Categories
Fréttir

„Af hverju var tækifærið ekki nýtt?“

Deila grein

11/03/2025

„Af hverju var tækifærið ekki nýtt?“

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, ræddi á fundi Alþingis um neyðarástand í úrræðum fyrir börn með fjölþættan vanda. Hún benti á að ríkisstjórnin hafi talað um mikilvægi þess að byggja upp meðferðarheimili á höfuðborgarsvæðinu, þar sem 80% þessara barna búa. Ingibjörg sagði að þrátt fyrir að þetta væri nauðsynlegt, dugi það ekki eitt og sér.

Sérfræðingar innan kerfisins hafa bent á að eina raunhæfa lausnin sé ekki bara að bæta úrræði í borginni heldur einnig að skapa langtímalausnir utan hennar. Þetta myndi draga úr aðgengi barna að fíkniefnum og rjúfa hættuleg tengsl sem viðhalda vandanum, auk þess sem hægt væri að bregðast við vandanum á landsbyggðinni.

Ingibjörg gagnrýndi stjórnvöld fyrir að horfa fram hjá þeirri staðreynd að húsnæði sem uppfyllti öll skilyrði hafi verið til staðar, en ekki nýtt. Hún nefndi Háholt í Skagafirði, sem áður hefur þjónað þessu hlutverki. Húsnæðið var til staðar, samfélagið reiðubúið og fagfólkið til staðar, en samt var þessari lausn hafnað án þess að ráðuneytið hafi kynnt sér aðstæður. Nú er það of seint, þar sem Háholt hefur verið selt og þessi möguleiki er úr sögunni.

„Við verðum að byggja upp úrræði á höfuðborgarsvæðinu, það er engin spurning. En á meðan við vinnum að því, því það mun taka tíma, þá vil ég spyrja: Af hverju var tækifærið ekki nýtt í stað þess að gera ekki neitt og leyfa vandanum að vaxa? Hvað ætlar hæstv. ráðherra að gera núna til að mæta því neyðarástandi sem uppi er í málaflokknum?“ sagði Ingibjörg að lokum.