Categories
Fréttir

Aðeins ein leið ‒ auka framboð á húsnæði

Deila grein

19/10/2023

Aðeins ein leið ‒ auka framboð á húsnæði

„Það er óhætt að segja að húsnæðismarkaðurinn á Íslandi sé á krossgötum. Langtímaskortur á íbúðum hér á landi hefur valdið því að bæði leigu- og fasteignaverð hefur hækkað mikið. Það er aðeins ein leið til að koma í veg fyrir að leigu- og fasteignaverð haldi áfram að hækka óeðlilega mikið líkt og verið hefur á undanförnum árum. Sú leið er að auka framboð á húsnæði. Þar eru markmið innviðaráðherra um aukna húsnæðisuppbyggingu og þær aðgerðir sem gripið hefur verið til mikilvægt innlegg í þá vegferð,“ sagði Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður, í störfum þingsins.

„Hins vegar er það svo að húsnæðismarkaðurinn hefur fundið verulega fyrir aðgerðum Seðlabankans þar sem kaupendum hefur verið gert erfiðara um vik að komast inn á markaðinn og fjármögnun nýframkvæmda er orðin miklum mun dýrari, þvert á það sem við þurfum nú. Þegar allt er saman tekið hefur þetta letjandi áhrif á framkvæmdaraðila til að halda áfram framkvæmdum við íbúðir.

Að þessu sögðu er ég fullmeðvitaður um þann línudans sem þetta er á tímum hárra vaxta og verðbólgu en núverandi ástand mun einungis leiða til hærra leiguverðs og auka þrýsting á mjög hátt fasteignaverð þegar núverandi ástandi slotar. Það er engum til góðs og að mínu mati er ljóst að gera þarf sérstakar ráðstafanir til að leysa þann hnút sem við stöndum frammi fyrir. Slíkt mætti gera með tímabundnum og sértækum lánaskilmálum hjá fjármálafyrirtækjum til að tryggja áfram nauðsynlega uppbyggingu. Með slíku myndu fjármálafyrirtækin að mínu mati rísa undir þeirri ábyrgð sem á þeim hvílir um þessar mundir. Þessu til viðbótar tel ég skynsamlegt að ráðast í nauðsynlegar lagabreytingar á fjárfestingarheimildum lífeyrissjóða sem myndi gera þeim heimilt að eiga meira en 20% í félagi sem myndi sinna fasteignaverkefnum fyrir lífeyrissjóði og gæti þar með styrkt okkur sem samfélag í því verkefni að hér á landi verði til traustur og heilbrigður leigumarkaður,“ sagði Ágúst Bjarni að lokum.


Ræða Ágústs Bjarna í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegur forseti. Það er óhætt að segja að húsnæðismarkaðurinn á Íslandi sé á krossgötum. Langtímaskortur á íbúðum hér á landi hefur valdið því að bæði leigu- og fasteignaverð hefur hækkað mikið. Það er aðeins ein leið til að koma í veg fyrir að leigu- og fasteignaverð haldi áfram að hækka óeðlilega mikið líkt og verið hefur á undanförnum árum. Sú leið er að auka framboð á húsnæði. Þar eru markmið innviðaráðherra um aukna húsnæðisuppbyggingu og þær aðgerðir sem gripið hefur verið til mikilvægt innlegg í þá vegferð.

Hins vegar er það svo að húsnæðismarkaðurinn hefur fundið verulega fyrir aðgerðum Seðlabankans þar sem kaupendum hefur verið gert erfiðara um vik að komast inn á markaðinn og fjármögnun nýframkvæmda er orðin miklum mun dýrari, þvert á það sem við þurfum nú. Þegar allt er saman tekið hefur þetta letjandi áhrif á framkvæmdaraðila til að halda áfram framkvæmdum við íbúðir.

Að þessu sögðu er ég fullmeðvitaður um þann línudans sem þetta er á tímum hárra vaxta og verðbólgu en núverandi ástand mun einungis leiða til hærra leiguverðs og auka þrýsting á mjög hátt fasteignaverð þegar núverandi ástandi slotar. Það er engum til góðs og að mínu mati er ljóst að gera þarf sérstakar ráðstafanir til að leysa þann hnút sem við stöndum frammi fyrir. Slíkt mætti gera með tímabundnum og sértækum lánaskilmálum hjá fjármálafyrirtækjum til að tryggja áfram nauðsynlega uppbyggingu. Með slíku myndu fjármálafyrirtækin að mínu mati rísa undir þeirri ábyrgð sem á þeim hvílir um þessar mundir. Þessu til viðbótar tel ég skynsamlegt að ráðast í nauðsynlegar lagabreytingar á fjárfestingarheimildum lífeyrissjóða sem myndi gera þeim heimilt að eiga meira en 20% í félagi sem myndi sinna fasteignaverkefnum fyrir lífeyrissjóði og gæti þar með styrkt okkur sem samfélag í því verkefni að hér á landi verði til traustur og heilbrigður leigumarkaður.“