Categories
Fréttir

„Aðeins tveir aðilar uppfylla skilyrðin og því ríkir algjört upplausnarástand í eyjunni“

Deila grein

11/10/2024

„Aðeins tveir aðilar uppfylla skilyrðin og því ríkir algjört upplausnarástand í eyjunni“

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, fór yfir ákvörðun matvælaráðuneytisins og Byggðastofnunar að ekki stæði til að vera með frekari undanþágur frá vinnsluskyldu vegna úthlutunar á sértækum byggðakvóta til Grímseyjar. Fyrri undanþágur voru vegna byggðaþróunarverkefnisins Brothættar byggðir.

„Aðeins tveir aðilar uppfylla skilyrðin og því ríkir algjört upplausnarástand í eyjunni,“ sagði Ingibjörg.

„Aðrir sem vilja fá þennan sértæka byggðakvóta þurfa að koma upp vinnslu úti í eyjum með tilheyrandi kostnaði, mannskap, sem ekki er til staðar, og flytja hann í land með ferjunni með enn meiri kostnaði, ferju sem ekki alltaf er til staðar.“

„Staðan úti í eyju er því þannig að líklega er hluti íbúa að horfa nú til flutnings. Þessi ákvörðun vekur furðu þar sem hún er hrikalegt bakslag fyrir byggð í Grímsey. Grímsey er eðli málsins samkvæmt ekki rík af auðlindum en hún er sannarlega rík af nálægðinni við sjóinn og hafa Grímseyingar alla tíð lifað af því sem sjórinn og eyjan gefa af sér. Það hefur ekki alltaf verið auðvelt að búa í Grímsey en Grímseyingar hafa alla tíð verið duglegir til vinnu og hafa náð að skapa sér verðmæti með því að sækja sjóinn og nú á síðustu árum byggt upp ferðaþjónustu að sumri, sem er tímabil sem er alltaf að lengjast. Frekar eigum við að horfa til þess að styðja við búsetu í eyjunni með góðum samgöngum og innviðauppbyggingu, því þó svo að Grímsey sé ekki lengur þátttakandi í verkefni Byggðastofnunar um brothættar byggðir þá er byggðin enn brothætt og hefur líklega aldrei verið brothættari en nú.

Með öðrum orðum sagt: Eftir mörg hundruð ára sögu um búsetu í eyjunni er hún mögulega að líða undir lok og það er á okkar ábyrgð. Það er sorglegt að sjá okkur taka skref aftur á bak hvað varðar stuðning ríkisins við brothættar byggðir í landinu því að þegar öllu er á botninn hvolft er það ákvörðun að halda byggð í landinu, halda byggð í öllu landinu,“ sagði Ingibjörg að lokum.


Ræða Ingibjargar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegur forseti. Í gær komust matvælaráðuneytið og Byggðastofnun að þeirri niðurstöðu að ekki stæði til að vera með frekari undanþágur frá vinnsluskyldu vegna úthlutunar á sértækum byggðakvóta til Grímseyjar, en fyrri undanþágur voru vegna byggðaþróunarverkefnisins Brothættar byggðir. Aðeins tveir aðilar uppfylla skilyrðin og því ríkir algjört upplausnarástand í eyjunni. Aðrir sem vilja fá þennan sértæka byggðakvóta þurfa að koma upp vinnslu úti í eyjum með tilheyrandi kostnaði, mannskap, sem ekki er til staðar, og flytja hann í land með ferjunni með enn meiri kostnaði, ferju sem ekki alltaf er til staðar.

Staðan úti í eyju er því þannig að líklega er hluti íbúa að horfa nú til flutnings. Þessi ákvörðun vekur furðu þar sem hún er hrikalegt bakslag fyrir byggð í Grímsey. Grímsey er eðli málsins samkvæmt ekki rík af auðlindum en hún er sannarlega rík af nálægðinni við sjóinn og hafa Grímseyingar alla tíð lifað af því sem sjórinn og eyjan gefa af sér. Það hefur ekki alltaf verið auðvelt að búa í Grímsey en Grímseyingar hafa alla tíð verið duglegir til vinnu og hafa náð að skapa sér verðmæti með því að sækja sjóinn og nú á síðustu árum byggt upp ferðaþjónustu að sumri, sem er tímabil sem er alltaf að lengjast. Frekar eigum við að horfa til þess að styðja við búsetu í eyjunni með góðum samgöngum og innviðauppbyggingu, því þó svo að Grímsey sé ekki lengur þátttakandi í verkefni Byggðastofnunar um brothættar byggðir þá er byggðin enn brothætt og hefur líklega aldrei verið brothættari en nú.

Með öðrum orðum sagt: Eftir mörg hundruð ára sögu um búsetu í eyjunni er hún mögulega að líða undir lok og það er á okkar ábyrgð. Það er sorglegt að sjá okkur taka skref aftur á bak hvað varðar stuðning ríkisins við brothættar byggðir í landinu því að þegar öllu er á botninn hvolft er það ákvörðun að halda byggð í landinu, halda byggð í öllu landinu.“