Categories
Fréttir

Áfram Grindavík!

Deila grein

02/04/2025

Áfram Grindavík!

Jóhann Friðrik Friðriksson, varaþingmaður, ræddi í störfum þingsins ellefta gosið á gostímabilinu á Reykjanesi og að Grindavík hafi verið rýmd enn einu sinni.

„Varnargarðar hafa hingað til sannað gildi sitt en náttúran er óútreiknanleg og sú sprunga sem opnaðist í morgun stendur þvert á varnargarð fyrir ofan bæinn. Kvikugangurinn sem myndaðist í morgun er um 11 kílómetra langur og einn sá lengsti frá því að atburðir hófust. Skjálftavirkni er töluverð og heldur áfram og er ófyrirséð. Við erum vanmáttug gagnvart afli náttúrunnar,“ sagði Jóhann Friðrik.

„Eftir allt sem á undan hefur gengið var ég að vonast til þess að þessu færi að ljúka en við erum ekki svo heppin. Enn á ný, virðulegi forseti, eru vinir okkar í Grindavík barðir niður.“

„Enn á ný tökum við skref aftur á bak eftir góð skref fram á við,“ sagði Jóhann Friðrik.

Í Grindavík höfðu fyrirtæki hafið takmarkaða starfsemi, bæjarskrifstofur opnað ekki alls fyrir löngu og von um bjartari tíma var farin að skjóta rótum.

„Við eigum öfluga viðbragðsaðila og ég er þess fullviss að þeir muni gera allt sem þeir geta á næstu klukkutímum til að verja innviði ef svo þarf. Sem fyrr munum við Suðurnesjabúar þétta raðirnar og halda áfram að takast á við þær áskoranir sem við okkur blasa. Þó að óvissan sé mikil þá má hún ekki hafa lamandi áhrif á okkur. Stjórnvöld verða að halda áfram að standa með Grindavík og við verðum að sýna samkennd og æðruleysi í ljósi aðstæðna og því vil ég segja, kæri þingheimur, virðulegi forseti: Áfram Grindavík,“ sagði Jóhann Friðrik að lokum.


Ræða Jóhanns Friðriks í heild sinni á Alþingi: