúsnæði hamli frekari uppbyggingu. Sá skortur er tilkominn vegna þess að misvægi er á milli byggingarkostnaðar og markaðsverðs. Mikilvægt er að húsnæðisskortur standi ekki í vegi fyrir því og geri það að verkum að fólk fáist ekki til starfa. Sé það raunin ber stjórnvöldum að mínu viti skylda til þess að grípa til aðgerða og eftir því hefur ítrekað verið kallað. Með þeim aðgerðum sem ákveðið hefur verið að ráðast í til að bregðast við húsnæðisvanda á landsbyggðinni erum við að undirstrika vilja ríkisvaldsins til að standa við bakið á heimamönnum í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis,“ segir Ásmundur Einar.
Categories
„Að standa við bakið á heimamönnum“
06/09/2019
„Að standa við bakið á heimamönnum“