Categories
Fréttir

Áhersla á að greiða niður skuldir og minnka vaxtabyrði og þar með styrkja stöðu ríkissjóðs

Deila grein

17/09/2019

Áhersla á að greiða niður skuldir og minnka vaxtabyrði og þar með styrkja stöðu ríkissjóðs

Willum Þór Þórsson, alþingismaður Framsóknar í Suðvesturkjördæmi og formaður fjárlaganefndar, fór yfir, í 1. umræðu um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2020 á Alþingi, að í heildarmyndinni í samhengi hagstjórnar þá sé fjármálastefna og peningamálastefna að spila saman, alla vega séu „sterkari vísbendingar um slíkt samspil, að ríkisfjármálin og peningastefnan leggist á sömu sveif um að umgjörðin og breytingar sem við höfum gert á henni, þá er ég að tala um lög um opinber fjármál, sé til þess fallin í þessu tilviki, horfandi á þetta frumvarp, að mæta hjaðnandi hagvexti eða samdrætti, eftir því hvernig það fer. Það liggur fyrir og staðfestist í frumvarpinu,“ sagði Willum Þór.
Í vaxtaákvörðunum Seðlabankans í samspili við peningastefnuna sést að ábyrgir kjarasamningar hafa skapað þær forsendur að hægt sé að lækka vexti eins og Seðlabankinn hefur gert.
„Það má spyrja sig hvort ekki væri sama togstreitan uppi og fyrr varðandi ríkisfjármálastefnu og peningastefnu ef ekki væri fyrir skynsamlega ráðstöfun ríkisfjár, aukinn aga og fyrirsjáanleika, hvort slíkt samspil væri til staðar sem við sjáum í vaxtalækkunarferli Seðlabankans,“ sagði Willum Þór.
„Nú þegar dregur úr hagvexti hefði slíkt samspil auðvitað ekki verið mögulegt nema fyrir skynsamlega ríkisfjármálastefnu, markvissar áætlanir og fjárlög sem uppfylla grunngildi ríkisfjármála með áherslu á að greiða niður skuldir og minnka vaxtabyrði og þar með styrkja stöðu ríkissjóðs. Mér finnst þetta vera stóra myndin. Mér finnst þetta vera skilaboðin. Og þetta er mikilvægt í samhengi hagstjórnar,“ sagði Willum Þór.
***

Fjárlög 2020 – ræða Willum Þórs Þórssonar, alþingismanns og formanns fjárlaganefndar:


„Hæstv. forseti. Við fjöllum hér í 1. umr. um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2020. Frumvarpið hefur, held ég að megi segja, aldrei verið kynnt fjárlaganefnd og fjölmiðlum jafn snemma, þ.e. áður en það kemur á dagskrá þingsins. Það er að einhverju marki til marks um bætt vinnubrögð, skilvirkara ferli í öllu falli. Það hefur auðvitað þá kosti að þingmenn hafa meiri tíma til að kynna sér frumvarpið, sem er eðli máls viðamikið og spannar allt sviðið.
Þrátt fyrir að hafa haft meiri tíma en áður til að fara yfir helstu svið og flokka finnst mér við hæfi í 1. umr. að skoða heildarmyndina eins og hún birtist í formi gjalda og tekna og einnig áhrif og hlutverk ríkisfjármálastefnunnar í samhengi hagstjórnar, og mér finnst umræðan hafa verið svolítið þar í dag, hingað til alla vega, og máta hana við efnahagslega þróun í okkar hagkerfi, sem er að vissu marki háð því sem annars staðar gerist í okkar helstu viðskiptalöndum. Í greinargerð í kafla 2.3 með frumvarpinu er fjallað allítarlega um hagþróun í helstu viðskiptalöndum okkar. Eins finnst mér það eðlileg nálgun í umræðunni að tengja hana þeirri mynd sem við skildum við í umfjöllun um ríkisfjármálaáætlun fyrir tímabilið 2020–2024.
Í umfjöllun um fjármálaáætlun og samþykkt fjármálaáætlunar fórum við samhliða í breytingar á fjármálastefnu þar sem óvissusvigrúm var byggt inn í stefnuna. Það er til þess fallið að auka áreiðanleika þess að áætlanir haldi, sem skilar sér síðan inn í fjárlagafrumvarpið. Þetta er mikilvægt og fjármálaráð hefur margoft bent á það. Á þeim tíma var uppi óvissa í ferðaþjónustu um afdrif flugfélagsins WOW air og um loðnuveiðar og má segja að við höfum á þeim tíma sem við fjölluðum um málið, og hagspár voru að breytast hratt, upplifað skelli á framboðshliðinni.
Í samþykktri ríkisfjármálaáætlun er boðað að halda sig við fyrri áform um uppbyggingu og útgjöld og gefa eftir fyrirhugaðan afgang frá fyrri stefnu. Þetta fjárlagafrumvarp er í raun staðfesting á þeim áformum, sem er gríðarlega mikilvægt þegar við horfum til árangurs og hagstjórnar. Það hefur lengi verið gagnrýnt að fjármálastefna og peningamálastefna spili ekki saman. En nú sjáum við það gerast, alla vega eru sterkari vísbendingar um slíkt samspil, að ríkisfjármálin og peningastefnan leggist á sömu sveif um að umgjörðin og breytingar sem við höfum gert á henni, þá er ég að tala um lög um opinber fjármál, sé til þess fallin í þessu tilviki, horfandi á þetta frumvarp, að mæta hjaðnandi hagvexti eða samdrætti, eftir því hvernig það fer. Það liggur fyrir og staðfestist í frumvarpinu. Í þriðja lagi horfum við á sama tíma til vaxtaákvarðana Seðlabankans í samspili við peningastefnuna og sjáum að í raun hafa ábyrgir kjarasamningar skapað þær forsendur að hægt sé að lækka vexti eins og Seðlabankinn hefur gert. Meginvextir Seðlabankans hafa ekki verið lægri áður eins og fram hefur komið í umræðunni. Það má spyrja sig hvort ekki væri sama togstreitan uppi og fyrr varðandi ríkisfjármálastefnu og peningastefnu ef ekki væri fyrir skynsamlega ráðstöfun ríkisfjár, aukinn aga og fyrirsjáanleika, hvort slíkt samspil væri til staðar sem við sjáum í vaxtalækkunarferli Seðlabankans. Nú þegar dregur úr hagvexti hefði slíkt samspil auðvitað ekki verið mögulegt nema fyrir skynsamlega ríkisfjármálastefnu, markvissar áætlanir og fjárlög sem uppfylla grunngildi ríkisfjármála með áherslu á að greiða niður skuldir og minnka vaxtabyrði og þar með styrkja stöðu ríkissjóðs. Mér finnst þetta vera stóra myndin. Mér finnst þetta vera skilaboðin. Og þetta er mikilvægt í samhengi hagstjórnar.
Ég verð að taka fram hér mikilsvert framlag vinnumarkaðarins með ábyrgum kjarasamningum. Það samtal sem þeir aðilar áttu við ríkisstjórnina um framlag til þeirra samninga birtist nú í algjörlega nýrri hugsun og útfærslu á tekjuskatti einstaklinga með nýju grunnþrepi og innbyggðum neysluverðs- og framleiðniviðmiðum, þannig að launþegar munu njóta þess hagvaxtar þegar fram í sækir. Þessar aðgerðir létta skattbyrðinni mest af lægri tekjuhópum og millitekjuhópum. Það er mjög fróðlegt að líta aðeins á þá mynd hvernig þetta fer eftir mismunandi launum. Það er augljóst að skattbyrðin rénar í rúmlega 900.000 kr., frá lægstu launum. Mest lækkar hún í lægri tekjum og millitekjum. Það er mjög mikilvægt að horfa á raundæmi þar.
Þá má ekki gleyma hinni hlið vinnumarkaðarins, rekstrargrundvelli fyrirtækja. Þar er atvinnustigið undir og tryggingagjaldið vegur þungt í því efni. Það verður lækkað um 0,25 prósentustig, um sama hlutfall og á þessu ári. Þessar aðgerðir og fleiri til — það má nefna aðgerðir til lengingar fæðingarorlofs, hækkun barnabóta og hækkun skerðingarmarka barnabóta, aðgerðir í húsnæðismálum, uppbyggingu félagslegs húsnæðis, aukinn stuðning við fyrstu kaupendur, stuðningur við húsnæðisuppbyggingu á köldum svæðum — gera meira en að bæta hag og lífskjör. Allar eru þær til þess fallnar að jafna kjör og auka jöfnuð, sem við Framsóknarmenn leggjum mikla áherslu á í okkar stefnu og birtist svo um munar í þessu fjárlagafrumvarpi. Þetta er að finna einnig í sáttmála og aðgerðum ríkisstjórnarinnar.
Nú gefur ríkisstjórnin eftir, eins og ég kom að, fyrirhugaðan afgang frá fyrri stefnu, frá því að vera 0,9% af vergri landsframleiðslu, u.þ.b. 30 milljarðar, og skilar ríkissjóði í jafnvægi og getur á sama tíma haldið áfram að uppfylla loforð stjórnarsáttmála um auknar innviðafjárfestingar. Ég segi haldið áfram vegna þess að fjárfestingar hafa verið auknar allt kjörtímabilið frá ári til þess næsta, hlutfallslega mest til samgöngu– og fjarskiptainnviða. Áfram er áhersla á heilbrigðismál og efling velferðarmála er í forgangi, aukinn kraftur settur í uppbyggingu nýs meðferðarkjarna Landspítalans, en 8,5 milljarðar eru settir í verkefnið 2020. Það er mikilvægt við svo stóra framkvæmd að við fylgjumst vel með og að þær tefjist ekki vegna þess að allar tafir á slíku stórverkefni geti orðið kostnaðarsamar.
Hæstv. ríkisstjórn leggur áherslu á umhverfis- og loftslagsmál og leggur kapp á að koma í veg fyrir áhrif loftslagsbreytinga á lífríki og lífríki hafsins. Þar gegna rannsóknir lykilhlutverki og smíði nýs hafrannsóknarskips er mikilvægt framlag til að efla rannsóknir á því sviði. Ríkisstjórnin fylgir þessu eftir með raunverulegum aðgerðum, með uppbyggingu innviða, með grænum sköttum. Auðvitað eru slíkir skattar ávallt umdeildir en þeir eru hluti af því ef árangur á að nást. Þá dugar ekkert minna en raunverulegar aðgerðir og hvatar í þá veru og sameiginlegt átak. En þessum sköttum er ekki beinlínis ætlað að afla tekna heldur að vera hvati til þess að ná fram hraðari orkuskiptum í samgöngum.
Um leið og það er ánægjulegt að sjá áherslur stjórnarsáttmálans raungerast í fjármálaáætlun og svo fjárlagafrumvarpi í þeim verkefnum sem ég hef komið inn á í minni ræðu, forgangi og eflingu heilbrigðis- og velferðarþjónustu, heilbrigðisstefnu og þjónustu við landsmenn í forgrunni má auðvitað nefna margt annað. Hækkun á frítekjumarki atvinnutekna aldraðra þessu tengt, styrkingu heilsugæslunnar, aukin framlög til að draga úr tannlæknakostnaði aldraðra, átaki í samgönguframkvæmdum og stóraukin framlög til málaflokksins. Aukin framlög til byggðamála um uppbyggingu innviða, fjárfestingar ýmiss konar þessu tengdar, til löggæslu og landhelgisgæslu, þyrlukaup, aðgerðir á sviði umhverfis- og loftslagsmála. Og ég vil koma að lokum inn á nýsköpun, rannsóknir og menntamál þar sem við erum að leggja verulega til. Þar horfum við auðvitað til eflingar mannauðs, atvinnulífs og framtíðar hagvaxtar. Mikil sókn er í menntamálum og farið í raunverulegar aðgerðir til að hlúa að kennarastarfinu, fjármagna aðgerðir fyrir umgjörð lánasjóðsins til að auka aðgengi og jöfnuð námsmanna, aðgerðaáætlun fyrir tungumálið, stuðningur við bókaútgáfu og breytingar á rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla. Sjaldan eða bara aldrei fullyrði ég er menntun og menningu jafn sterkt á dagskrá og nú. Það er verið að auka framlög útgjöld til þessara mála í samræmi við sáttmála og áætlanir allt tímabilið og er aukning heildarútgjalda mismunandi eftir málaflokkum en 4,9% að raunvirði. Ef við skoðum málefnasviðin er hlutfallsleg aukning á tímabili ríkisstjórnarinnar mest til samgöngu– og fjarskiptamála.
Að lokum, virðulegi forseti, þetta: Með jafnvægi í ríkisfjármálum er stuðlað að áframhaldandi efnahagslegum stöðugleika og sjálfbærni ríkisfjármála.“