Categories
Fréttir

Börn eru í leit að alþjóðlegri vernd á Íslandi!

Deila grein

05/07/2019

Börn eru í leit að alþjóðlegri vernd á Íslandi!

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, segir það „ánægjulegt að forsætisráðherra muni formlega leggja það fyrir ríkisstjórnina að þingmannanefnd um útlendingamál verði falið víðtækara hlutverk en nú er,“ í yfirlýsingu í dag.
„Þá fagna ég frumkvæði dómsmálaráðherra og tek af heilum hug undir mikilvægi þess að meiri áhersla verði lögð á að skoða framkvæmd laganna með tilliti til barna og að fulltrúi minn fái sæti við það borð,“ segir Ásmundur Einar.
„Undanfarna daga hafa málefni barna á flótta verið mikið til umræðu í þjóðfélaginu og ekki að ástæðulausu. Börn hafa sérstöðu í velflestum málaflokkum og þurfa á því að halda að við, hin fullorðnu, verndum þau svo best sem okkur er mögulegt. Með það að markmiði hef ég einmitt lagt áherslu í embætti á endurskoðun á þjónustu við öll börn á Íslandi. Í því samhengi skiptir uppruni barna ekki máli. Börn eru börn, hvaðan sem þau koma,“ segir Ásmundur Einar.
„Börn á flótta eru sérstaklega viðkvæmur hópur en í síðustu viku afhenti UNICEF á Íslandi mér skýrslu um verkefnið „HEIMA: móttöku barna í leit að alþjóðlegri vernd frá sjónarhóli barnsins“. Þar koma fram ýmsar athugasemdir um móttöku og þjónustu við börn í leit að alþjóðlegri vernd á Íslandi, m.a. að bæta þurfi verkferla.
Það virðist sem við getum gert betur að þessu leyti og í því, eins og í öllu er varðar börn skal ávallt haft í huga hvað sé barni fyrir bestu.“