Jónína Brynjólfsdóttir, varaþingmaður, kallaði eftir því á Alþingi að ríkisstjórnin heimili tafarlaust útboð á Fjarðarheiðargöngum. Göngin séu lykilatriði í því að tryggja samgöngur og atvinnuöryggi á Austurlandi.
Samgöngubót sem hefur dregist of lengi
Haustið 2017 skipaði þáverandi samgönguráðherra verkefnahóp til að undirbúa ákvörðun um Seyðisfjarðargöng. Nú, átta árum síðar, liggur hönnun fyrir og verkefnið bíður útboðs. Jónína segir tímanum komið og að tafirnar verði ekki lengur réttlættar.
„Ég hvet því ríkisstjórnina og ráðherra eindregið til þess að heimila útboð á Fjarðarheiðargöngum strax í haust.“
Alþingi og sveitarfélög þegar búin að samþykkja stefnuna
Sagði Jónína Alþingi þegar hafa markað stefnu í þessa átt með samþykkt samgönguáætlunar. Þar eru Fjarðarheiðargöng nefnd sem næstu forgangsgöng eftir Dýrafjarðargöng. Þá hafi svæðisskipulag Austurlands, sem samþykkt var samhljóða af öllum sveitarstjórnum árið 2022, sérstaklega lagt áherslu á mikilvægi hringtengingar Austurlands.
Göngin lykilatriði í byggðaþróun og útflutningi
Tvær óháðar úttektir sem verkefnahópurinn lét vinna staðfesta nauðsyn ganganna. Þær muni ekki aðeins rjúfa vetrareinangrun Seyðisfjarðar heldur styrkja atvinnulíf og byggð í landshlutanum.
Jónína benti einnig á mikilvægi Austurlands fyrir útflutning og gjaldeyristekjur þjóðarinnar:
„Austfirðingar skapa nær fjórðung af öllum vöruútflutningi landsins. Þar verða til yfir 20% útflutnings á sjávarafurðum og um 35% af álframleiðslu landsins. Þegar ferðaþjónustan er tekin með hækkar hlutfall Austurlands í heildargjaldeyristekjum þjóðarinnar verulega.“
Tími til að bregðast við
Jónína segir ríkið nú eiga að sýna í verki að það standi við orð sín um jöfn tækifæri og eflingu landsbyggðarinnar. Göngin séu tilbúin í útboð – nú þurfi aðeins pólitískan vilja til að ráðast í verkið.
„Austurland skilar sannarlega sínu í sameiginlega sjóði. Nú er komið að ríkinu að standa við bakið á svæðinu.“