Categories
Fréttir

Ákvörðun um lokun Janusar – hugmyndafræðileg aðför að einkaframtakinu

Deila grein

02/04/2025

Ákvörðun um lokun Janusar – hugmyndafræðileg aðför að einkaframtakinu

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, gagnrýndi í störfum þingsins ákvörðun heilbrigðisráðherra um að loka Janusi endurhæfingu, úrræði sem þjónar ungmennum með fjölþættan geðrænan og félagslegan vanda. Sagði hún þetta sérstaklega kaldhæðnislegt einmitt í dag á degi einhverfra.

Janus endurhæfing hefur starfað með árangri og hjálpað mörgum ungmennum sem hafa ekki fundið viðeigandi aðstoð annars staðar innan kerfisins. „Hjá Janusi eru fræðimenn og fagfólk sem hefur byggt upp úrræði sem skilar árangri og nú á að leggja þessa endurhæfingu niður þrátt fyrir að engin sambærileg lausn sé tilbúin í staðinn. Við höfum fengið að heyra rangfærslur um árangur en starfsemi Janusar hefur skilað 56% árangri,“ sagði Ingibjörg.

Nú stendur til að færa þjónustuna til VIRK, en fagfólk, þar á meðal geðlæknar og aðrir sérfræðingar, hafa lýst yfir efasemdum um að nauðsynleg fagþekking sé þar til staðar.

Ingibjörg lýsti yfir alvarlegum áhyggjum af því að engin sambærileg lausn væri tilbúin til að taka við hlutverki Janusar. Hún bendir á að ákvörðunin virðist byggð á hugmyndafræðilegum grundvelli gegn einkareknum úrræðum, þar sem líklegt sé að öðruvísi yrði staðið að málum ef Janus væri ríkisrekið. Hún gagnrýnir einnig þögn stjórnarþingmanna sem áður hafa talað fyrir eflingu geðheilbrigðisþjónustu. „Þögn ríkisstjórnarflokkanna er ærandi. Stjórnarþingmenn sem hafa barist fyrir eflingu í geðheilbrigðismálum þegja nú þunnu hljóði.“

Ingibjörg sagði þetta væri „ekki spurning um kerfi heldur um fólk, ungt fólk sem hefur reynt allt annað í kerfinu“. Hún lýsti örvæntingu foreldra yfir því að missa þetta mikilvæga úrræði og spurði hver bæri ábyrgð þegar ungmennin myndu standa án stuðnings og falla milli skips og bryggju.

Ingibjörg kallaði eftir því að ríkisstjórnin myndi tryggja áframhaldandi rekstur og eflingu úrræðisins fremur en að leggja það niður. „Það á aldrei að kasta ungu fólki út í óvissuna,“ sagði hún. „Og ef ríkisstjórnin ætlar að þegja munum við tala og við munum hafa hátt.“

***

Ræða Ingibjargar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Það er kaldhæðni í því að í dag, á degi einhverfra, stöndum við frammi fyrir grafalvarlegri ákvörðun sem snertir einn viðkvæmasta hóp samfélagsins, ungmenni með fjölþættan geðrænan og félagslegan vanda. Úrræðinu sem hefur veitt þeim von, Janusi endurhæfingu, á að loka. Hjá Janusi eru fræðimenn og fagfólk sem hefur byggt upp úrræði sem skilar árangri og nú á að leggja þessa endurhæfingu niður þrátt fyrir að engin sambærileg lausn sé tilbúin í staðinn. Við höfum fengið að heyra rangfærslur um árangur en starfsemi Janusar hefur skilað 56% árangri. Við höfum horft upp á heilbrigðisráðherra reyna að réttlæta sína ákvörðun með því að færa þjónustuna til VIRK, þrátt fyrir að fagfólk, m.a. geðlæknar og fagaðilar sem vinna beint með þessum hópi, hafi lýst yfir að þar liggi ekki sú fagþekking sem þarf. Þetta er hættulegt skref.

Þögn ríkisstjórnarflokkanna er ærandi. Stjórnarþingmenn sem hafa barist fyrir eflingu í geðheilbrigðismálum þegja nú þunnu hljóði. Það er grunsemd sem læðist að mörgum, og hún er ekki úr lausu lofti gripin, að ef Janus hefði verið ríkisrekið úrræði værum við eflaust ekki að kljást við þetta. Það lítur út fyrir að vera hugmyndafræðileg aðför að einkaframtakinu. Það er hætt að styðja það sem virkar, einfaldlega af því að það er ekki hluti af kerfinu. En þetta er ekki spurning um kerfi, þetta er spurning um fólk, ungt fólk sem hefur reynt allt annað í kerfinu. Foreldrar lýsa því að hafa fyrst fundið von í Janusi og nú eru þeir örvæntingarfullir og hræddir um börnin sín. Við getum ekki sett okkur í spor þeirra en við verðum að hlusta á þau. Hver ber ábyrgð þegar ungmenni falla milli skips og bryggju, þegar þau sitja eftir tómarúmi og án stuðnings? Það á ekki að leggja niður úrræði sem virkar. Það á að efla það og það á aldrei að kasta ungu fólki út í óvissuna. Það á að tryggja aðgengi að þjónustu sem virkilega skiptir máli. Og ef ríkisstjórnin ætlar að þegja munum við tala og við munum hafa hátt.“