,,Hæstv. forseti. Flest ef ekki öll viljum við bættar samgöngur og víða er mikilla úrbóta þörf, hvort sem það er á hringveginum eða annars staðar. Í því kjördæmi sem ég starfa hefur verið mikið ákall um bættar vegasamgöngur á Vestfjörðum enda löngu kominn tími til. Flestir ef ekki allir þingmenn kjördæmisins hafa staðið saman í þeirri baráttu að bregðast við því ákalli. Núna loksins glittir í að verulegar samgönguumbætur á Vestfjörðum verði að veruleika, en hins vegar er mikið ákall um bættar samgöngur á landinu öllu og get ég vel skilið það.
Í þessari stuttu ræðu langar mig að ræða vegarkafla sem er reyndar ekki oft í umræðunni, það er vegurinn um Kjalarnes. Nauðsynlegt er að tryggja að mikilvægar vegaumbætur um Kjalarnes fari af stað ekki síðar en árið 2018, en gert er ráð fyrir þeim framkvæmdum í samgönguáætlun sem hæstv. innanríkisráðherra lagði fram á Alþingi og samþykkt var fyrir nokkrum vikum. Dag hvern fara um 6 þúsund bílar um Kjalarnes. Stór hluti þeirra sem fara um Kjalarnesið er fólk sem fer daglega til og frá vinnu og býr í sveitarfélögum norðan megin ganganna. Ég og margir þessara aðila höfum verulegar áhyggjur af stöðunni og umferðaröryggi þeirra sem fara þennan veg. Nú er það svo að komnar eru mjög djúpar rásir í veginn. Í miklu vatnsveðri eins og hefur verið í haust og vetur eru þessar rásir mjög varasamar. Þeir sem fara um veginn í slíku veðri verða helst að keyra út í vegarkanti til að hafa almennilega stjórn á bílnum. Einnig er það svo að á of stórum köflum vegarins vantar merkingar og jafnframt er leiðin mjög dimm. Skyggni getur verið erfitt og liggur oft við slysum í þeim umferðarþunga sem er þarna dag hvern.
Ég vil nýta þetta stutta tækifæri hér í störfum þingsins og minna á mikilvægi þessa þó að ég geri mér fulla grein fyrir því að víða sé þörfin mikil.”
Elsa Lára Arnardóttir í störfum þingsins 13. desember 2016.