Skúli Bragi Geirdal, varaþingmaður, ræddi í störfum þingsins það sem hann kallar alvarlega stöðu íþróttastarfs um allt land. Hann segir íþróttahreyfinguna standa á öxlum sjálfboðaliða sem nú verði sífellt oftar persónulega ábyrgir ef mistök verði í rekstri félaganna, með þeim afleiðingum að færri þori að taka þátt í stjórnarstörfum.
„Íþróttahreyfingin byggir á sjálfboðaliðum sem leggja til ólaunað starf til samfélagsins,“ sagði Skúli Bragi og benti á að þróunin í átt að persónulegri ábyrgð stjórnarliða skapaði mikla óvissu. „Hættan er að slíkt geti dregið úr vilja fólks til að taka að sér stjórnarstörf og gefa af sér til samfélagsins. Þessa óvissu þarf að leysa því að án sjálfboðaliða gengur dæmið ekki upp.“
Hækkandi æfingagjöld veikja jafnt aðgengi
Auk þess fjallaði Skúli Bragi um aukinn fjárhagslegan þrýsting á íþróttafélög landsins. Verðbólga, hærri launakostnaður, húsnæðisgjöld og annar rekstrarkostnaður hafi knúið mörg félög til að hækka æfingagjöld.
„Fyrir efnaminni fjölskyldur getur þetta skapað raunverulega hindrun sem veldur því að börn hafa ekki jafnt aðgengi að skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi,“ sagði hann og nefndi slíkt vera hindrun að „einhverri öflugustu forvörn sem völ er á“.
Skúli Bragi lagði áherslu á að íþróttir væru ekki aukaatriði í samfélaginu heldur lykilþáttur í lýðheilsu, forvörnum og byggðamálum.
Misrétti eftir búsetu, ferðakostnaður og svæðisstöðvar í hættu
Þá benti hann á að íþróttafélög og foreldrar á landsbyggðinni stæðu frammi fyrir síhækkandi ferðakostnaði vegna keppnisferða og æfinga. Ferða- og jöfnunarsjóður ÍSÍ næði ekki lengur utan um þennan kostnað.
„Sjóðinn þarf að efla,“ sagði Skúli Bragi og varaði við því að í óbreyttu ástandi væri um raunverulegt misrétti að ræða í aðgengi barna að íþróttastarfi eftir búsetu.
Skúli Bragi hvatti einnig til þess að hugað yrði betur að framtíð svæðisstöðva UMFÍ og ÍSÍ sem tengja saman og styðja við íþróttahéruð landsins, efla þátttöku og jafna aðgengi. UMFÍ hafi þegar gripið til aðgerða með því að „senda líflínu“ til lítilla íþróttahéraða í fjárþröng, eins og hann orðaði það, sem sé til marks um alvarlega stöðuna.
Kallar eftir pólitískum vilja
Í lok ræðu sinnar ítrekaði Skúli Bragi að bregðast yrði við með markvissum aðgerðum.
„Íþróttir eru ekki aukaatriði, þær eru lýðheilsumál, forvörn og byggðamál,“ sagði hann og lagði áherslu á að tryggja þyrfti stöðu sjálfboðaliða, framtíð svæðisstöðva og styrkingu ferðajöfnunarsjóðs ÍSÍ „til að tryggja jafnt aðgengi barna um allt land“.
