Categories
Fréttir

Aðgerðir til að treysta innlenda matvælaframleiðslu

Deila grein

19/10/2022

Aðgerðir til að treysta innlenda matvælaframleiðslu

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður, var fyrirspyrjandi í umræðu á Alþingi við matvælaráðherra um aðgerðir til að treysta innlenda matvælaframleiðslu.

„Erfiðar aðstæður hafa skapast í okkar nærumhverfi og í Evrópu undanfarna mánuði og í þeim aðgerðum sem þegar hefur verið gripið til af hálfu ríkisvaldsins hefur matvælaráðherra verið í fararbroddi verkefna sem snúa t.d. að því að koma að stuðningi við áburðarkaup til bænda og eins að fylgja eftir tillögum spretthóps sem hæstv. atvinnuvegaráðherra skipaði á vordögum en hann skilaði af sér í júní sl.,“ sagði Þórarinn Ingi.

Sagði hann stöðuna ekki vera fara að lagast, verð verða áfram há á aðföngum til matvælaframleiðslu, vegna stríðsins í Úkraínu.

„Mig langar því að eiga samtal við hæstv. ráðherra hvað þetta varðar um það hvort ráðherra hyggist grípa til einhverra frekari aðgerða í ljósi þeirrar stöðu sem við stöndum frammi fyrir til að tryggja enn frekar stöðu matvælaframleiðslu á Íslandi,“ sagði Þórarinn Ingi og hélt svo áfram, „ ég velti því sömuleiðis upp hvort við getum endurskoðað t.d. tollverndina eða hvort við horfum betur á ytri skilyrði landbúnaðarins hér heima eða þá að farið verði í það að bæta enn frekar í stuðning ríkisins til til landbúnaðarins“.

„Þó svo að mjög vel hafi verið staðið að mörgu sem viðkemur viðbrögðum ríkisvaldsins í þessari stöðu þarf meira til til að tryggja stöðuna enn frekar af því að það eru margir hlutir sem hjálpast að við að gera framleiðsluna erfiðari. Ég nefni þar sem dæmi hækkun á fjármagnskostnaði og þess háttar. Verkefnin eru fram undan og þau eru verulega krefjandi en mikilvægi innlendrar matvælaframleiðslu hefur sennilega sjaldan eða aldrei verið meira,“ sagði Þórarinn Ingi.

Andsvar matvælaráðherra má sjá í spilaranum hér að neðan: