Categories
Fréttir

Bændur þurfa tækifæri til að endurfjármagna lán sín!

Deila grein

12/06/2024

Bændur þurfa tækifæri til að endurfjármagna lán sín!

„Við í Framsókn fögnum áhuga hans á bættum kjörum bænda og bjóðum hann velkominn í hópinn. En umræða um efnahagsmál á Íslandi einkennist hins vegar oft á því að leitað er logandi ljósi að sökudólgi. Í því samhengi er oft bent á íslensku krónuna, hún sé orsök alls ills,“ sagði Ingibjörg Isaksen, alþingismaður, í störfum þingsins er hún þakkaði þingmanni Viðreisnar opið bréf til Framsóknar í Morgunblaðinu.

„Það er þægilegt að telja sér trú um að til séu sársaukalausar töfralausnir á efnahagsáskorunum Íslendinga, eins og t.d. að skipta bara um gjaldmiðil, eins og hv. þingmaður vill meina að bjargi stöðu landsins. Því miður er slíkt sjaldnast lykillinn. Hvað varðar stöðu bænda í gegnum tíðina hafa sannarlega skipst á skin og skúrir,“ sagði Ingibjörg.

„Síðasta haust urðum við öll vör við ákall ungra bænda um laun fyrir lífi. Samkeppnisstaða bænda á Íslandi er ekki á jafnræðisgrundvelli. Á Íslandi gerum við ríkar kröfur hvað varðar sýklalyfjanotkun og aðbúnað dýra en setjum ekki sömu kröfur hvað varðar innflutning.“

„Hér þarf að endurskoða tolla og lánakjör bænda og við höfum talað fyrir því að skapa tækifæri fyrir bændur til að endurfjármagna lán sín til lengri tíma á sanngjörnum kjörum.
Við viljum auka tækifæri ungra bænda, nýliðun eða ættliðaskipti í greininni, að þeir geti nýtt sér þau úrræði sem stjórnvöld bjóða upp á við fyrstu íbúðarkaup með því að aðskilja búrekstur og heimili, svo eitthvað sé nefnt.“

„Ég get ekki séð að innganga í Evrópusambandið bjargi slíku á næstu mánuðum eða árum. En gefum okkur það að hér verði tekin ákvörðun um að taka upp evru. Slíkt ferli tekur mörg ár og alls óvíst að sú leið muni skila þeirri niðurstöðu sem hv. þingmaður sér í hillingum. Bændur geta einfaldlega ekki beðið í mörg ár,“ sagði Ingibjörg að lokum.


Ræða Ingibjargar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Sigmari Guðmundssyni fyrir bréfið til okkar í Morgunblaðinu í morgun. Við í Framsókn fögnum áhuga hans á bættum kjörum bænda og bjóðum hann velkominn í hópinn. En umræða um efnahagsmál á Íslandi einkennist hins vegar oft á því að leitað er logandi ljósi að sökudólgi. Í því samhengi er oft bent á íslensku krónuna, hún sé orsök alls ills. Það er þægilegt að telja sér trú um að til séu sársaukalausar töfralausnir á efnahagsáskorunum Íslendinga, eins og t.d. að skipta bara um gjaldmiðil, eins og hv. þingmaður vill meina að bjargi stöðu landsins. Því miður er slíkt sjaldnast lykillinn. Hvað varðar stöðu bænda í gegnum tíðina hafa sannarlega skipst á skin og skúrir. Nú er staðan sú að bændur á Norðurlandi fengu kalin tún í fangið í vor og ekki bætti veðurfarið síðustu daga fyrir. Síðasta haust urðum við öll vör við ákall ungra bænda um laun fyrir lífi. Samkeppnisstaða bænda á Íslandi er ekki á jafnræðisgrundvelli. Á Íslandi gerum við ríkar kröfur hvað varðar sýklalyfjanotkun og aðbúnað dýra en setjum ekki sömu kröfur hvað varðar innflutning. Hér þarf að endurskoða tolla og lánakjör bænda og við höfum talað fyrir því að skapa tækifæri fyrir bændur til að endurfjármagna lán sín til lengri tíma á sanngjörnum kjörum. Við viljum auka tækifæri ungra bænda, nýliðun eða ættliðaskipti í greininni, að þeir geti nýtt sér þau úrræði sem stjórnvöld bjóða upp á við fyrstu íbúðarkaup með því að aðskilja búrekstur og heimili, svo eitthvað sé nefnt.

Ég get ekki séð að innganga í Evrópusambandið bjargi slíku á næstu mánuðum eða árum. En gefum okkur það að hér verði tekin ákvörðun um að taka upp evru. Slíkt ferli tekur mörg ár og alls óvíst að sú leið muni skila þeirri niðurstöðu sem hv. þingmaður sér í hillingum. Bændur geta einfaldlega ekki beðið í mörg ár.“