Categories
Fréttir

Aukin verðmætasköpun við nýtingu þörunga

Deila grein

27/09/2024

Aukin verðmætasköpun við nýtingu þörunga

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, er fyrsti flutningsmaður þingsályktunar um aukna verðmætasköpun við nýtingu þörunga. Markmið tillögunnar er að starfshópur kanni möguleika á aukinni nýtingu og verðmætasköpun þörunga og setji í því skyni fram tillögur í skýrslu til Alþingis með skilgreindum verkefnum og aðgerðum. Sjálfbærnimarkmið verði höfð að leiðarljósi í skýrslunni, þ.e. að skapa tækifæri fyrir fólk til að nýta þörunga til framleiðslu á t.d. lífeldsneyti, matvælum, lífefnavörum eða fóðurbæti fyrir dýr sem og líförvandi efnum til ræktunar. Eins segir í greinargerð að mikilvægt verði að í tillögum sé miðað að því að skapa störf á þeim svæðum þar sem ræktun eða sláttur á sér stað.

Tillögugreinin orðast svo:
Alþingi ályktar að fela matvælaráðherra í samráði við umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að skipa starfshóp sem hafi það að markmiði að kanna möguleika á aukinni verðmætasköpun við nýtingu þörunga. Starfshópurinn leggi áherslu á eftirfarandi:
 1.      Hvernig lög og reglur styðji við sjálfbæra nýtingu á þörungum sem vaxa villtir eða eru ræktaðir í sjó eða á landi.
 2.      Hvernig efla megi rannsóknir og nýsköpun um land allt sem varði öflun þörunga, nýtingu þeirra sem og framleiðslu og markaðssetningu á vörum úr þeim.
 3.      Hvernig styrkja megi eftirlitsaðila og auka sérfræðiþekkingu um þörungaræktun innan viðeigandi stofnana.
Starfshópurinn skili skýrslu með tillögum til Alþingis eigi síðar en 1. mars 2025.

Ræða Höllu Signýjar í heild sinni á Alþingi: