Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn og forseti sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar og oddviti framboðslista Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, var í skemmtilegu viðtali í Fréttablaðinu s.l. laugardag.
Stefán Vagn hafði aðeins verið yfirlögregluþjónn í Skagafirði í tvo mánuði þegar tveir ísbirnir gengu á land. Þar áður hafði hann starfað í sérsveitinni og í friðargæslusveit í Afganistan. Í haust stefnir Stefán á þing. Kristinn Haukur Gunnarsson, blaðamaður á Fréttablaðinu tók viðtalið við okkar mann.
Stefán ólst upp á Suðurgötunni á Sauðárkróki, gegnt Framsóknarhúsinu. Sonur Stefáns heitins Guðmundssonar, alþingismanns til tuttugu ára. Pólitíkin var mikið rædd á æskuheimilinu og það kom því ekkert annað til greina en að ganga í flokkinn. Framan af áttu þó íþróttirnar hug hans allan en Stefán spilaði sem markvörður með Tindastól fram í meistaraflokk.
„Ég var þokkalegur námsmaður en hafði engan sérstakan áhuga á bókinni. Hugurinn var úti á fótboltavelli,“ segir Stefán. „Í eitt skipti var ég að vinna verkefni í grunnskóla, þá kom kennarinn og horfði yfir öxlina og sagði: Stefán, þetta er allt í fótunum á þér.“
Til 25 ára aldurs komst fátt annað að en fótboltinn nema ung stúlka frá Siglufirði, Hrafnhildur Guðjónsdóttir, sem hann kynntist árið 1995. Í dag eiga þau saman þrjú börn og tvö þeirra spila nú sem markverðir hjá Tindastól. Stefán segir mikla stemningu vera í bænum fyrir sumrinu enda á félagið í fyrsta sinn lið í efstu deild, en kvennaliðið komst upp í fyrrasumar.
„Ég var ekki með miklar áætlanir um framtíðina á þessum árum. En árið 1997 spurði gamall varðstjóri mig hvort ég vildi ekki leysa af hjá lögreglunni um sumarið. Og hann væri búinn að ganga frá því að ég fengi stöðuna ef ég vildi,“ segir Stefán. „Þar með var teningunum kastað.“
Lærði að aftengja sprengjur
Stefán fann sig vel í lögreglunni á Sauðárkróki en f ljótlega f luttu þau Hrafnhildur til Reykjavíkur. Þar vann Stefán sig upp og endaði loks í sérsveitinni sem sprengjusérfræðingur. Hann segir mikinn mun á starfi lögreglumanns á landsbyggðinni og í borginni.
„Í borginni ertu svolítið andlitslaus lögga og álagið mikið. Þú klárar þitt verkefni, svo tekur rannsóknardeild eða tæknideild við og þú ferð í það næsta og svo næsta,“ segir Stefán. „Á landsbyggðinni þarf maður að standa meira á eigin fótum og klára verkefni frá byrjun til enda. Þetta er öðruvísi álag. Maður þarf einnig að aðskilja starfið frá sínu persónulega lífi, því að oftar en ekki er maður að kljást við fólk sem maður þekkir vel og þarf jafnvel að mæta í búðinni daginn eftir.“
Engu að síður lítur Stefán á það sem góð örlög að hafa slysast inn í lögregluna. Starfið sé afar gefandi, mannlegt en líka spennandi. „Að komst inn í sérsveitina var mikil þrautaganga en áskorunin kitlaði mig,“ segir hann. „Ég var ungur, í góðu formi og ákafur maður og verkefni sérsveitarinnar af öðrum toga en hinnar venjulegu lögreglu.“
Jánkar hann því að starfið minni um margt á það sem við sjáum í Hollywood-bíómyndum. Hann gekk í sveitina árið 2000 og árið 2004 lærði hann að aftengja heimatilbúnar sprengjur hjá breska hernum. Aðspurður hvort það sé ekki stressandi svarar Stefán því játandi. „Þú vilt ekki fá kvíðakastið þegar þú ert með sprengjuna í höndunum,“ segir hann og brosir.
Sveitin starfar við hlið hinnar almennu lögreglu og er kölluð til í hvert skipti þar sem grunur liggur á að einstaklingur beri hnífa eða skotvopn, eða þá að ofbeldi brjót ist út. „Útköllin voru mörg og gátu verið afar fjörug,“ segir hann.
Friðargæsla í Afganistan
Þegar Stefán hafði starfað í sex ár í sveitinni bauðst honum að fara út til að leiða hóp friðargæsluliða Atlantshafsbandalagsins í Afganistan. Þar hafði stríð geisað síðan Tvíburaturnarnir féllu 11. september 2001. Eftir umhugsun ákvað Stefán að slá til en það var ekki léttvæg ákvörðun.
„Auðvitað var ég smeykur. Við vorum það allir,“ segir Stefán. „En það var einhver ævintýraþrá sem togaði í mig. Þetta var enn ein áskorunin og ég vissi að reynslan yrði dýrmæt, bæði starfsins vegna og til að fá aðra sýn á lífið. Það stóð heima.“
Aðspurður hvað fjölskyldan hafi sagt á þessum tímapunkti segir Stefán hana hafa sýnt mikinn stuðning. „Ég og konan mín vissum bæði að þessu fylgdi áhætta. En við vissum líka að ef ég léti þetta tæki færi mér úr greipum ganga yrði ég aldrei sáttur í sálinni. Það tók mislangan tíma fyrir fólk að melta þetta og sumir skildu ekki hvað í andskotanum ég væri að hugsa. En að lokum urðu allir sáttir, enda fer maður ekki í svona verkefni án þess að hafa fjölskylduna þétt að baki sér.“
Sjö manna sveit hélt út til Noregs í þjálfun hjá hernum og þaðan til norðurhéraða Afganistan þar sem Litháar ráku herstöð. Einnig voru nokkrir Íslendingar staðsettir í höfuðborginni Kabúl.
„Fjallahéröðin þarna í kring voru mjög óstöðug og talíbanar úti um allt,“ segir Stefán. „En það gekk allt afskaplega vel enda frábærir strákar sem voru með mér í sveitinni.“ Aldrei kom það fyrir að sveitin lenti í beinum skotbardögum við talíbana.
Þrátt fyrir það voru aðstæður heimamanna skelfilegar að sögn Stefáns. „Það var ekkert til þarna. Fólk bjó í moldarkofum og átti varla til hnífs og skeiðar,“ segir hann. „Fólkið tók okkur misjafnlega, og fór eftir því hvaða svæði við fórum inn á. Við fundum vel að við vorum ekki velkomnir á þeim svæðum þar sem talíbanar höfðu ítök. Annars staðar var viðmótið betra enda var verið að lofa uppbyggingu. En margir vissu varla hvað Afganistan var og höfðu aldrei farið út fyrir sinn dal. Í þeirra augum skipti efnahagsuppbygging landsins engu máli heldur aðeins að fá brú yfir næstu á. Þau höfðu ekki skilning á því sem við vorum að reyna að kynna fyrir þeim.“
Fékk þrjá tíma til að ákveða sig
Ári 2007 sneri Stefán aftur heim en í stað þess að starfa áfram með sérsveitinni bauðst honum að taka þátt í að byggja upp nýja greiningardeild hjá Ríkislögreglustjóra. Hlutverk hennar var að meta öryggi landsins og finna þá veikleika sem voru til staðar. „Þetta er það verkefni sem ég er hvað stoltastur af að hafa komið að og það náði inn að hjartanu frá fyrsta degi,“ segir Stefán. „Við þurftum að koma okkur upp svona einingu til að við gætum verið fullgildir þátttakendur í alþjóðastarfi og fengið aðgang að upplýsingum og gögnum annarra lögreglustofnana.“
Í dag skipar greiningardeildin veigamikinn sess í löggæslu landsins, ekki síst vegna aukinnar hættu af erlendum skipulögðum glæpahópum. En Stefán átti ekki eftir að verða lengi starfandi hjá deildinni því að vorið 2008 fékk hann símtal.
„Ég var staddur á fundi í Finnlandi þegar sýslumaðurinn á Sauðárkróki hringdi í mig,“ segir Stefán. „Hann spurði hvort ég gæti komið norður og tekið við stöðu yfirlögregluþjónsins sem hætti nokkrum dögum áður. Ég sagðist ætla að hugsa þetta og svara þegar ég kæmi heim en þá sagði hann að ég hefði þrjá klukkutíma til að ákveða þetta, annars yrði fundinn einhver annar.“
Stefán hringdi þá í Hrafnhildi, sagði henni tíðindin en þau höfðu rætt það áður að flytja norður á einhverjum tímapunkti. En þetta var ekki sá tímapunktur. Stefán var nýbyrjaður í spennandi starfi og Hrafnhildur með sína vinnu sem félagsráðgjafi í Reykjavík.
„Það var annað hvort að hrökkva eða stökkva. Ég vissi að ef ég tæki ekki stöðuna byðist hún mér aldrei aftur,“ segir hann. „Hrafnhildur hringdi í of boði norður í land til að leita að vinnu, meðal annars í grunnskólann. Stjörnurnar röðuðust þannig upp að námsráðgjafinn hafði hætt deginum áður og hún fékk vinnuna.“ Tveimur tímum eftir hringinguna frá sýslumanni hringdi Stefán til baka og þremur dögum seinna voru þau komin á Sauðárkrók þar sem þau eru enn.
Eltingarleikur við ísbjörn
Stefán hafði ekki stýrt lögreglunni á Króknum lengur en tvo mánuði þegar ísbjörn gekk á land og alla leið upp á Þverárfjall. Sá sem sá björninn fyrst, þann 2. júní 2008, tók hins vegar upp tólið og hringdi beint í fréttastofu Bylgjunnar og var því útvarpað klukkan tíu um morguninn.
„Allt í einu byrjuðu allir símarnir á lögreglustöðinni að hringja og fólk að spyrja um ísbjörn sem við vissum ekkert um,“ segir Stefán. „Við drifum okkur af stað og uppi á fjallinu blasti við sjón eins og í villta vestrinu. Hver einasti vopnfæri Skagfirðingur var mættur með riffilinn sinn ásamt tugum fólks sem vildi sjá björninn.“
Ástandið var að sögn Stefáns stórhættulegt og mikill tími fór í að koma fólki burtu og loka svæðið af. Á meðan sat björninn spakur í hlíðinni og fylgdist með. Lögreglumenn pössuðu að hafa augun ávallt á honum á meðan hringt var í stjórnvöld og stofnanir því að engar viðbragðsáætlanir voru til.
„Allt í einu byrjaði björninn að hreyfa sig og fór bak við hól. Við fórum þá nær til að missa ekki sjónar á honum á meðan við vorum að reyna að átta okkur á því hvernig við ættum að taka á þessu,“ segir Stefán. Mikil þoka var á fjallinu þennan morgun og aðstæður ekki góðar. „Þá kom í ljós að hann var búinn að finna lyktina af okkur. Á meðan við vorum að leita að honum var hann að leita að okkur og svo mættumst við á toppnum á einni hæðinni.“
Stefán áætlar að það hafi aðeins verið sex eða sjö metrar á milli þeirra. „Við hlupum niður og björninn tók á sprett á eftir. Ég hugsaði að eftir öll ævintýrin í sérsveitinni, sprengjusveitinni og Afganistan væri það eftir öllu ef ég yrði svo étinn af ísbirni hér uppi á Þverárfjalli,“ segir hann og hlær. „Allt í einu sneri björninn við og um tíma misstum við sjónar á honum. Þá var ákveðið að ekkert annað væri í stöðunni en að fella dýrið og það var gert.“
Annar björn gengur á land
Stefán er ekki í nokkrum vafa um að ákvörðunin um að fella ísbjörninn var rétt. Sumir vildu þó meina að réttast hefði verið að reyna að fanga hann og koma aftur til síns heima. Hann bendir á að engar deyfibyssur eða gildrur hafi verið til staðar. Í eftirvinnslu málsins var einnig stað fest að lögreglan hefði ekkert annað getað gert.
Tveimur vikum síðar, þann 16. júní, fékk lögreglan símtal um að annar björn hefði sést en nú við bæinn Hraun á Skaga. „Ég hélt að einhver væri að fíflast í mér en eftir eftirgrennslan komumst við að því að svo var ekki,“ segir Stefán. Aðstæðurnar voru hins vegar allar aðrar, og lögreglan fékk nú að vita af bangsa á undan alþjóð. Því tókst að loka svæðið af og takast á við dýrið á yfirvegaðri hátt. En þá var komin fram krafa frá Umhverfisstofnun og ráðuneytinu um að fanga það.
„Ekkert var til sparað. Tíu dýralæknar voru mættir á svæðið, allt lögregluliðið á Norðurlandi vestra, björgunarsveitarmenn og skyttur. Björgúlfur Thor borgaði undir þotu til að flytja sérstakt búr frá Kaupmannahöfn til Akureyrar. Síðan var komið varðskip í höfnina til að flytja björninn til Grænlands og þyrla til að flytja hann í varðskipið,“ segir Stefán. „Þetta voru háleitar hugmyndir og göfugt markmið en veruleikinn sem fólk vildi ekki horfast í augu við var að Grænlendingar vildu ekki fá dýrið til baka.“
Ein helsta ástæðan fyrir því voru smitvarnir. Hér á Íslandi gætu geisað sjúkdómar í búfénaði og öðru sem Grænlendingar vildu ekki fá inn í sitt land. Þegar loks björninn fór af stað og gerði sig líklegan til þess að fara aftur út á sjó var tekin ákvörðun um að fella hann.
Fé til höfuðs honum í Kanada
Stefán segir að það hafi aldrei verið og verði ekki gefið upp hver tók í gikkinn og felldi ísbirnina tvo þetta sumar. „Opinberlega var ég gerður ábyrgur fyrir því og kveinka mér ekki undan því,“ segir hann. „Eftir þetta fékk ég morðhótanir alls staðar að úr heiminum. Sem dæmi settu dýraverndarsinnar í Kanada fé mér til höfuðs. Sem mér fannst reyndar skammarlega lítið. Ég lét þetta sem vind um eyru þjóta og brosti frekar út í annað.“
Bjarnarsögunni var þó ekki lokið eftir þetta því þrálátur orðrómur gekk um þriðja dýrið. Stefán segir söguna vera þá að hann hafi verið felldur og grafinn án þess að nokkur fengi að vita, til þess að koma í veg fyrir annan sirkus. „Ég held að það sé skemmtilegast að leyfa fólki að hafa sínar kenningar um það,“ segir hann. „Við höfum aldrei gefið neitt annað út nema að þriðji björninn hafi ekki fundist.“ Eftir þetta voru gerðar verklagsreglur um komur ísbjarna og eru þeir alltaf felldir. Síðan 2008 hefur einn björn komið til Skagafjarðar. Birnirnir tveir sem felldir voru 2008 voru stoppaðir upp og hafðir til sýnis í Skagafirði og á Blönduósi. Þverárfjallsbjörninn er nú til sýnis í Perlunni í Reykjavík.
Kjósa ekki blint
Stefán hefur gegnt stöðu oddvita Framsóknarmanna í Skagafirði síðan 2010. Skagafjörður er eitt helsta vígi flokksins og hefur honum vegnað vel í sveitarstjórnarkosningum. Árið 2014 fékk flokkurinn til að mynda 45 prósenta fylgi.
„Stjórnmál hafa alltaf verið mér hugleikin. Þótt ég hafi ekki sinnt þeim þegar ég bjó fyrir sunnan fann ég þörf til að láta gott af mér leiða þegar við fluttum heim á Krókinn. Ég ímyndaði mér þó ekki að endast í þessu í ellefu ár og að þetta myndi leiða mig í framboð til þings. En eftir því sem tíminn leið fann ég að þetta átti vel við mig,“ segir Stefán.
Hann segir ekki sjálfgefið að Framsóknarflokkurinn fái mikið fylgi í Skagafirði. „Flokkurinn hér hefur talað sterklega fyrir byggðarsjónarmiðum sem skipta íbúana hér miklu máli,“ segir hann. „Okkur hefur einnig gengið vel í því verkefni að reka sveitarfélagið. Það er mikið um framkvæmdir og þjónustustigið er hátt. Ef íbúarnir fyndu að svo væri ekki myndum við ekki fá þetta fylgi sem við sjáum í kosningum. Þótt margir séu Framsóknarmenn í grunninn kjósa þeir ekki blint heldur leita annað ef þeir telja þá geta sinnt verkefninu betur.“
Klofningurinn skildi eftir sár
Forveri Stefáns í oddvitasætinu var Gunnar Bragi Sveinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, sem gekk til liðs við Miðflokkinn eftir klofninginn árið 2016. Stefán segir klofninginn hafa tekið sinn toll í Skagafirði eins og annars staðar.
„Þetta var einn ömurlegasti tími sem ég hef upplifað í pólitík og skildi eftir sig djúp sár í flokknum,“ segir hann. Leiðir flokkanna tveggja hafi þó legið í ólíkar áttir. „Ef þú horfir á stefnumál Framsóknarflokksins og Miðflokksins í dag sérðu að þeir eru ekki mjög líkir.“ Hann segir Miðflokkinn í dag eiga meira sammerkt með flokkum á hægri kantinum en á miðjunni.
Hvað persónuleg sárindi varðar segir Stefán tímann lækna þau, og á einhverjum tímapunkti verði gróið um heilt. „Fólk er misjafnlega langt komið í því ferli en ég held að flestir horfi fremur fram á veginn en til baka,“ segir hann.
Byggðamálin brýnust
Stefán hefur haft augastað á landsmálunum um nokkurt skeið en þegar klofningurinn var að eiga sér stað fannst honum ekki rétti tímapunkturinn til að sækjast eftir þingsæti. Upphaflega stefndi hann á annað sætið í prófkjöri en þegar Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra ákvað að færa sig í annað Reykjavíkurkjördæmið tók Stefán af skarið og sigraði í prófkjörinu. Mun hann því leiða lista Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi í september.
Stefán segir prófkjörið hafa hjálpað við ákvörðunina, því þá væri ljóst að grasrótin væri að baki honum en ekki þröngur hópur í uppstillingarnefnd. Aðspurður hverju hann vonast til að koma til leiðar segir hann byggðamálin verða efst á baugi.
„Byggðamálin eiga hug minn og hjarta og það þarf að gera verulegt átak í þeim málum á landsvísu,“ segir hann. „Það er gríðarlegur aðstöðumunur hjá fólki sem býr á höfuðborgarsvæðinu og því sem býr á Bíldudal eða Hvammstanga. Það er sama til hvers er horft, samgöngumála, heilbrigðisþjónustu eða annars, það hallar alltaf á landsbyggðina. Þegar gögn frá Byggðastofnun og Háskólanum á Akureyri eru skoðuð kemur alltaf í ljós að það hallar mest á Vestfirði og Norðurland vestra. Þarna þarf að stíga inn í.“
Spurður um núverandi ríkisstjórn segir Stefán hana hafa staðið sig vel í erfiðum aðstæðum og sér ekki ástæðu til annars en að framhald verði skoðað, haldi fylgið. Enginn hefði getað ímyndað sér þau verkefni sem þau fengu í fangið.
„Faraldurinn litar allt og mun lita næsta kjörtímabil einnig. Árin eftir bankahrunið var farið í fækkun opinberra starfa á landsbyggðinni, þar á meðal tuga starfa hér í Skagafirði sem svæðið var lengi að jafna sig á. Ég hef áhyggjur af því að það sama gæti gerst núna,“ segir Stefán. „Við sjáum fram á erfið ár og það þarf að taka skynsamlega á málum.“
Viðtal í Fréttablaðinu 23. apríl 2021.