Categories
Fréttir

Bráðaaðgerðir nauðsynlegar til stuðnings íslenskri matvælaframleiðslu

Deila grein

20/05/2025

Bráðaaðgerðir nauðsynlegar til stuðnings íslenskri matvælaframleiðslu

Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, vakti athygli á Alþingi á þeirri ógn sem hækkandi raforkuverð hefur í för með sér fyrir íslenska matvælaframleiðslu. Hún lagði ríka áherslu á að núverandi aðstæður ógni bæði matvælaöryggi og þjóðaröryggi og kalli á skýr og tafarlaus viðbrögð frá stjórnvöldum.

„Öflug matvælaframleiðsla hér á landi er ekki bara samofin menningu okkar. Hún er hluti af þjóðaröryggisstefnu okkar. Hún er hluti af lýðheilsumarkmiðum,“ sagði Halla Hrund.

Samkvæmt þjóðaröryggisstefnu Íslands gegnir innlend matvælaframleiðsla lykilhlutverki í að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar. Þá hafa stjórnvöld sett sér það markmið að efla sjálfbæra framleiðslu og draga úr notkun sýklalyfja og mengandi aðferða í landbúnaði. Til að þessi markmið náist þurfi orkuverð að vera fyrirsjáanlegt og samkeppnishæft, ekki síst fyrir minni framleiðendur.

„Við notum hér græna orku, við notum minna af sýklalyfjum […] og svo er hún líka hluti af framtíðarsýn í ferðaþjónustu.“

Í ræðu sinni lýsti Halla Hrund yfir áhyggjum af því að þrátt fyrir útgefin virkjanaleyfi muni sú orka ekki skila sér inn á markaðinn á þessu kjörtímabili. Þetta skapi mikla óvissu fyrir fjölbreyttan hóp orkufrekra framleiðenda, þar á meðal garðyrkjubændur og bleikjueldisstöðvar víðs vegar um landið.

„Við erum að grafa undan matvælaiðnaði með hækkandi raforkuverði […] það setur alla þessa ólíku matvælaframleiðendur í erfiða stöðu.“

Þrátt fyrir jákvæð skref, svo sem einskiptisstyrki til garðyrkjubænda, kallar Halla Hrund eftir frekari aðgerðum. Hún leggur til að horft verði til tímabundins sértæks stuðnings, svo sem við uppsetningu sólarorkukerfa eða annarra sjálfbærra lausna sem geti dregið úr raforkukostnaði á meðan aðstæður eru óhagstæðar.

„Ég spurði hér um auka tímabundnar aðgerðir […] til að halda raforkukostnaði niðri.“

Halla Hrund ítrekaði að tíminn væri naumur og kallaði eftir tafarlausum aðgerðum til að tryggja rekstrargrundvöll íslenskrar matvælaframleiðslu.

„Við erum að tala hér um bændur sem eru m.a. á köldum svæðum og eru að sjá miklar hækkanir líka.“

Að hennar mati eru það einungis markvissar og tímanlegar aðgerðir sem geta komið að gagni:

„Við erum með orkumarkað þar sem algerlega óvíst er að þessir minni aðilar fái orku á hagkvæmu verði.“