Categories
Fréttir

Að vinnuveitendur haldi ráðningarsambandi við starfsmenn

Deila grein

19/03/2020

Að vinnuveitendur haldi ráðningarsambandi við starfsmenn

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, mælti fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðasjóð launa í tengslum við minnkað starfshlutfall launamanna á Alþingi í gær.
„Það var alveg ljóst að við þyrftum að koma með aðgerðir til að bregðast við þeim þrengingum sem eru að verða, tímabundnum vil ég trúa, í íslensku efnahagslífi og íslensku atvinnulífi vegna Covid-19. Við höfðum gert ráð fyrir því og höfum átt samtal um það, m.a. við aðila vinnumarkaðar, að þessi úrræði yrðu teiknuð upp. Verið er að teikna upp fjölmörg önnur atriði til að koma til móts við þennan hóp fólks og fyrirtækja sem eru að ganga í gegnum þessar þrengingar. Við höfðum gert ráð fyrir að taka í það um tvær vikur sem er ekki sérstaklega langur tími til lagasetningar. Á fimmtudagsmorgun, þegar ljóst var að Bandaríkin höfðu lokað á allt flug frá Evrópu og þar með væri ferðaþjónustan í enn meira uppnámi en áætlanir gerðu ráð fyrir, ákváðum við síðan að við skyldum klára þetta frumvarp og reyna að koma því inn í þingið sem fyrst þannig að fyrirtæki sem væru að ráðast í endurskipulagningu, og eru að því bara þessa klukkutímana, gætu brugðist við. Rétt rúmum sólarhring síðar, um 30 klukkustundum síðar, var þetta frumvarp afgreitt úr ríkisstjórn, úr þingflokkum stjórnarflokkanna og var síðan dreift á Alþingi á föstudagskvöldið,“ sagði Ásmundur Einar.

„Það er alveg ljóst að við munum þurfa að gera breytingar á þessu frumvarpi og ganga lengra en hér er kynnt. Við getum rætt það í umræðunni á eftir. Eins og ég sagði er þetta frumvarp lagt fram í ljósi fordæmalausra aðstæðna á vinnumarkaði. Með frumvarpinu er m.a. leitast við að koma til móts við fyrirtæki sem eiga í tímabundnum rekstrarvanda og á sama tíma sporna gegn hópuppsögnum og auknu atvinnuleysi vegna samdráttar í ferðaþjónustu og fleiri atvinnugreinum hér á landi.“

Markmið frumvarpsins er að stuðla að því að vinnuveitendur haldi ráðningarsambandi við starfsmenn sína eins og frekast er unnt þótt það kunni að vera nauðsynlegt að minnka starfshlutfall þeirra að einhverju leyti. Frumvarpinu er líka ætlað að koma til móts við aðstæður launamanna sem þurfa að taka á sig kjaraskerðingu í formi minnkaðs starfshlutfalls vegna tímabundins rekstrarvanda fyrirtækis þess sem þeir starfa hjá. Það er ljóst að það er samfélaginu öllu til heilla að sem flestir haldi virku ráðningarsambandi við vinnuveitanda sinn þrátt fyrir tímabundinn samdrátt á vinnumarkaði.
Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir því að einstaklingur sem sækir um atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli geti átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir hið skerta starfshlutfall án þess að laun fyrir það starfshlutfall sem hann heldur eftir komi til frádráttar atvinnuleysisbótum, enda séu tiltekin skilyrði uppfyllt.
Jafnframt er gert ráð fyrir því að sjálfstætt starfandi einstaklingi verði gert kleift að sækja um atvinnuleysisbætur hafi hann tilkynnt um verulegan samdrátt í rekstri og breytingu á reiknuðu endurgjaldi til launagreiðendaskrár ríkisskattstjóra. Þá er gert ráð fyrir breytingum á lögum um Ábyrgðasjóð launa þannig að í þeim tilfellum þegar starfshlutfall launamanns hefur verið lækkað vegna samdráttar í starfsemi vinnuveitanda verði miðað við tekjur launamannsins líkt og þær voru áður en starfshlutfall var lækkað við útreikninga á greiðslum úr sjóðnum.
„Þá vík ég aðeins að ákvæðum frumvarpsins. Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að starfshlutfall geti lækkað hlutfallslega um 20% hið minnsta og að launamaður geti haldið að lágmarki 50% starfshlutfalli. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að viðkomandi sé í 51–80% starfi en geti farið á hlutabætur á móti.
Jafnframt er gert ráð fyrir því að laun frá vinnuveitanda og greiðslur atvinnuleysisbóta samanlagt geti aldrei numið hærri fjárhæð en 80% af meðaltali heildarlauna launamanns og þrátt fyrir það eru ákvæði um að þessi upphæð samanlagt, þ.e. minnkaða starfshlutfallsins og atvinnuleysisbótanna, geti aldrei orðið hærri en 650.000 kr. á mánuði. Í ljósi aðstæðna og þeirra breytinga sem hafa orðið held ég að þessi ákvæði muni þurfa að rýmka. Við erum að reikna það út núna hvaða kostnað það kunni að hafa í för með sér og hvort það geti þá náð til fleiri fyrirtækja. Ég vænti þess að í þeirri vinnu munum við þurfa að eiga gott samstarf við velferðarnefnd og ég ítreka ánægju mína með að hafa fengið að kynna málið fyrir henni. Þegar við erum í aðstæðum sem eru fordæmalausar og þegar við erum að hlaupa hraðar en kerfið gerir ráð fyrir að við gerum er gríðarlega mikilvægt að samstarfið þarna á milli sé gott,“ sagði Ásmundur Einar.