Categories
Fréttir

„Afkoman hefur batnað til mikilla muna“

Deila grein

15/09/2025

„Afkoman hefur batnað til mikilla muna“

Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður, átti orðastað við fjármála- og efnahagsráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi um fjárlög 2025 og afkomuhorfur yfirstandandi árs.

Hann kallaði eftir skýringum vegna ummæla ráðherrans í útvarpsviðtali á Rás 2 10. september sl., þar sem ráðherra sagði að í fjárlögum ársins 2025 væri gert ráð fyrir 63 milljarða króna halla. Í greinargerð fjárlagafrumvarpsins segir hins vegar á bls. 116: „Afkomuhorfur yfirstandandi árs hafa batnað verulega frá áætlun fjárlaga ársins 2025. Áætlað er að heildarafkoma ríkissjóðs verði neikvæð um 19 ma.kr. eða 0,4% af VLF, samanborið við halla um 63 ma.kr. …“

„Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort sé rétt, ummælin í vikunni eða fjárlögin,“ sagði Stefán Vagn og lagði áherslu á að upplýsingar sem fram kæmu bæði úr ræðustól Alþingis og í fjölmiðlum væru réttar og sambærilegar.

Ráðherrann svaraði að hann hefði annars vegar vísað til fjárlaga í umræddu viðtali á Rás 2, en að afkoma ríkissjóðs væri annað mál sem metið væri eftir á.

Stefán Vagn þakkaði ráðherra fyrir svarið og bætti við: „Staðan er miklu betri heldur en menn gerðu ráð fyrir og því spyr ég: Er það ekki rétt? Er ekki staðan miklu betri en menn gerðu ráð fyrir?“

Ráðherra sagði að honum byðust oft tækifæri til að hæla eigin verkum og að hann gæti í raun tárast yfir því, en bætti við: „En jú, afkoman hefur batnað til mikilla muna og er þar ýmsu fyrir að þakka.“