Virðulegi forseti.
Í viðtali í síðustu viku sagði yfirlæknir ónæmisdeildar Landspítalans, með leyfi forseta: „Það sem gerist er að það verður þessi gríðarlega samvinna og samskipti. Okkar fremstu vísindamenn á alþjóðavísu og fyrirtæki á þessum markaði fara að deila upplýsingum. Þetta er einstakt – sigur fyrir mannkynið, ef ég má orða það sem svo“.
Það viðhorf er orðið ríkjandi að samvinnan og samskiptin muni leiða okkur út úr þessu ástandi sem ríkir í heiminum um þessar mundir. Þetta er viðhorf sem er inngróið í stefnu Framsóknar enda hefur flokkurinn í gegnum tíðina verið boðberi samvinnunnar sem leysir úr læðingi helstu framfaramál í sögu þjóðarinnar.
Heimsfaraldur kórónuveirunnar hefur fært okkur mörg og stór verkefni. Hver hefði ímyndað sér fyrir ári síðan að fara þyrfti í aðgerðir til að tryggja flugsamgöngur til landsins, tryggja almenningssamgöngur milli svæða, heimila sérstaklega fjarfundi hjá sveitarstjórnum því fólk gæti ekki komið saman, og margt fleira má telja upp. Þá má ekki gleyma því að í miðju kófinu í vor voru samþykkt lög og þingsályktanir um samgönguverkefni sem að heildarumfangi nema 900 milljörðum króna næstu 15 árin. Í því felast störf, meira umferðaröryggi og aukin lífsgæði um landið allt.
Það sem stendur upp úr í mínum huga er þó sú samheldni sem hefur einkennt viðbrögð þjóðarinnar. Fólk hefur tekið höndum saman um að berjast við veiruna þótt það hafi kostað fórnir, bæði efnahagslegar og hvað varðar breytingu á daglegu lífi fólks. En líkt og þjóðin hefur staðið með sóttvarnaryfirvöldum þá mun Framsókn og þessi ríkisstjórn standa með þjóðinni. Nú er mikilvægasta verkefnið að verja störf og skapa störf – fjölbreytt störf um allt land því áfall ferðaþjónustunnar er áfall landsbyggðanna. Í viðbragðinu nú leika tvö ráðuneyti Framsóknar lykilhlutverk, félags- og barnamálaráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið sem tryggja velferð okkar og skapa tækifæri okkar fyrir framtíðina.
Stærsta ákvörðun, sú langstærsta, sem þessi ríkisstjórn hefur tekið er ákvörðunin um að mæta þessari kreppu ekki með skattahækkunum eða niðurskurði heldur með sókn. Við sækjum fram með auknum fjárfestingum ríkisins á sama tíma og við grípum þá sem lenda tímabundið í hremmingum vegna atvinnumissis. Þetta getur þessi ríkisstjórn af því hún hefur breiða skírskotun. Hún er ríkisstjórn jafnvægis og með þessu jafnvægi hefur okkur tekist að ná samstöðu um að breyta námslánakerfinu, barnamálakerfinu, húsnæðiskerfinu, samgöngukerfinu – svo nokkur mál Framsóknar séu nefnd.
Heimsfaraldurinn getur leitt til sundrungar og átaka en líkt og þegar kemur að því að ráða niðurlögum veirunnar sjálfrar þá þurfum við samvinnu til að byggja upp sterkara samfélag. Framsókn mun hér eftir sem hingað til vinna að sátt um framþróun samfélagsins. Sú sátt verður ekki til með öfgum til hægri eða vinstri. Framtíðin ræðst á miðjunni.
Ræða Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formanns Framsóknar á Alþingi 27. ágúst 2020.