Categories
Fréttir

Áfall fyrir Húsavík: Tímabundin lokun PCC kallar á aðgerðir stjórnvalda

Deila grein

27/05/2025

Áfall fyrir Húsavík: Tímabundin lokun PCC kallar á aðgerðir stjórnvalda

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, kallar eftir samstöðu og lausnamiðuðum aðgerðum.

Tímabundin rekstrarstöðvun kísilvers PCC á Bakka við Húsavík hefur vakið sterk viðbrögð í samfélaginu, bæði meðal íbúa og stjórnmálafólks. Alls missa 80 starfsmenn vinnuna frá og með miðjum júlí, og hefur sveitarstjórn Norðurþings lýst stöðunni sem „mestu efnahagsáfalli sem svæðið hefur orðið fyrir í áratugi.“ Atvinnutap af þessari stærðargráðu jafngildir, miðað við íbúafjölda, því að um 3.500 manns misstu vinnuna í Reykjavík.

Ingibjörg lýsir alvarleika málsins og mikilvægi þess að stjórnvöld bregðist við af festu:

„Staða PCC á Bakka er áfall fyrir samfélagið á Húsavík og nærsveitir. Til að setja þetta í samhengi, jafngildir þetta því að um 3500 manns misstu vinnuna í Reykjavík. Það þarf ekki að útskýra frekar hvaða áhrif það hefur á fjölskyldur, atvinnulíf og byggðafestu,“ segir Ingibjörg.

„Sveitarstjórnarfólk á svæðinu hefur unnið ötullega við að upplýsa okkur þingmenn um stöðuna – og það skiptir máli. Við verðum að standa saman og vinna að lausnum með framtíðarsýn að leiðarljósi. Mér skilst að Ísland og Noregur séu ein af fáum þjóðum sem leggja ekki tolla á kísil frá Kína. Þarna geta stjórnvöld stigið inn.“

„Það er von mín að þessi stöðvun verði tímabundin – en það kallar á að stjórnvöld horfi heildstætt á samkeppnishæfni íslensks iðnaðar og atvinnulífs.“

Kísilver lokað – áhrif og ástæður

Í yfirlýsingu frá PCC segir að lokunin sé vegna markaðserfiðleika og raskana sem rekja megi til tollastríðs og aukinnar samkeppni við niðurgreiddan innflutning á kísilmálmi frá Kína. Fyrirtækið hefur kært meint undirverðlagðan innflutning til fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Á meðan rekstrarstöðvun stendur hyggst PCC vinna að umbótaverkefnum, ferlirýni og endurskipulagningu. Markmiðið er að geta hafið starfsemi að nýju með skömmum fyrirvara um leið og markaðsaðstæður leyfa.

Sveitarstjórn Norðurþings undirstrikar mikilvægi þess að verksmiðjan starfi áfram til framtíðar og hvetur stjórnvöld til að tryggja samkeppnishæfni iðnaðarins:

„Samstaða, úthald og framtíðarsýn er nú mikilvægari en nokkru sinni fyrr.“

Staða PCC á Bakka er áfall fyrir samfélagið á Húsavík og nærsveitir. Til að setja þetta í samhengi, jafngildir þetta því…

Posted by Ingibjörg Isaksen on Þriðjudagur, 27. maí 2025