Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður, lagði áherslu á í ræðu um störf þingsins að vinna við mótun atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar til ársins 2035 verði byggð á raunverulegri stöðu fólks og atvinnulífs í öllum landshlutum. Hann vísaði til þess að fjöldi umsagna hefði borist í samráðsgátt stjórnvalda og sagði mikilvægt að samfélagslegir þættir væru í forgrunni þegar unnið yrði úr þeim.
„Slík stefna er ekki aðeins efnahagslegt skjal heldur samfélagsleg yfirlýsing um það hvernig við viljum byggja Ísland,“ sagði Þórarinn Ingi. „Hún þarf að vera heildstæð, framsækin og byggjast á stöðu ólíkra samfélaga og landshluta sem eru mismunandi.“
Þórarinn Ingi benti á að atvinnulíf hefði breyst verulega í sumum byggðum á undanförnum árum og að víða væri hlutfall erlends vinnuafls orðið hátt. Það kallaði á markvissar aðgerðir. „Við þurfum að styrkja menntun, húsnæði, inngildingu og samfélagslega innviði þannig að allir geti lifað og unnið hér við góð kjör og skapað verðmæti,“ sagði hann.
Að mati Þórarins Inga þarf atvinnustefnan jafnframt að endurspegla nýja tíma með skýrum stuðningi við nýsköpun, fjölbreytni og þátttöku allra aldurshópa. „Við verðum að vinna saman, ekki í sílóum heldur með sameiginlega framtíðarsýn,“ sagði hann og tók sem dæmi verkefnið HeimaHöfn á Hornafirði þar sem tekist hafi að tengja saman atvinnu, nýsköpun og samfélagslegan kraft á forsendum heimamanna.
„Við þurfum atvinnustefnu sem nær utan um allt landið, sem tekur mið af fólkinu, byggðunum og samfélögunum sem halda henni á lofti. Sú leið tryggir bæði stöðugleika og framtíðarvöxt Íslands,“ sagði Þórarinn Ingi að lokum.
