Categories
Fréttir

Alvarlegir gallar í nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar

Deila grein

05/04/2025

Alvarlegir gallar í nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar

Á Alþingi fór fram í vikunni fyrri umræða fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2026-2030. Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður, gagnrýndi í ræðu sinni harðlega að áætlunin væri án skýrra markmiða og mælikvarða og bryti þannig gegn lögum um opinber fjármál.

Skortur á mælanlegum markmiðum

Stefán Vagn benti á að ríkisstjórnin hafi ekki uppfyllt lagaskyldu sína um að setja fram mælanleg markmið og skýrar áherslur fyrir einstök málefnasvið í fjármálaáætluninni. „Einhverra hluta vegna hefur fjármála- og efnahagsráðherra gleymt að setja fram markmið og mælikvarða í umfjöllun um áherslur og málefnasvið,“ sagði Stefán Vagn. Í stað þess að veita greinargóða stefnumótun sé einungis vísað til ófullgerðra mælaborða og annarra gagna í vinnslu: „Það dugar ekki að vísa í mælaborð í vinnslu einhvers staðar uppi í sveit eða Word-skjal í mótun hjá einhverjum starfsmanni ráðuneytisins,“ bætti hann við.

Óskýrar útskýringar ráðherra

Fyrr um daginn hafði Stefán Vagn spurt fjármála- og efnahagsráðherra hvort hann væri meðvitaður um skort á markmiðum í fjármálaáætluninni. „Ég þakka hv. þm. Stefáni Vagni Stefánssyni fyrir að vekja athygli á því að þessir mælikvarðar eru ekki í þessari áætlun,“ sagði ráðherrann. Hann bætti við að mælikvarðar myndu koma fram með ársskýrslum ráðherra og útskýrði að fyrri ákvörðun um að hafa mælikvarða í fjármálaáætlun hafi verið tekin af „einhverjum fyrirrennara“ hans. Stefán Vagn svaraði ákveðið: „Hvernig á þingið að geta metið og tekið afstöðu til markmiða næstu ára innan málefnasviðanna ef þau koma ekki fram?“

Lagaskylda vanrækt

Í 20. grein laga um opinber fjármál er kveðið skýrt á um að ráðherrar skuli setja fram stefnu fyrir málefnasvið sín til a.m.k. fimm ára, þar sem tilgreind eru skýr og mælanleg markmið, ábyrgðarskipting og hvernig fjármunum verði varið. Þetta er lykilatriði svo Alþingi og almenningur geti fylgst með árangri af opinberri fjárnotkun.

Alþingi ófært um að meta árangur

Stefán Vagn segir að ríkisstjórnin hafi horfið frá því að setja fram þessi mikilvægu markmið í fjármálaáætluninni, sem gerir þinginu ómögulegt að meta raunverulegar áætlanir og áhrif þeirra. „Skýr markmið eru forsenda þess að Alþingi og almenningur geti metið hvort og hver árangurinn er af ráðstöfun opinbers fjár,“ sagði Stefán Vagn og nefndi dæmi um málefni eins og utanríkismál, nýsköpun og sjávarútvegsmál, þar sem stefnur séu annað hvort óskýrar eða í mótun, jafnvel eftir að ákvarðanir um veigamiklar breytingar, eins og hækkun veiðigjalda, hafi verið teknar.

Mótsagnir í málflutningi

Stefán Vagn gagnrýndi einnig mótsagnir varðandi stöðu ríkisfjármála, þar sem ríkisstjórnin talar nú um trausta stöðu þrátt fyrir fyrri fullyrðingar um slæmt ástand ríkissjóðs: „Þetta er sem sagt mat ríkisstjórnar á árangri síðustu ára, en er þetta ekki sama ríkisstjórnin og sagði við almenning þegar hún tók við að hún tæki við mun verri stöðu ríkissjóðs en áætlanirnar höfðu gert ráð fyrir? Það eru aðeins 100 dagar síðan það var fullyrt. Hér sjáum við ákveðna mótsögn sem vekur upp spurningu um trúverðugleika og samræmi í málflutningi.“

Fjármálaáætlun óboðleg

Stefán Vagn telur að þessi fjármálaáætlun uppfylli ekki lögbundnar kröfur og sé því óboðleg Alþingi og almenningi. Hann kallar eftir skýrum, mælanlegum og ábyrgum markmiðum sem nauðsynleg eru til að tryggja gagnsæi og árangur í opinberum rekstri. „Við getum og verðum að gera betur. Fjármálaáætlun á að vera vegvísir framtíðarinnar, skýr, ábyrg, mælanleg, með skiljanlegum markmiðum,“ sagði Stefán Vagn að lokum.